14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (1279)

102. mál, hafnargerð á Dalvík

Hannes Jónsson:

* Hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm. létu allófriðlega í ræðum sínum og bitu í skjaldarrendurnar eins og víkingar. Tóku þeir sig allvel út, svo sem vænta mátti; sérstaklega þótti sópa að hv. þm. Barð., enda er hann gervilegur og hinn vígamannlegasti. (JJós: Við erum það báðir). Þó mun hv. þm. Vestm. hafa þótt hann helzt til linhöggur, því að hann tók upp vopnin aftur til þess að vega að mér. Hann kallaði mig spámann, og læt ég mig það litlu skipta. Ég talaði einungis um raunveruleikann, nema ef hann kallar það spádóma, að ég kvaðst ekki hafa trú á því, að Vestmannaeyjar gætu endurgreitt ríkinu það, sem ríkissjóður hefir greitt umfram til hafnarbóta þar. Hann lét alldólgslega yfir þessu og fannst, að eiginlega stæði ekkert upp á Vestmannaeyinga. Nei, það stendur víst ekkert upp á þá, þó að ríkið borgi allt, bara af þeirri einföldu ástæðu, að ríkið á Vestmannaeyjar! Ég skal gera hv. þm. tilboð. Ef hann vill fylgja því, að ríkið styrki bryggjugerð á Hvammstanga eins og í Vestmannaeyjum (Rödd í salnum: Hrossakaup?), þá skal ég sjá um, að ríkið fái allar lóðirnar. (ÓTh: Vill hv. þm. tryggja ríkissjóði 600 þús. kr. útflutningsgjald á ári?). Það er allt annað mál. Ég hygg, að ekki séu í neinu hlutfalli þau fjárframlög, sem lögð hafa verið til Hvammstanga og Vestmannaeyja. Þó að tekjurnar séu svona miklar af Vestmannaeyjum, þá hefir ríkið líka útgjöld af þeim.

Það var alveg eins fyrir hv. 2. þm. Eyf. Hann bjóst við því, að Svarfdælingar mundu borga allt, sem ríkið ábyrgðist fyrir þá. Þegar menn eru að taka lán, dettur þeim auðvitað ekki í hug að segja, að þeir ætli aldrei að borga þetta. Ég býst við, að í flestum tilfellum sé það þeirra hjartans sannfæring, að þeir geti borgað. En svo verður sú raunin á, að þeir geta ekki greitt lánin. Og þetta hefir einmitt hent Vestmannaeyinga, að þeir hafa ekki getað staðið straum af skuldbindingum sínum, og ríkið orðið að taka við, af því að það hafði gengið í ábyrgð. Hér þýðir ekkert að afsaka með því, að ríkið eigi Vestmannaeyjar, því að úr því þeir hafa gengið inn á þetta, verða þeir að standa við það. Og svo er um hvern og einn, sem tekur lán á ábyrgð ríkisins, að hann verður að hugsa sér að geta staðið fullkomlega skil á því á sínum tíma, en ekki að slengja því á þjóðina í heild sinni.

Ég vil taka það fram, sem ég hefi reyndar gert áður, að það stóð talsvert öðruvísi á um hafnargerð á Skagaströnd heldur en um þessar hafnargerðir nú. Ein aðalástæðan fyrir hafnargerð á Skagaströnd var sú, að á Húnaflóa er afarlítið um hafnir, og afskaplega vont fyrir skip að liggja þar, ef gerir norðanveður. Einhver var að gera lítið úr þeirri ástæðu fyrir því, hve erfitt væri að ná höfn á Húnaflóa, að þokur væru mjög tíðar inn með Ströndum. Sami hv. þm. sagði, að líklega gætu víðar komið þokur en á Húnaflóa. Mig minnir, að það væri hv. 2. þm. Skagf. En ég skil ekki í öðru en að hann hljóti að viðurkenna, að það er mjög mismunandi, hve þokusælt er hér á landi, og sérstaklega er þokusælt inn með Ströndum. Ef hv. þm. hefir átt leið fram með Ströndum, mun honum þetta kunnugt. En honum mun ekki vera ljúft að stíga á skipsfjöl. — Oft er það svo, að þótt bjart sé á öllum austurhluta Húnaflóa, þá getur verið ómögulegt að ná höfn, hvorki á Hólmavík né Hvammstanga, og þaðan af síður á Borðeyri. Og þegar skipin geta hvergi athafnað sig þar, eru þau neydd til þess að sigla út úr flóanum. Einmitt fyrir þetta var frekari ástæða til að byggja höfn á Skagaströnd. (MG: Vegna þokunnar?). Nei, það eru fleiri ástæður til þessa; en því meiri sem rökin verða, því frekari ástæða er til þess að hefjast handa. Það var líka bent á, að Skagaströnd lægi sérstaklega vel fyrir síldveiði. Ég hygg, að hv. þm. Skagf. geti ekki fært nein rök að því, að Sauðárkrókur liggi eins vel, hvað þá betur en Skagaströnd til síldveiði. (MG: Jú, það getum við!). Þeir geta sagt eitthvað, en ekkert, sem tekið verði til greina af þeim, sem vit hafa á. Ég vil benda á það, að þrjú undanfarin ár hefir síldveiði verið inni á Húnaflóa löngu eftir að síld var horfin alstaðar annarsstaðar við land. Er þess skemmst að minnast nú síðasta sumar, og hygg ég, að hv. 2. þm. G.-K. hafi haft einhver not af því. (ÓTh: O, ekki eyri). Ætli það hafi ekki verið síld þaðan, sem hann var að lofa mönnum á fundi í Hvammstanga, þegar hann var að biðja þá um að þegja, sem voru að grípa fram í fyrir honum. (ÓTh: Heyr á endemi!).

Ég þarf ekki að verja aðstöðu mína gagnvart hafnargerð á Skagaströnd; það hafa verið færð þau rök fyrir því, að Skagaströnd ætti að koma ú undan öðrum höfnum. En þótt sjálfsagt sé að byggja höfn á einum stað, þá er það engin sönnun fyrir því, að eigi að halda áfram og byggja höfn á öllum stöðum kringum land. Hv. þm. vilja kannske láta allt það fé, sem gengur til nauðsynlegustu útgjalda. fara til hafnarbygginga. Það má sjálfsagt verja öllu fé, sem ríkið hefir, til verklegra framkvæmda í nokkuð mörg ár, þangað til búið væri að byggja upp hafnir á öllum þeim stöðum, sem hugsanlegir væru. Og að halda langar hrókaræður um það, hvílíkar framfarir þetta séu fyrir hlutaðeigandi sveitir, það er að skjóta yfir markið. Því að það vita allir, að það er framför fyrir héruðin að fá höfn. En annað þarf að athuga, hvort ekki sé hægt að verja fénu til annara framkvæmda, sem séu ennþá happadrýgri en þetta. Við verðum að sneiða hjá því að leggja í stórkostlega dýr fyrirtæki, sem hægt væri að komast af án. Af þessu álít ég, að bryggjugerðir séu einmitt sú leið, sem við eigum að velja. Við getum víða komizt af með þær, og þær verða margfalt ódýrari en þessi hafnarmannvirki.

Ég vil að endingu segja það út af orðum hv. 4. þm. Reykv., að ég sé enga ástæðu til þess að taka til baka brtt. við þetta frv., þó að þær hafi fallið við atkvgr. um hitt frv., því að ég get ekki annað séð en að megi laga það frv. og setja það í samræmi við þetta frv. eins og það verður afgr. núna. En að taka þessar brtt. til baka, þótt þær hafi fallið með sáralitlum atkvæðamun við hina atkvgr., er ástæðulaust, því að ekki voru nema 13 atkv. á móti þeim, svo að þær geta orðið samþ. með 15:13 atkv. við 3. umr.