07.04.1930
Efri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

19. mál, fræðslumálastjórn

Jón Þorláksson:

Mér þykir hálfóviðkunnanlegt, að báðir hv. þm., sem hafa talað, hafa blandað inn í óskyldu efni, nefnilega launum þeirra embættismanna, sem ekki er vísað til í þeirri frvgr., sem hér er farið fram á að breyta. Í frv. er ekki farið fram á, að launakjör fræðslumálastjóra verði jöfn launakjörum landssímastjóra, eins og báðir þessir hv. þm. hafa þó orðað. (JónJ: Það er þá misminni). Já, því að það er vegamálastjóri, vitamálastjóri og húsameistari, sem launin eru miðuð við.

Ég er nú þeirrar skoðunar, að í sjálfu sér séu þau laun, sem stungið er upp á í brtt:, alls ekki of há fyrir fræðslumálastjóra. En hinsvegar get ég ekki í mínum huga fundið rök fyrir því, að það embætti eigi að vera hærra launað en embætti vegamálastjóra og vitamálastjóra, og raunar ekki húsameistara heldur, ef hægtværi að skoða það embætti hliðstætt öðrum slíkum embættum. En það mun hafa verið svo fram til þessa tíma a. m. k., að húsameistari hefir haft jafnframt embættinu svo mikil önnur störf á sinni skrifstofu fyrir eiginn reikning, að hans staða er kannske ekki sambærileg við hinna. Þetta hefir verið tekið til greina m. a. í því, að hann sjálfur er látinn bera kostnað af skrifstofuhaldinu, vitanlega með hliðsjón af þeim tekjum, sem hann hefir af starfinu í skrifstofunni. Ég get því ekki talið þetta sambærilegt, ef samskonar tilhögun er þar enn.

Um vegamálastjóra og vitamálastjóra gaf hv. flm. það í skyn, að þeir hefðu launahækkun í fjárlögum. En mér er alveg ókunnugt um það og verð að draga það í efa, meðan ekki er færð fram nein sönnun fyrir því. En ég er ánægður með að samþykkja þessa brtt., ef í henni mætti felast, að vegamálastjóri og vitamálastjóri skuli njóta sömu launakjara og þeirra, sem brtt. fer fram á handa fræðslumálastjóra. Það er vitanlegt, að launalögin eru orðin úrelt að mörgu leyti og mjög nauðsynlegt að endurskoða þau. Þingið virðist hafa kveinkað sér við að framkvæma endurskoðun, vegna þess, að það er ekki vinsælt mál fyrir kjósendum. En þörfin sést glöggt í því, að þegar stofnuð hafa verið ný embætti á síðustu árum, þá eru launin alltaf hærri en svarar til launalaganna frá 1919. Og það eru komnar svo margar viðurkenningar frá þeim þingmeirihluta, sem nú ríkir, fyrir því, að það sé ekki á neinn hátt gerlegt lengur að samræma laun hinna eldri embætta við þau launakjör, sem ný embætti krefjast.

Mér heyrðist á hv. flm. brtt., að hann hefði athugað þetta eitthvað sérstaklega; og ég vil fyrir mitt leyti, áður en ég tek afstöðu endanlega til brtt., heyra það, sem hv. flm. hefir fyrir sér í því, að vegamálastjóri og vitamálastjóri hafi launauppbót í fjárlögum umfram það, sem 17. gr. launalaga ákveður þeim.