14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í C-deild Alþingistíðinda. (1278)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það er tæplega eyðandi orðum að þessu máli, eins og nú er komið. En út af orðum hv. frsm. minni hl. og hv. flm. og fleiri hv. þm. þykir mér rétt að segja nokkur orð: Að vísu hefir hv. þm. V.Húnv. svarað hv. frsm., og hefi ég litlu við það að bæta. En þó er eitt atriði í ræðu hv. frsm., sem ég vil ekki láta ósvarað. Hann viðhafði þau orð, að ég og við meirihlutamennirnir í n. hefðum borið fram yfirvarpstill. í þessu máli. Hvað getur hann fært til sönnunar því, að hér sé um yfirvarpstill. að ræða? Eru ekki till. meiri hl. með eðlilegri varhyggð gerðar? Eða hefir n. ekki rétt til að gera till. um þau mál, sem hún hefir til meðferðar? Mér er satt að segja ekki ljóst, hvað eiginlega vakir fyrir hv. þm. með þvílíkum sleggjudómi. Hann hallar hér réttu máli, eða a. m. k. viðhefir hann um þetta óviðeigandi orð. Meiri hl. n. hefir gert sérstakar till. um afgreiðslu heildarlaga um öll þessi hafnarmálefni, og það er ástæðulaust með öllu að kalla slíkt yfirvarpstill. fremur en aðrar till. yfirleitt. En um þessi öfugmæli hv. frsm. er óþarft að ræða fleira. Meiru máli skiptir hinsvegar sú fullyrðing, sem oft er haldið fram, bæði af hv. flm. og fleirum, að ekki megi víkja út frá þeirri reglu, sem þingið í fyrra fylgdi um þessi efni, þegar hafnarlög fyrir Skagaströnd voru afgr. Þetta er býsna einkennileg staðhæfing. Eins og það sé sjálfsagt, að sá, sem hefir misstigið sig einu sinni, eigi að gera það æfinlega. Eins og það sé sjálfsagt, að ef eitthvert verk hefir mistekizt, að þá eigi að endurtaka mistökin koll af kolli. Auk alls þessa ber á það að líta, að síðan þessum málum var ráðið til lykta í fyrra hafa komið fram nýjar upplýsingar, sem máli skipta, nefnilega aðvaranir frá erlendum lánardrottnum um erfileika við að kynnast og taka réttilegt tillit til þessara sífelldu ábyrgða ríkissjóðs í ýmsum áttum vegna mannvirkja bæja og héraða eða jafnvel einstaklinga. (PO: Hvaðan koma þessar aðvaranir?). Það er hægt að upplýsa hv. þm. um það við tækifæri, en ekki verða þær aðvaranir taldar óverulegt atriði. Þess vegna hefir líka meiri hl. n. lagt til, að frekari varúðar verði gætt um þessar ábyrgðir. Till. þær. er að þessu lúta, eru á þskj. 237. Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en út af tilmælum hv. 4. þm. Reykv. um það, að við tækjum aftur brtt. meiri hl., skal ég taka það fram, að ég sé mér það ekki fært, enda sé ég enga ástæðu til þess. Tel ég ekki eftir d. að greiða atkv. um brtt. okkar. Hún getur fellt hana, ef henni sýnist, og skiptir það litlu máli, hvort d. afgreiðir þetta mál einni mínútunni fyrr eða síðar.