14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (1312)

104. mál, hafnargerð á Akranesi

Pétur Ottesen:

Af því að svo stendur á tíma, að bráðum verður fundarhlé, hefði ég líklega getað látið niður falla að tala við þessa umr., með því að ég geng út frá því, að svo fari með afgreiðslu þessa máls, sem frv. þeirra um þetta efni, sem samþ. hafa verið hér á undan. En af síðustu orðum hv. frsm. meiri hl., þar sem hann sagði í miklum hótunartón, eins og sá, sem valdið hefir, að farið yrði höndum um þetta mál síðar, þá vil ég ekki slá því á frest að fara nokkrum orðum um málið nú þegar og taka til athugunar þessar hótanir hans og önnur ummæli, sem frá honum hafa fallið í sambandi við hliðstæð mál hér á undan.

Ég býst við, að hv. þm. hafi átt við það, að hann og flokkur hans ætlaði að fara höndum um þetta mál. En ég veit ekki, hversu náið samband hans við hv. Ed. er um meðferð þessa máls. En vera má, að bak við tjöldin séu stjórnarflokkarnir búnir að ráða með sér, hver verði forlög þessara hafnarmála á þessu þingi. Framkoma frsm. meiri hl. er slík í þessu máli, að hann hafi hér þann bakhjall, er nægi til, að hamla á móti framgangi þessa mikla nauðsynjamáls á þessu þingi, að það er engu líkara en að hann hlakki yfir því að hafa forlög þess í hendi sér.

Áður en ég sný mér að ummælum einstakra þm. um þetta mál, ætla ég að fara nokkrum almennum orðum um hafnargerð á Akranesi og nauðsyn fyrir henni. En áður en ég fer út í það að tala um hafnargerð á Akranesi, finnst mér rétt að benda á það, hvernig ástatt er nú með útgerðina við Faxaflóa.

Í öllum verstöðvum utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar eru mjög slæmar hafnir, eða réttara sagt hafnleysi, og það hefir ekki verið gerður nokkur skapaður hlutur til þess að bæta úr því. Hið eina, sem hægt er að segja að gert hafi verið, er að byggja bryggju við bátaleguna Lambhússund á Akranesi, sem gerð var með styrk úr ríkissjóði í hlutfalli við það, sem áður tíðkaðist um slík mannvirki. Þessi lendingarbót gerði útgerðarmönnum kleift að leggja aflann á land þar heima fyrir, en það veitir vitanlega ekkert öryggi fyrir þann bátaflota, sem verður að haldast þar við. Það er því svo ástatt í verstöðvum hér við Faxaflóa, að það er alveg hafnlaust og bátaflotinn, sem þar hefst við, í sífelldri hættu, þegar brim og stórviðri eru, sem náttúrlega er mjög algengt, þar sem aðalvertíðin ber upp á vetrarmánuðina, þegar mestra illviðra er von. Ég skal ennfremur bæta því við, að þó að góðar hafnir séu í Reykjavík og Hafnarfirði, þá er ómögulegt að stunda þaðan sjó á vélbátum, sem verða að koma að á hverjum degi, vegna þess, hversu langt er á þau mið, sem þeir verða að sækja. Þær hafnarbætur, sem gerðar hafa verið á þessum stöðum, koma því ekki að neinu liði fyrir vélbátaútveginn við Faxaflóa. Skal ég nú lýsa ástæðum nánar og skýra það, hver nauðsyn sé til, að eitthvað sé gert til þess að vernda vélbátaútgerðina við Faxaflóa.

Samkv. upplýsingum, sem ég hefi fengið hjá Fiskifélagi Íslands, var aflinn í veiðistöðvunum við Faxaflóa, öðrum en Reykjavík og Hafnarfirði, síðastl. ár 28883 skpd. Þetta er fiskur, sem verkaður hefir verið þar til útflutnings. Í þessari skýrslu er þó ekki talinn sá afli, sem bátar úr þessum veiðistöðvum og bátar annarsstaðar að, sem héldu þar til á vetrarvertíðinni, lögðu upp í Hafnarfirði og Reykjavík. En það er vitanlegt, að það var mikill fiskur, því það er algengt að salta fiskinn í stóru bátana þangað til þeir eru fullfermdir og sigla síðan með hann til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar og selja hann þar. En ekkert af þessum fiski er talið með í þeirri upphæð, sem ég nefndi áðan. Ég get t. d. lent á það, að 4 bátar, sem gerðir voru út á Akranesi, lögðu afla upp í Reykjavík og Hafnarfirði, er nam 1569 skpd. Nú var það svo, að á síðustu vetrarvertíð stunduðu 20 stórir aðkomubátar fiskveiðar við Faxaflóa. Voru þeir einkum frá Vestmannaeyjum og Norðurlandi og héldu til í Sandgerði og Njarðvík. Þeir lögðu aflann upp í Reykjavík og Hafnarfirði. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið frá Fiskifélagi Íslands, hefir sá afli numið 8605 skpd. Samanlagt hefir því aflazt á báta, sem gerðir voru út frá þessum veiðistöðvum 39057 skpd., eða nálega 40 þús. skpd. Er það 10% af öllum þeim fiski, sem fluttur var saltaður og verkaður á erlendan markað síðastl. ár.

Þetta, sem hér hefir verið talið, er vitanlega ekki nema nokkur hluti alls þess fiskjar, sem hefir komið á land í þessum verstöðvum. En eftir upplýsingum, sem forstjóri Fiskifélags Íslands hefir gefið mér, mun hæfilegt að meta þann afla, sem verkaður var til úfflutnings í þessum veiðistöðvum, á 3905700 kr., eða 3,9 millj. kr. Hér er þó ótalið verðmæti lýsis, fiskiúrgangs (hausa, hryggja o. s. frv.), hrogna o. þ. h., Sömuleiðis allur nýr fiskur, sem fluttur hefir verið á markaðinn hingað til Reykjavíkur. Hefi ég aflað mér upplýsinga um verðmæti þess hluta af aflanum, og telst mér svo til, að verðmæti fiskiúrgangs o. þ. h. nemi um 640 þús. kr. og verðmæti nýs fiskjar um 360 þús. kr. Eftir þessu er þá verðmæti þess fiskjar, sem aflazt hefir í þessum veiðistöðvum árið sem leið samtals 4905700 kr., eða nálega 5 millj. kr.

Þá vil ég ennfremur sýna fram á, hve mikið fé stendur í þeim skipastól, sem gerður er út frá þessum veiðistöðvum, og þá í sambandi við það sýna fram á þá hættu, sem þessi floti er í vegna hafnleysis.

Eftir þeim upplýsingum, sem forseti Fiskifélags Íslands hefir gefið mér, eru nú gerð út frá þessum veiðistöðvum 2 línuveiðagufuskip, 66 vélbátar stórir og 52 opnir vélbátar. Auk þess eru 20 aðkomubátar stórir í Sandgerði og Njarðvík á þessari vertíð. Eftir upplýsingum frá sama manni, nemur áætlað verðmæti þessa skipastóls 3180500 kr. (Hér með er þó ekki talið verð veiðarfæra á þessum bátum).

Þegar ég nú hefi sýnt fram á, hversu mikill hluti af öllum þeim afla, sem lagður er hér á land árlega, veiðist frá þessum verstöðvum og hversu mikið fé stendur í þeim skipastól, sem gerður er út frá þessum veiðistöðvum, þá finnst mér, að öllum hljóti að vera það ljóst, að ekki er ástæðulaust, þótt farið sé fram á það, að ríkissjóður láti eitthvert fé af mörkum til hafnargerðar, til þess að tryggja þennan atvinnurekstur, og ennfremur að taka ábyrgð á þeim hluta, sem nauðsynlegur er til þess að málið geti komizt í framkvæmd.

Ég skal ennfremur geta þess, að auk þess, sem bátalegurnar á ýmsum þessum stöðum eru svo ótryggar, sökum þess að þær liggja fyrir opnu hafi og úfnum sjó eru sumar þeirra svo þröngar nú orðið, að hættan eykst af þeim sökum jafnhliða því, sem bátum fjölgar. Þar má ekkert út af bera, svo að bátarnir rekist ekki hver á annan. Þetta bætist þá við þá erfiðu aðstöðu, sem áður var fyrir hendi.

Þessu næst vil ég fara nokkrum orðum um skilyrðin og möguleikana fyrir því, að ráða bót á hafnleysinu í verstöðvunum við Faxaflóa, og í því sambandi vil ég benda á það, að þetta mál var athugað nokkuð árið 1917, þegar Kirk verkfræðing var falið að fara með ströndum landsins til þess að athuga möguleika fyrir hafnargerðum. Hann athugaði þá einnig möguleika fyrir hafnargerð hér við Faxaflóa. Hann áleit, að hafnargerð í Njarðvík mundi kosta um 2¾ millj. kr. (2735 þús. kr.), höfn í Keflavík fyrir fáeina báta 2 millj. kr., en í Sandgerði mundi það kosta tugi millj. kr. að gera höfn, sem að nokkru liði kæmi.

Hinsvegar hefir nú nýverið farið fram nákvæm rannsókn á hafnargerð á Akranesi, og hefir þá komið í ljós, að það er tiltölulega miklu ódýrara að gera þar höfn en nokkursstaðar annarsstaðar við Faxaflóa. Það er niðurstaðan af þeirri rannsókn, sem þetta frv. um hafnargerð á Akranesi, sem hér er til umr., er byggt á.

Það er nú orðið svo ástatt á Akranesi, síðan Akurnesingar fóru að stunda fiskveiðar á vélbátum heiman að á vertíðinni, að hættan af hafnleysinu hefir aukizt mikið fyrir útgerðina. Nú eru á Akranesi 2 línuveiðagufuskip, 22 stórir vélbátar og 8–10 opnir vélbátar. Bátalegan á Lambhússundi er nú alveg fullskipuð, svo ekki er hægt undir neinum kringumstæðum að bæta við fleiri bátum, fyrir það hvað legan er þröng. Hafa þó verið gerðar allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að sem bezt notist að plássinu á bátalegunni. og er það nú notað út í yztu æsar.

Það er því ómögulegt að bæta við fleiri bátum og þar með útilokuð öll aukning á þessum útvegi heima fyrir. Línuveiðagufuskipin tvö geta ekki lagt afla sinn upp á Akranesi, og verða því að leggja hann á land í Reykjavík eða Hafnarfirði. Það er þó mikið hagsmunaatriði að geta lagt aflann á land og verkað heima fyrir, því að það eykur stórum atvinnuna í kauptúninu.

Ég vil ennfremur benda á það, að svo hagar til á þessum veiðistöðvum við Faxaflóa, að á síðustu vertíð var lagður meiri afli á land á Akranesi en nokkurri annari veiðistöð við Faxaflóa. Síðastl. ár var þar lagt í land og verkað til útflutnings 10586 skpd., en í Sandgerði t. d., sem er næst í röðinni, 7221 skpd. Þannig horfir málið við, og ég ætla, að öllum hljóti að vera það ljóst, að ástandið er nú orðið svo í þessu efni á Akranesi, að það er óhjákvæmilegt að hefjast handa og gera þær umbætur þar, sem tryggi það, að það athafnalíf, dugnaður og framtakssemi, sem þar er, fái notið sín og blómgazt til heilla og blessunar fyrir þjóðarheildina.

Ég skal ennfremur benda á það, að auk þess, sem aðstaða er bezt og kostnaðarminna, þó dýrt sé, að gera höfn á Akranesi en í öðrum veiðistöðvum við Faxaflóa, þá hefir höfn á þeim stað miklu meiri og víðtækari þýðingu þar en nokkursstaðar annarsstaðar við flóann, og veldur því hið stóra og blómlega hérað, sem liggur upp af Akranesi, Borgarfjarðarhéraðið allt, því á Akranesi er eina útflutningshöfnin, sem þetta hérað á, þar sem Borgarfjörður er ekki gengur millilandaskipum. Er það ómetanlegt gagn hverju héraði að eiga góða útflutningshöfn, og því meiri sem tímar líða. Einnig liggur Akranes þannig við samgöngum milli Norður- og Vesturlands og Reykjavíkur, að höfn þar myndi hafa stórmikla þýðingu fyrir þær.

Þá hefi ég dregið hér saman, hversu mikla þýðingu það hafi fyrir þjóðarbúskapinn í heild sinni, að eitthvað sé gert til tryggingar fiskveiðum við Faxaflóa. Ennfremur hefi ég lýst skilyrðum þeim, sem fyrir hendi eru til að færa út kvíarnar, ef aðstaðan er bætt. Og ég get ekki betur séð en hér séu öll skilyrði fyrir hendi, sem réttlæti það, að leitað er styrks hins opinbera til þess að koma þessu í framkvæmd. Og það sjá allir, að því brýnni er þörfin á þessum slóðum, þar sem aðalvertíðin stendur yfir um háveturinn, þegar veður eru hörðust.

Ég hefi fengið þau orð frá hæstv. forseta (JörB), að þegar vel stæði á að skipta ræðu minni, þá vildi hann fresta fundi. Nú er að því komið. Ég mun næst koma að því, í hvaða hlutfalli hafi áður verið veitt úr ríkissjóði til slíkra fyrirtækja, og minnast á þá stefnubreyt., sem gerð var á síðasta þingi í þessu efni. Auk þess mun ég taka til athugunar ýms þau ummæli, sem komið hafa fram í sambandi við þetta mál. Loks vil ég skjóta því til hæstv. forseta, hvort mál þetta geti ekki orðið 1. mál á dagskrá á morgun, ef ekki verður fundi haldið áfram nú í dag kl. 5. Vænti ég, að hæstv. forseti verði við þessum sanngjörnu tilmælum mínum.