05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (1332)

104. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Það er rangt hjá hv. þm. Ísaf., að ég hafi misnotað málfrelsi mitt í sambandi við hv. þm. Ak. Hv. þm. Ak. var flm. þess frv., sem um var að ræða, og ég sagði mína meining um það hreinskilnislega. Hinsvegar veit ég, að bæði hv. þm. Ísaf. og aðrir flokksbræður hv. þm. Ak. sárskömmuðust sín fyrir framkomu hans. Ég hefi oft orðið fyrir því, að efrideildarmenn, t. d. hæstv. dómsmrh., hefir talað um mig í Ed., og hafa það náttúrlega ekki allt verið blíðmæli, eins og nærri má geta.

Ég gat þess, að hv. þm. Ísaf. hefði mætt á 4 nefndarfundum af 23, þó að hann og fréttaritari hans þættust hneykslaðir og skömmuðu mig fyrir að mæta ekki nema á 13 fundum af 23. Hv. þm. afsakaði sig með kosningaönnum. Ég gæti engu síður afsakað mig með önnum, bæði vegna kosninganna og Íslandsbankamálsins. En úr því að hv. þm. skilur svona vel, að ýmsar ástæður geta legið til þess, að menn mæti ekki á nefndarfundum, á hann ekki að láta fréttaritara blaðs síns haldast uppi að vera með slettur til þingmanna, sem eru ekki sekari en hv. þm. Ísaf. er sjálfur, nema síður sé.