14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (1272)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Hákon Kristófersson:

Ég ætla ekki að lengja þessar umr., en af því að hv. þm. Vestm. var ekki viðstaddur til þess að heyra ræðu hv. þm. V.-Húnv., þá þykir mér eftir atvikum rétt að segja nokkur orð. — Mér þykir það gegna furðu mikilli, að jafnmætur maður og hv. þm. V.-Húnv. skuli geta fengið af sér að standa upp hér í d. til þess eins að telja eftir þær fjárhæðir, sem ríkið hefir veitt til hafnarbóta í Vestmannaeyjum. Það lítur helzt út fyrir, að hann gleymi því, hver er aðallandsdrottinn Vestmannaeyja. Það er ríkið, sem á eyjarnar. Það er oft talað um það, hvílík blessun það væri, ef ríkið ætti allar jarðir á landinu. En af þessum eftirtölum hv. þm. mætti ætla, að reynsla sú, sem fengizt hefir í þessum efnum í Vestmannaeyjum, gæfi ekki sem beztar vonir um nytsemi þjóðnýtingar á jarðeignum. En hvað sem því líður, þá ber og á það að líta, að höfnin í Vestmannaeyjum hefir þegar komið að stórmiklu gagni, bæði verndað líf og eignir fjölda manna og ennfremur orðið hinum upprennandi útvegi í Vestmannaeyjum hin mesta lyftistöng. Hafa hafnarbæturnar í Vestmannaeyjum óbeinlínis aukið tekjur ríkisins stórlega í tollum og sköttum, og ekki nóg með það, heldur og aukið eignir ríkisins um það, sem fjárframlögunum hefir numið, og sennilega miklu meira, ef tekið er tillit til þeirrar verðhækkunar, sem hafnarmannvirkin hafa skapað á löndum og lóðum ríkissjóðs í Vestmannaeyjum. Hitt er vitanlegt, að alltaf kennir einhverra mistaka í framkvæmd svo risavaxinna mannvirkja, og ætti hv. þm. V.-Húnv. ekki að gera sér meiri mat úr því en skynsamlegar ástæður liggja til. Að jafnan sé leitað undankomu frá því að standa við skuldbindingar af hálfu hérðanna við ríkið, þá trúi ég ekki, að slík fullyrðing sé á rökum byggð. Eða heldur hv. þm., að Skagastrandarmenn muni refjast við að greiða það, sem þeim ber út af fyrirhuguðum mannvirkjum? Ég held ekki. En hvað sem því líður, þá ætti hv. þm. ekki að mæla á þessa leið. Honum ætti að vera það ljóst, hversu mikill grundvöllur hafnirnar eru undir afkomu ríkis og einstaklinga. Og hann ætti ennfremur að gera sér ljóst, hve mikil skylda hvílir á ríkinu um það að tryggja bátaflotann, sem flýtur við landsins strendur og færir landsins börnum heim björg og blessun úr djúpi sjávarins. Á þetta ættum við hv. þm. V.-Húnv. að geta fest sameiginlegt auga. Mig furðar þess vegna stórlega á því, að hv. þm. skuli láta orð falla á þennan veg hér í deildinni. Um hitt, þó að einn fái meiri tilstyrk en annar úr ríkissjóði, þá ætti ekki að þurfa að gera rekistefnu út af því einu saman, en ef það er það, sem vakir fyrir hv. þm. V.-Húnv., þá mætti ætla, að honum gangi einungis lítilfjörleg öfund til. Hvað Dalvík snertir í þessu sambandi, þá lítur helzt út fyrir, eftir framlögðum upplýsingum hér í d., að frv. um hafnarbætur þar sé ekki að ófyrirsynju flutt, heldur af brýnni þörf.

Ég mun svo ekki segja meira að sinni, en hefi sagt þessi fáu orð af því, að mér leiðist þetta síendurtekna nudd sumra hv. þm. yfir því, að nokkru fé skuli vera varið til eflingar sjávarútvegi landsmanna. Ég vil vona, að hv. þdm. séu að viti og víðsýni vaxnir upp úr því að ljá slíku eyra til langframa.