21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurður Eggerz:

Hv. frsm. síðari hl. lagðist á móti styrknum til Guðrúnar Magnúsdóttur ljósmóður og rökstuddi það með því, að ég hefði ekki fært næg rök fyrir því, að hún ætti rétt á að fá þessa hjálp. Ég veit ekki, hvað veigamikil rök hv. frsm. heimtar til réttlætingar þessum styrk, en ég skýrði frá því, að þessi ljósmóðir gegndi starfi sínu í tíu ár, en varð þá að láta af því vegna veikinda, sem hún fékk upp úr einni af ferðum sínum. Mér finnst því ekki nema sjálfsögð sanngirni að veita þessari ljósmóður eftirlaun, og ég vænti þess, að hv. frsm. og hv. fjvn. verði ekki svo harðsvíruð að standa á móti því, að svo verði gert.

Ég hefi jafnan verið með styrknum til Stórstúkunnar, og er það enn. Mun ég því greiða atkv. með hærri upphæðinni. Hinsvegar vil ég ekki setja stúkunni neitt skilyrði með styrknum. Slíkt er rússneskur hugsunarháttur, sem er í alla staði fordæmanlegur, þó að því verði ekki neitað, að ýmislegt bendir til þess, að þessi hugsunarháttur eigi meiri ítök hér í þinginu en hefði mátt ætla. Það nær engri átt að vera að binda stúkuna, þó að henni sé veittur þessi styrkur, heldur á hún að vera frjáls um að taka hverja þá afstöðu, sem hún telur heppilega fyrir bindindisstarfið.

Ég held, að hv. frsm. fyrri kaflans hafi verið farið að dreyma um það, að eldhúsdagurinn væri byrjaður. Það var svo mikil æsing í þessum rólega manni, þegar hann var að svara mér. En hvað sagði ég, svo að það mætti setja sál hv. frsm. í þessa ógnar hreyfingu? Þegar hv. frsm. lagði með þungum orðum á móti fjárveitingu til síma í Dalasýslu, benti ég á aðstöðumuninn á kjördæmi hans og kjördæmi mínu. Það var allt og sumt, sem ég gerði.

Hv. frsm. þótti það undarlegt, að ég, sem væri búinn að vera ráðh., skyldi ekki þekkja betur, hvernig hagaði til í kjördæmi hans, en ræða mín hefði borið vitni um. Ég veit ekki betur en að hægt sé að þjóta í bílum svo að segja um þvera og endilanga Árnessýslu, enda hefir svo miklu verið varið til vegagerða þar, að lítill hl. þeirrar upphæðar mundi vekja hina mestu gleði í mínu kjördæmi. Þá liggja allvíðþætt símakerfi um sýsluna, þar hefir nú verið reistur einn af þessum nýju skólum, sem enginn veit, hve miklu fé hefir verið varið í, og eru þó ótalin öll þau hundruð þúsunda, sem gengið hafa til áveitugerða þar eystra. Og nú liggur við stjórnarbyltingu út af járnbrautinni. a. m. k. hefir hv. 2. þm. Rang. lýst yfir því skýrt og skorinort, að svo framarlega sem stj. snérist ekki vel við í járnbrautarmálinu, mundi hann yfirgefa hana. Og ekki nóg með það, heldur skoraði hann á hv. 1. þm. Árn. að gera hið sama. Vil ég taka undir þá áskorun hv. 2. þm. Rang., því að vissulega mundi birta, til og létta yfir þjóðinni, ef svo giftusamlega mætti takast að losna við hæstv. núv. stj.

Hv. frsm. fyrri kaflans er ótrauður til þess að ausa fé til síns eigin kjördæmis á öllum sviðum, en þegar ég fer fram á lítilfjörlega fjárveitingu til símalagningar í mínu kjördæmi; hefir hana ekki einu sinni þolinmæði til þess að bíða eftir skýringu frá minni hálfu, heldur eys yfir mig óbóta eldhúsdagsskömmum fyrir að hafa vogað mér að fara fram á slíkt. Mér datt þó ekki annað í hug en að öll landbúnaðareyru í þinginu væru opin fyrir þessari málaleitan minni fyrir hönd kjördæmis míns. En það er nú eitthvað annað en að svo sé. Ef guð hefði ekki gefið mér eins mikinn kjark og ég hefi, væri ég löngu bognaður undir þeim skömmum, sem hv. frsm. hefir hellt yfir mig út af þessari till., ekki einungis í sínu eigin nafni, heldur og í nafni fjvn. og þjóðarinnar. Á ári hverju er varið stórfé til símalagninga hér og þar um landið, og þó að Dalamenn beri þau útgjöld, sem af því leiðir, hlutfallslega við aðra landsmenn, eiga þeir að vera rólegir og símasambandslausir. Og fulltrúi þeirra á þingi þjóðarinnar er tekinn og atyrtur, þegar hann vill halda á rétti þeirra. Hv. frsm. fyrri kaflans má vera þess fullviss, að það græðir enginn meirihlutaflokkur á því að sýna annað eins ranglæti og kemur fram í þessu, að synja einu kjördæmi um þann rétt, sem öðru er gefinn. Það græðir enginn á því að standa á móti réttmætum kröfum.

Ég vil ekki níðast á frjálslyndi hæstv. forseta með því að hafa þessa aths. lengri, en ég get ekki annað en lýst undrun minni yfir þeirri æsingu, sem kom fram í ræðu hv. frsm. og virtist bera vitni um einhvern pólitískan öldugang í sál hans.