14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (1267)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Það er alveg rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að það er ekki ástæða til að rifja upp aftur þær umr., sem fram hafa farið um hafnargerð á Sauðárkróki. Deiluefnið er hliðstætt, sem sé hvað mikið fé ríkissjóður eigi að leggja fram til slíkra mannvirkja. Við, sem erum í minni hl. n., höllumst að því, að ríkissjóður styrki hafnargerðir sem þessar og framlag hans skuli vera hlutfallslega hið sama til þeirra allra.

Það er eins og sumum standi stuggur af hvað mörg slík frv. liggja hér fyrir hv. deild, enda verður kostnaðurinn að vísu mikill, en með því að athvarf handa bátaflotanum vex, vex einnig framleiðslan og tekjur ríkissjóðs að sama skapi.

Það er skiljanlegt, að þar, sem útgerð er að festa rætur, rísi upp kröfur um það, að ríkið hlaupi undir bagga og styðji hana, einkanlega eftir þá miklu rausn, er það sýndi í fyrra með framlagi sínu til hafnargerðar á Skagaströnd. Það er ekki nema eðlilegt, að sú von hafi vaknað hjá mönnum, að þeir fengju sömu kjör, og snúi sér því til þingsins og fari þess á leit. Það fór nú að vísu svo á þinginu í fyrra, að dregið var úr því framlagi, sem hæstv. stj. vildi vera láta, en þó var það allríflega af hendi látið, þar sem framlag ríkissjóðs var ákveðið 2/5 kostnaðar og heimild gefin til að hann tæki á sig ábyrgð allt að 350 þús. kr.

Ég ætla ekki að fara að lýsa því frekar en gert hefir verið, hvernig með þessi mál hefir verið farið í hv. sjútvn., en vil aðeins lýsa yfir því, að það ráð, sem minni hl. tók, var hið eina rétta, því að hvað þyldi að vera að togast á um málin með sífelldum bollaleggingum, þegar vitanlegt var, að hv. meiri hl. vildi ekki láta þau ganga fram? Þótt einhverjir kunni að narta í okkur í minni hl. fyrir þá aðferð, sem við tókum, þá tek ég það ekki nærri mér.

Ég er því fylgjandi, að ríkið styrki héruð til hafnargerða, eftir því sem geta er til, og ég felli mig ekki við það, að gert sé upp á milli manna í því efni. Að því er snertir það frv., sem hér liggur fyrir, þá get ég látið nægja með að vísa til orða hv. flm. við 1. umr. þessa máls. Ég vil leggja sérstaka áherzlu á það, að samfara aukinni bátaútgerð er nauðsynlegt, að hafnir séu fyrir hendi, sem þeir geta leitað til og hafzt við á.

Nú eru í Dalvík heimilisfastir 19 bátar, og má það teljast allgóð undarstaða, en ef höfnin yrði bætt, gætu miklu fleiri bátar hafzt þar við.

Í einu atriði er þetta frv. frábrugðið hinum, sem nú liggja fyrir hv. deild, en það er í því, að frv. fer fram á, að 2/5 kostnaðar séu veittir skilyrðislaust. Minni hl. sjútvn. fannst rétt að samræma það við hin frv. og hefir því leyft sér að vera það að skilyrði, að féð verði veitt í fjárl. Þá eina breyt. vill minni hl. gera, en samþykkja frv. að öðru leyti óbreytt, og eftir þeirri samþykkt, sem gerð var hér næst á undan, má gera ráð fyrir, að þetta frv. verði látið sæta sömu kjörum.