14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í C-deild Alþingistíðinda. (1269)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Bernharð Stefánsson:

Ég er hv. frsm. meiri hl. sammála um það, að ekki sé ástæða til að fjölyrða mikið um þetta mál, því að ég lít svo á, að umr. þær, sem fram fóru um hafnargerð á Sauðárkróki, eigi einnig við um önnur samkynja frv., og lít ég svo á, að hv. deild hafi sýnt vilja sinn um öll þessi 3 hafnarfrv. með því að samþ. frv. um hafnargerð á Sauðárkróki. Ég fæ ekki hugsað mér, að atkv. falli öðruvísi um þetta mál en hitt, sem var næst á undan.

Mér er það bæði ljúft og skylt að þakka hv. minni hl. sjútvn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls, og ég get raunar þakkað allri n. fyrir góðar undirtektir, þótt hv. minni hl. vilji að vísu afgreiða frv. á annan og óhagkvæmari hátt fyrir Svarfdælinga. Við brtt. hv. minni hl. hefi ég ekkert að athuga, því að ég gerði ekki ráð fyrir, að þetta framlag yrði skilyrðislaust bindandi fyrir ríkissjóðinn, hvenær sem heimtað yrði, heldur yrði að veita upphæðina í fjárl., en mér hafði hinsvegar láðzt að setja þetta ákvæði inn í frv.

Í frv. eru smáatriði, sem þyrfti máske að laga, en ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í það nú, en mun ef til vill flytja brtt. við 3. umr. Ég þykist sjá, að þetta mál muni fá góðar undirtektir, og ég er þess fullviss, að í framtíðinni verður það til mikillar blessunar og heilla fyrir héraðið.