21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Jónsson:

Hv. þm. Ísaf. féllst á, að breyta þyrfti samþykktum Eimskipafélagsins til þess, að það gæti notfært sér ríkisstyrkinn til hlutakaupa. En hann álítur ekki nema sjálfsagt fyrir félagið að gera þetta. Þessi samþykkt félagsins er tvímælalaust varnarráðstöfun gegn því, að fáir aðilar geti sölsað undir sig of mikil yfirráð í félaginu. Þetta er til þess að tryggja, að almenningur geti haldið áfram að vera þar aðaleigandi. Hér er beint stefnt að því, að annar aðili sölsi undir sig völdin. Ég veit, að þessi hv. þm. telur það ekki skaða, þó að ríkið eignist félagið. En þar er önnur hlið, sem að almenningi snýr. Þetta, sem hér er lagt til, hlyti að fæla menn frá því að eiga hluti í félaginu. Vill meiri hl. hv. þdm. játa með atkv. sínu, að það sé tilgangur sinn? Það væri að brjóta algerlega í bág við anda félagslaganna.

Og þó að búið væri að breyta samþykktum félagsins, þá hefi ég bent á þá erfiðleika, sem eru á því fyrir félagið að taka við þessum styrk samt sem hlutafjárauka. Segjum, að hann yrði notaður eingöngu sem hlutafé eftir heilbrigðum rekstrarreglum, en ekki til árlegrar eyðslu. Þá væri tillag ríkissjóðs bara eins og gott lán fyrir félagið, sem þó væri skuldbundið til að standa straum af árlegum vöxtum á því. En fari þetta í kostnað og sé látið ganga til þurrðar í árlegum rekstri, þá rýrnar hlutafé félagsins sjálfs á hverju ári um jafnmörg „prósent“ og ríkistillaginu nemur af allri hlutafjárupphæðinni. Ef félagið er rekið þannig, þá eiga hlutafjáreigendur eftir nokkur ár ekki nema lítinn hundraðshluta af fé sínu. Slíkt væri vitaskuld ekki annað en útþynning hlutafjárins, sem stefndi að því að gera hlutabréfin svo að segja einskis verð. Það er ómögulegt að hugsa sér, að þetta sé heilbrigt, enda hefir hæstv. fjmrh. neyðzt til að játa það algerlega, og mér skilst hv. frsm. fjvn. líka með því að lesa upp bréfið frá félaginu. (BÁ: Ég gerði ekkert annað en skyldu mína).

Hv. þm. Ísaf. var ekki á móti því, að þetta gengi út yfir hluthafana. En það væri ósæmilegt af þingmanni að hvetja til þess að reka félagið þannig. Þetta er bara till. um það, hvort Alþingi vili halda áfram að styðja félagið eða vill, að ríkið dragi sig til baka og láti arka að auðnu, hvernig fer í samkeppninni við hin útlendu félög.

Hv. frsm. síðari kaflans og fleiri hv. þm. hafa gert mikið veður úr bréfum þeim, sem Þórður Bjarnason hafi sent til einstakra kjósenda við bæjarstjórnarkosningarnar hér í vetur. Ég skal verða stuttorður um það, því að ég tala undir þolinmæði hæstv. forseta:

Í þessu bréfi ber Þórður Bjarnason alls engin rök fram önnur en rök templara. Þar stendur aðeins: Það eru svona margir okkar vinir á þessum lista og svona margir á hinum. Ef þið viljið kjósa bindindismenn, þá kjósið þið þá lista, þar sem þeir eru. — Með því mælir hann með steikustu andstæðunum, C-lista og A-lista, en ekki B-listanum, af þeirri einföldu ástæðu, að þar eru ekki bindindismenn. Hv. þm. (BÁ) er bara á „wrong car“, eins og Englendingar segja, þegar hann er að gefa Stórstúkunni þetta að sök: Hann hugsar ekki um þetta, þegar æðsti maður reglunnar, stórtemplar, mælir með því að fylgja Framsóknarflokknum.

Það er rangt að taka háskólann til samanburðar við stórstúkuna. Templarar hafa svo mikilla hagsmuna að gæta, að þeim er ekki láandi, þó að þeim sé kappsmál að eiga fulltrúa í bæjarstjórnum og á Alþingi: En þeim til lofs verð ég að segja, að þeir hafa skipt sér niður á flokkana alla, en alls ekki gert pólitík að félagsmáli. Það nær því engri átt að ætla að binda hendur templara, þegar þeir tala til templara, eða fella að öðrum kosti fjárveitingar til stórstúkunnar.

Svo ætlaði ég að minnast einu orði á elliheimilið í Reykjavík. Hv. frsm. talaði mjög vingjarnlega um stofnun þess, enda var ekki annað hægt. En hann vildi ekki nú fremur en fyrr mæla með fjárveitingunni til þess. Hann sagði, að það væri Reykjavík ein, sem ætti að sjá fyrir þessu. Það er ekki Reykjavík ein, sem nýtur góðs af heimilinu, þó að hún hafi orðið að leggja fram 24/25 af því, sem til þess hefir verið kostað, eða það hefir komið inn á einhvern hátt fyrir stuðning manna úr Reykjavík. Ég vil leiðrétta það í ræðu hv. þm., að þetta sé sérmál bæjarins, af því að stofnunin sé eingöngu handa þurfamönnum hans. Að vísu notar bærinn þetta hæli handa þeim, þegar svo ber undir, en hinir eru fjöldamargir, sem borga þar fyrir sig. Þannig kemur fjöldi manna utan af landi til að kaupa sér þar vist. Það er líklega nálægt heimingur fólksins á Grund, sem tilheyrir ekki fremur Reykjavík en öðrum landshlutum. Þetta er hæli, þar sem menn eiga að geta alið elliár sín þolanlega, þó að þeir eigi ekki annað heimili. Það væri svívirðing, ef þingið vildi ekki styðja svona stofnun. Ég trúi því ekki fyrr en ef atkvgr. sýnir mér það. Einn hlutur er erfiðastur. Það er að gera vistina á stofnuninni ódýra. Það var álitið, þegar fyrst var mælt fyrir þessu, að 2,60 kr. á dag muni nægja. (HK: Það er nokkuð dýrt). Já, hjá því er ekki gott að komast, þegar búið er að reisa vandað hús og kosta miklu til. Ég veit ekki, hvað þingið getur gert betra við fé landsins en að verja dálítilli upphæð til þess að gera þessu vesalings fólki vistina ögn ódýrari. Ég veit ekki, hvað er gert í alþjóðar þágu, ef það er ekki að hjálpa slíkum mönnum.