21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. síðari kafla (Bjarni Ásgeirsson):

Það eru aðallega tvö atriði, sem ég hefi þörf á að athuga í ræðu hv. 1. þm. Reykv. Annað eru þau ummæli, sem hann hafði um templara og hvort gæzlumaður þeirra hefði hallað á einstaka flokka. Í grein þeirri, sem þessi maður skrifaði fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, segir hann, hvert viðhorf templara eigi að vera gagnvart listum þeim, sem fram komu, og byrjar á því að telja upp marga menn af C-listanum, sem hann segir, að starfað hafi fyrir stúkurnar, þótt sumir vilji nú bera brigður á það. Svo snýr hann sér að einum manni, sem hann segir, að sé að vísu ekki í stúku, en hann sé nú góður samt. Síðan snýr hann orðum sínum að öðrum lista og segir, að þar sé ekki einn einasti templari, þótt það sé hinsvegar vitanlegt, að allir, sem á listanum voru, eru bindindismenn. Ég verð að álíta, að hér hafi Þórður Bjarnason gert sig sekan í ófyrirleitinni tilraun til blekkinga, enda skal ég játa það, að mér hafa borizt mótmæli gegn þessari yfirlýsingu hans.

Ef tilgangurinn hefir verið sá, að vinna með þessu að málefnum templara, virðist þessi maður hafa lent á röngum bás, því að ég veit ekki til, að Framsóknarflokkurinn hafi reynzt templurum illa, og ég hygg, að hann muni standast samanburð við þann flokk, sem þessi maður virðist fylgja, og sem hefir eina andbanningablaðið í sinni þjónustu.

Hvað yfirlýsingu Páls Ólafsonar viðvikur, þá er því til að svara, að hún var bersýnilega gerð til að bæta fyrir frumhlaup Þórðar Bjarnasonar, en alls ekki í pólitísku augnamiði, enda verð ég að segja það, að stúkan á því aðeins von á styrk frá minni hálfu, að hún fari ekki að blanda sér inn í pólitík.

Hitt atriðið, sem ég ætla að víkja að, er gamalmennahælið. Ég verð að segja, að ég álít ekki rétt af ríkinu að styrkja slíkt hæli á óheppilegasta staðnum, sem hægt var að velja því, því að það er vitanlegt, að Reykjavík er dýrasti staður á landinu. Rekstur hælisins verður því óþarflega dýr, enda varla við því búið, að aðsóknin verði mikil utan af landinu, heldur aðeins héðan úr Reykjavík.