17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í C-deild Alþingistíðinda. (1346)

109. mál, ágangur búfjár

Hannes Jónsson:

* Ég hefi litla tilhneigingu til að mæla með þessu frv., þótt ég geti fallizt á, að það orki tvímælis, hvað langt á að ganga í einstökum tilfellum. Það, sem mér virðist vanta, er ákvæði um, hvernig á að fara að í ýmsum útsveitum, þar sem ekki er afréttarland, en fé gengur í heimahögum. Nú er það víðast þar, sem landþröng er, að menn eru farnir að girða, og það, sem er utan girðingar, er of lítið handa fénaðinum. Og þeir, sem hafa ekki ástæður til að girða, geta ekki notað land sitt, af því fénaður nágrannanna gengur á þá. Fyrirmæli, sem tryggðu þennan rétt einstaklinga, virðist mér, að mættu koma í 6. kafla þessa frv.

Það er eðlilegt, að mþn. hafi ekki getað farið að telja upp sveitir, þar sem svona er ástatt. Það er ekkert undarlegt, þó að hún hafi ekki getað kynnt sér staðhætti alstaðar á landinu. Landbn., sem væntanlega fær þetta mál, athugar þetta og gerir eitthvað til þess að tryggja það, að þessir menn, sem hafa litið land utan sinnar girðingar, get ekki ofsett á land nágranna sinna bæði sauðfé og sérstaklega hross. Það er áberandi í Húnavatnssýslu, þar sem svona er með ágang hrossa. Á sumum jörðum, sem eru landlitlar og mest land innan girðinga, er fjöldi hrossa, sem á að ganga á þessu landi, en gerir það auðvitað ekki nema að litlu leyti. Svona hagar til t. d. á Vatnsnesinu. Þar getur ekki komið til mála að girða heimalandið, því að þar er svo mikið fjalllendi, að það mundi alls ekki borga sig. Þó er graslendi þar takmarkað. Því er nauðsynlegt, að hver bóndi ofsetji ekki í sitt land. Ég vona, að hv. landbn. athugi þetta atriði.