14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í C-deild Alþingistíðinda. (1271)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Hannes Jónsson:

* Það er nú nýbúið að samþykkja við 2. umr. mjög svipað mál og þetta, nefnilega hafnargerð á Sauðárkróki, og ég geri ráð fyrir, að með því séu örlög þessa frv. ráðin, en ég verð að segja, að mér lízt ekki á stefnu þingsins í þessu máli.

Ef gengið væri að till. meiri hl. n. í þessu máli, myndi Dalvík ekki þurfa að leggja eins mikið fram hlutfallslega og önnur héruð, sem eru að koma upp hjá sér bryggjum, en ég fæ ekki séð af hvaða ástæðum slíkt ætti að eiga sér stað. Ég fæ ekki skilið, hvers vegna eigi að hvetja héruð til þess að tildra upp hjá sér höfnum, þegar það er vitanlegt, að allar eru þær gerðar að mestu upp á ríkisins kostnað.

Þess er skemmst að minnast, að hafnarmannvirkin í Vestmannaeyjum eru nú búin að gleypa eina milljón, því að við árslok 1928 er ríkið búið að greiða ½ millj. af ábyrgð, sem það tók á sig, og 350 þús. kr. í beint framlag og auk þess rúmar 300 þús. kr. samkv. samþykktum 1927 og '28. Í þetta verk er sem sagt komin rúm ein millj. úr ríkissjóði og mikill minni hluti þess fjár er framlag, en allt hitt stafar af ábyrgðum. Ég fæ ekki séð, hvað þetta ráðslag getur haldið lengi áfram, og veit ekki, af hvaða ástæðum er verið að hlaða ábyrgðum á ríkissjóð, þar sem fyrirfram er vitanlegt, að hlutaðeigandi héruð geta ekki staðið í skilum. Tilætlunin. er bersýnilega sú, að ríkissjóður skuli borga brúsann.

Hér er það sama sagan og um ýms mannvirki á Suðurlandi, að þó það sé látið heita, að svo og svo mikið fé verði lagt fram, þá er þó endirinn sá, að ríkið verður að taka allt á sínar herðar. Mér virðist því full ástæða til að fara varlega í slík mál sem þessi, og þótt hér sé aðeins um heimild að ræða, og þetta verði að samþykkjast í fjárl., verð ég nú að segja það, að mér finnst hv. þm. ekki vera svo varkárir þegar verið er að afgreiða þau, að hægt sé að treysta því, að þetta komi ekki til framkvæmda á næstu árum. Það er enginn efi á því, að það rekur brátt að því, að þetta verður tekið upp í fjárl., og þeir, sem að þessu standa, munu finna hvöt hjá sér til að koma sínum málum á framfæri og hefja kapphlaup og hafa öll brögð í frammi til að koma þeim inn í fjárl.

Ég er ekki trúaður á það, að ríkið geti mikið í þessu efni, ekki sízt fyrir þá sök, að við höfum nú orðið að binda nokkrar millj. í þessum nýja banka, og það má ekki búast við, að það fé losni brátt né gefi mikinn arð í aðra hönd.