15.03.1930
Neðri deild: 54. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í C-deild Alþingistíðinda. (1315)

104. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Hv. þm. Borgf. var óvenjugunnreifur í síðustu ræðu sinni, og var það einnig í gær, enda má telja þessa ræðu hans síðustu eins og framhald af ræðum hans í gær.

Ég mun nú ekki svara þessari löngu ræðu orði til orðs, né heldur átelja það, þótt hv. þm. fylgi kappsamlega þessu máli. Ég vil aðeins leiðrétta það, sem hann fór skakkt með og lýtur að mínum afskiptum af þessu máli.

Hv. þm. sagði, að ég væri á móti hafnargerð á Akranesi, og þetta leyfði hann sér að staðhæfa fullum fetum.

Þetta er auðvitað á engum rökum byggt og fullkomin fjarstæða. Ég hefi þvert á móti lagt til, að þessu máli verði sinnt með miklu framlagi og ábyrgð frá ríkissjóði, en auðvitað ekki jafnmiklu og hv. flm. vill vera láta. Get ég í því sambandi skírskotað til þeirra ummæla, sem ég hefi haft um nauðsyn hafnarbóta á Akranesi, þar sem ég hefi afdráttarlaust haldið því fram, að hún væri þar meira aðkallandi en víðast annarsstaðar. Ég held því, að hv. flm. hafi tekið árinni helzt til djúpt í, er hann lýsti andstöðu minni við þetta mál.

Hann átaldi till. meiri hl. í mörgum efnum, t. d. um það, að setja beri heildarlög um hafnargerðir. Ég skal nú ekki deila við hann um þá till., en svo virðist mér þó, að slíkt fyrirkomulag hafi margfalda yfirburði yfir núverandi skipulag — eða skipulagsleysi. T. d. má henda á þann auðsæja kost, að með slíkum heildarlögum myndi falla niður þessi eilífa togstreita um einstakar hafnir, líkt og var um brýr, þangað til brúarlögin komu, 1919. Áður en þau lög komu, var deilt um einstakar brýr frá ári til árs, en síðan eru þær deilur úr sögunni að kalla.

Nú fannst hv. þm. það sitja miður á mér en mörgum öðrum þm. að vilja láta takmarka ábyrgð ríkisins á lánum til hafnargerða, þar sem ég horfði ekki í ábyrgðir, þegar mitt kjördæmi ætti í hlut.

Ég skal fúslega gera samanburð um þetta við hans kjördæmi: Ríkið ábyrgist fyrir mitt kjördæmi 2 lítil rafveitulán, sem alls nema 170 þús. kr. En með till. mínum og meiri hl. n. er mælt með þrefalt hærri ábyrgð til eins hrepps í hans héraði, Akraneshrepps, auk þess sem áður hefir verið tekin ábyrgð á Mjallarláni og fleiru fyrir hans hérað. — Og auk þess er nú svo ástatt, að tekjur ríkissjóðs af mínu kjördæmi munu vera allt að því tífaldar við hans kjördæmi. Ég sé því ekki, að ég halli í nokkru á hv. þm. eða kjördæmi hans í till. mínum. Hitt skal ég viðurkenna, að ég tel, að fengnum upplýsingum um þá hættu, sem getur stafað og hlýtur að stafa af sífelldum ábyrgðum á hendur ríkinu, að gæta þurfi fyllstu varúðar um þá hluti.

Að vísu dettur mér ekki í hug, að hægt sé að fella slíkar ábyrgðir með öllu niður, heldur hitt, að gjalda verði frekar varhuga við þeim en hingað til hefir verið gert.

Þá lýsti hv. þm. því yfir, að ég hefði gefið ranga skýrslu um ábyrgðir ríkissjóðs. Og hann tók jafnvel svo djúpt í árinni, að staðhæfa, að ég hefði beinlínis falsað skýrsluna um meira en helming. Þetta eru ærið stór orð, og efa ég stórlega, að hv. þm. geti staðið við þau. Ég vil því láta hann vita það, að ég hefi í höndum skýrslu um þessi mál frá fjármálaráðuneytinu, og samkv. henni nema ábyrgðirnar yfir 11 millj. króna. Ég hefi því ekki sagt meira en ég get staðið við, og gæti hv. þm. því sparað sér slík gífuryrði. Reyndar eru ekki allar þessar ábyrgðir vegna hafnarmannvirkja, en þó verulegur hluti þeirra. Ég sé ekki ástæðu til að lesa þessa skýrslu upp hér í deildinni, en ég hefi á reiðum höndum sannanir fyrir því, að ég hefi farið rétt með þá skýrslu, sem ég hefi gefið hér um þessar ábyrgðir.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hlaupa fram fyrir skjöldu vegna annara þm., sem hér eiga hlut að máli, enda munu þeir sjálfir færastir og fúsastir til þess að verja gerðir sínar og skoðanir. En að því er kemur til þeirra orða minna í gær, sem hneyksluðu hv. þm. svo mjög, að farið yrði höndum um þetta frv. síðar meir, þá átti ég við það, að frv. ætti eftir að ganga í gegnum 3. umr. hér og allar umr. í Ed., og ég get búizt við því, að einhver lagfæring geti á frv. orðið á þessari leið. En bezt þætti mér, vegna hv. þm. Borgf., að frv. gengi fram eftir till. meiri hl. sjútvn., enda væri þá vel við málið skilið. Frekar hirði ég ekki að svara hv. þm. Borgf. að þessu sinni.