25.02.1930
Neðri deild: 36. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í C-deild Alþingistíðinda. (1360)

136. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Ég hjó eftir því í síðustu setningunni í ræðu hv. flm., að hann kallaði sig fulltrúa allra bænda. (BÁ: Ég átti við Búnaðarþingsfulltrúana). Ég vil nú ekki kannast við, að hann sé nema lítill minni hluti í stjórn Búnaðarfélagsins. Hér eiga sæti tveir menn úr stj. Búnaðarfélags Íslands, og hefi ég áður lýst eftir hæstv. atvmrh., þar sem ég taldi vel við eiga, að deildin fengi að heyra álit hans, einkum þar sem ég ætla, að skiptar skoðanir séu um þetta mál í stj. Búnaðarfélagsins. Ég hefi jafnvel grun um, að hæstv. atvmrh. sé á öndverðum meið við hv. þm. Mýr. í máli þessu, og væri gott, að það kæmi fram, hvort svo væri eða ekki, þar sem hv. flm. segist bera hér fram kröfur fulltrúa allra bænda.

Ef hæstv. atvmrh. er bundinn annarsstaðar, vil ég mælast til þess, að hæstv. forseti fresti umr. unz hæstv. atvmrh. getur látið álit sitt í ljós.

Það er í rauninni óþarfi að fara að andmæla þessu frv., því að hv. 1. þm. Árn. hefir þegar sýnt, hver fjarstæða er hér á ferð. Á Alþingi 1923 voru sett þau ákvæði um stj. Búnaðarfélagsins, er nú gilda, og skyldu þau haldast meðan Búnaðarfélagið hefir þau mál með höndum, er það nú hefir. Hv. flm. segir, að þetta mál hafi verið knúð fram með fölskum rökum og röngum forsendum. Ég átti sæti í landbn., sem flutti málið, og sú n. átti tal um það við Búnaðarþingið. (BÁ: Umræðurnar eru hér). Mér er kunnugt um, að þar var ekkert fals á ferðum, heldur var hið bezta samkomulag milli Búnaðarþingsins og landbn. um breytinguna. Ein eða tvær raddir heyrðust andvígar þessu á þinginu, svo eindreginn var sá meiri hluti, sem taldi breyt. sanngjarnt og sjálfsagt skilyrði.

Hv. flm. segir, að grundvöllurinn fyrir breyt. hafi frá upphafi verið rangur, en þó hafi sú breyt. orðið á, að íhlutun þingsins sé enn meiri fjarstæða nú en hún virtist vera í fyrstu. Hann segir, að afskipti Búnaðarfélagsins af fé því, sem veitt er samkv. jarðræktarlögunum, séu aðeins fólgin í einföldu skrifstofustarfi.

Hv. 1. þm. Árn. hefir þegar kveðið þessa staðhæfingu niður. Alþingi felur Búnaðarfél. alla umsjá með jarðræktarlögunum, eins og búnaðarmálum yfirleitt. Það á að sjá um, að skynsamlega sé til framkvæmdanna stofnað og að þær séu vel af hendi leystar. Auk þess leggur Alþingi á vald Búnaðarfél., hve hár jarðræktarstyrkur er greiddur á hverjum tíma. Búnaðarfélagið má semja reglugerð, þar sem ákveða má, hvernig skuli úthluta styrknum. Að Búnaðarfélagið sjálft líti svo á, sýna aðgerðir þess síðastl. sumar, þegar það ákvað, að miklu meira skyldi vera lagt í dagsverkið en áður hefir tíðkazt, og jarðræktarstyrkurinn auðvitað lækka að sama skapi.

Af óbyltu landi voru áður í dagsverki 100 m., nú 300 m.

Af nýrækt voru áður í dagsverki 40 m., nú 50 m.

Af túnasléttum voru áður í dagsverki 50 m., nú 60 m.

Þessar breyt. bera vott um meira vald en svo, að hægt sé að kalla þessi afskipti almenn skrifstofustörf, og ég verð að segja, að ég er óánægður með þessar aðgerðir félagsins og tel þær bendingar um, að ekki eigi að leggja umsjón þessara mála skilyrðislaust í hendur þess.

Framkoma þessa frv. virðist aðeins byggjast á því hugboði, að einhverntíma geti komið upp ósamlyndi í stj. Búnaðarfélagsins. Á slíku hefir ekki borið síðustu sjö árin, og finnst mér því ótímabært að gera breyt. af þeim ástæðum, þótt einhverjir þykist geta séð í hillingum, að þetta geti komið fyrir.

Hv. flm. segir, að atvmrh. hafi sömu tök á félagsskapnum og áður, þótt þessi breyt. verði gerð, með því að hann megi velja annan endurskoðandann. Við skulum nú líta á muninn á hlutverki endurskoðanda og stjórnar. Verk endurskoðanda er fólgið í töluendurskoðun á reikningum félagsins, þegar búið er að gera þá upp, og þessi endurskoðun fer ekki fram fyrr en eftir meira en ár. Menn geta þess vegna ímyndað sér, hvar munur er á því að hafa íhlutun um stj. á félaginu, eða að hafa þar aðeins einn endurskoðanda, sem athugar reikningana, kannske ári eða þrem missirum eftir að þeir hafa verið greiddir. Það er allt annað en að hafa mann í stj. félagsins, því að það leiðir af sjálfu sér, að þeir menn, sem stj. félagsins skipa, eru háðir stöðugu eftirliti atvmrh., og hann getur á hverjum tíma gripið inn, ef honum finnst að þeir ætli að ganga í berhögg við það, sem Alþingi hefir falið Búnaðarfélagi Íslands; það er sá stóri munur, sem á því er.

Hv. þm. Mýr. virtist vera töluvert hneykslaður á því, að hv. 1. þm. Árn. minntist á það hér, hve mikið fé Búnaðarfélag Íslands fengi til umráða frá Alþingi. En sú tala, sem hv. 1. þm. Árn. nefndi, var ekki alveg rétt, vegna þess að upphæðin er miklu hærri nú heldur en hv. þm. nefndi, vegna þess að í stjfrv. er farið fram á, að Búnaðarfélagið fái til meðferðar að minnsta kosti 700 þús. kr. Nú er hv. þm. Mýr. ennfremur kunnugt um það, að fjvn. mun leggja til, að þetta verði hækkað nokkuð, og mun því sú upphæð, sem hér er um að ræða, ekki nema minnu en ¾ millj. alls.

Hv. þm. Mýr. taldi það með öllu ástæðulaust, að Alþingi væri nokkuð að skipta sér af fjárreiðum þessa félags, fram yfir það fé, sem ætlað er til styrkja samkv. jarðræktarlögunum eingöngu. En mér finnst, að hv. þm. hafi sjálfur, með flutningi þessa máls, gengið inn á það, að rétt væri, að Alþingi hafi íhlutunarvald um það fé, sem er fyrir utan þetta. Sá hluti grg. frv., sem um þetta fjallar, er að vísu ekki fluttur af hv. þm. sjálfum. heldur af nefnd, sem vann fyrir Búnaðarfélagið, en þar sem hv. þm. hefir tekið þessi orð upp í grg. frv., hefir hann gert þau orð að sínum orðum. Það er verið að tala um mismunandi tryggingu, sem ríkissjóði og Alþingi er í því að hafa íhlutunarrétt í stjórninni eða endurskoðanda. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því fyrirkomulagi getur atvinnumálaráðuneytið á hvaða tíma sem er fylgzt með í meðferð þess fjár, sem í hverjum fjárlögum er veitt Búnaðarfélagi Íslands, og þá gert áhrif sín gildandi, ef því sýnist stefnt til óhófs eða fánýtrar eyðslu“.

Þarna gengur hv. þm. inn á það sjálfur, að afskipti ríkisstj. og Alþingis séu ekki einasta bundin við það fé, sem veitt er samkv. jarðræktarlögunum, heldur allt það fé, sem því er veitt í fjárl.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, af því að hv. þm. Mýr. fór að andmæla því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um það, að mikið fé væri veitt til Búnaðarfélags Íslands, og þess vegna væri fullkomin ástæða til fyrir Alþingi, að það hefði nokkra íhlutun um það, hvernig ráðstöfun þess fjár væri hagað. Þar sem svo er um þetta mál, að hér er gerð tilraun til þess að dylja eða draga úr því góða samkomulagi, sem á sínum tíma var á milli Alþingis og Búnaðarþingsins um jarðræktarlögin, og í öðru lagi, þar sem þetta frv. er einungis breyt. á till. Búnaðarfélagsins, og af ótta við að þetta geti rekizt á í framtíðinni, þrátt fyrir það, þótt enginn slíkur árekstur hafi orðið hingað til —, þá finnst mér, eins og hv. 1. þm. Árn. tók fram, að þetta frv. eigi ekki að fara lengra að sinni en það er nú komið. Og það er einmitt með tilliti til þess, sem ég ber þá ósk fram við hæstv. forseta, að hann geri svo vel að fresta umr. þar til atvmrh. gefst tækifæri til að segja álit sitt, um það.