05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (1369)

136. mál, jarðræktarlög

Jörundur Brynjólfsson:

Ég sé enga ástæðu til að halda langa ræðu að þessu sinni. Ég verð að segja það, að rök þau, er hv. þm. Mýr. færir fram með frv. sínu, eru mér með öllu óskiljanleg. Svo var það í hans fyrri ræðu, og í síðari ræðunni kom hann eigi fram með neitt það, er hann hafði eigi haft á orði áður.

Ég verð að endurtaka það, að ég skil ekki þær ástæður, sem hann færir fram með þessu frv., sem er ekki um annað en það, hvernig stj. Búnaðarfélags Íslands skuli vera skipuð. Ummæli hv. þm. um, að við værum á móti þessu frv. af því, að við bærum ekki fullt traust til bænda, hafa við engan staf að styðjast. Við erum einmitt margir hverjir hér kosnir á þing af bændum, eða með atkv. þeirra. Við höfum því sannarlega enga ástæðu til að lýsa neinu vantrausti á bændum. Og heldur ekki á þeim, sem kjósa Búnaðarþingsfulltrúana, því að það eru einmitt margir hverjir sömu bændurnir, sem kosið hafa okkur á þing. En ástæðan til þess, að við erum á öndverðum meið við þetta frv., er sú, að við viljum tryggja Alþingi og stj. sjálfsagðan íhlutunarrétt um meðferð þess fjár, sem veitt er Búnaðarfélaginu.

Hv. þm. Mýr. vildi ekki fallast á það, að þing og stj. hefði meiri áhrif á starfsemi Búnaðarfélagsins með núv. skipulagi heldur en verða myndi, þó frv. hans yrði samþ. — Þetta er vitanlega hin mesta fjarstæða. Um áhrif stj. nægir að minna á til samanburðar ýmsa starfsemi og félagsskap, þar sem framkvæmdarstjórinn er beint undir ráðh. gefinn. Svo er t. d. um vegamálastjórnina, bankastjórnir o.fl. Bankastjórarnir eru t. d. skipaðir af ráðh., og það hefir þau áhrif, að bankastjórnin telur sér skylt að fara að vilja stj. um aðalstefnumálin, þótt þessa gæti ekki við daglegu störfin. Sama er með Búnaðarfélagið. Áhrifa þessa stjórnskipulags gætir ekki við daglegu störfin. En er mikilsverð málefni skulu ákvarðast, þá fara fram ráðagerðir milli stjórnarráðsins og Búnaðarfélagsstj. Á þann hátt er og fengin trygging fyrir því, að úrslitin verði í samræmi við vilja þingsins, því gera má ráð fyrir, að ráðh. verði jafnaðarlegast í samræmi við vilja þingmeirihlutans, og verður að standa honum reikningsskap af gerðum sínum. Er því mikill munur á, hvort Búnaðarfél.stj. er háð þessari íhlutun þings og stj. eða stendur algerlega óháð gagnvart þessum aðiljum. Það er að vísu hægt að segja það, sem hv. þm. bar fram, að klípa mætti af því fé, sem veitt er til búnaðarstarfseminnar, en naumast hægt að framkvæma það. Ef til slíks örþrifaráðs ætti að taka, væri í það óefni komið um stj. Búnaðarfélagsins, að vonandi þarf aldrei til slíks að koma. Og það á að fyrirbyggja slíkt, einmitt með því að halda því fyrirkomulagi, sem á þessum málum hefir verið hin síðari árin. Ótti hv. þm. um, að samkomulagið milli stj. og þings Búnaðarfélagsins verði verra með núverandi fyrirkomulagi á skipun stjórnarinnar, er að mínu viti alveg ástæðulaus. Og ég skil ekki, af hverju hann ímyndar sér, að svo verði. Enda játaði líka hv. þm., að samkomulagið nú væri hið ákjósanlegasta, og að þó frv. þetta yrði samþ., þá mundi Búnaðarþingið kjósa þessa sömu menn og nú eru stjórnskipaðir áfram.

Þá talaði hv. þm. um, hversu nú væri metið í dagsverk, og taldi það mat eigi vítavert. Hann sagði, að þeir, sem ættu að meta til verðlagsskrár, væru ekki bundnir af þessu. (BÁ: Þetta er mesti misskilningur!). Ef svo er, þá fell ég frá því. En það, sem máli skiptir, er það, hvern styrk bændurnir fá. En á því ræður mat úrslitum.

Þá talaði hv. þm. um þann endurskoðara, sem stj. ætti að skipa samkv. frv., og lagði mikið upp úr því aðhaldi, sem Búnaðarfélagið hlyti af starfi hans. Ég satt að segja skildi ekki hv. þm., sem annars er vanur að tala ljóst, og vissi ekki, hvað hann átti við með þessu. Ég held, að hv. þm. geti ómögulega álitið, að eftirlit og íhlutun Alþingis og atvmrh. verði tryggara með einum endurskoðanda heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er. Atvmrh. getur vitanlega spurt endurskoðendur þá, sem nú eru, og heimtað af þeim skýrslur. En auk þess er vitanlega mikil trygging í því, að stj. Búnaðarfél. er skipuð svo, sem hún er nú og oft hefir verið lýst.

Þá skal ég að lokum minnast á það, sem hv. þm. sagði um starfsemi Búnaðarfél. Íslands nú. Hann taldi, að samkv. jarðræktarlögunum væri starf Búnaðarfél. lítið annað en skrifstofuvinna, úthlutun styrks og eftirlit með jarðabótum. En þetta er ekki rétt. Í mörgum gr. jarðræktarl. er gert ráð fyrir meira starfi vegna þeirra. Búnaðarfél. á samkv. þeim að hafa eftirlit og umsjá með, að þau verk, sem styrkt eru, séu vel unnin. En auk þess er fleira. Í 23. gr. er t. d. gert ráð fyrir lánum af opinberu fé. En sú bankastjórn, sem hefir þá lánastarfsemi með höndum, má ekki veita lán nema eftir áætlun frá og með samþykki Búnaðarfélags Íslands. Þá eru einnig niðurlagsákvæði 29. gr., þar sem ákvæði eru um, að jarðabætur til greiðslu landskulda megi ekki taka gildar, nema samþykki stj. Búnaðarfél. Íslands komi til. Þá eru og ákvæði ýmsra annara gr., en þar sem ég drap á þau um daginn, skal ég eigi endurtaka þau nú. Að öllu þessu athuguðu hygg ég bezt muni fara að láta það fyrirkomulag ríkja enn um stund, sem nú er, og sem vel hefir reynzt. Rök hv. flm. hafa líka í raun og veru mælt bezt með því, að eigi sé rétt að breyta. — Að ég óskaði þess, að hv. flm. tæki frv. aftur, var af því, að ég taldi óþarfa, að hann hefði mikið fyrir máli, sem eigi á fram að ganga. Ég vildi ekki, að hann mæddi sig á að berjast slíkri vonleysisbaráttu. Að ég vil ekki heldur, að það fari í n., er af sömu ástæðu, enda tel ég, að frv. eigi þangað ekkert erindi. Ég segi þetta ekki af því, að ég vilji meiða hv. þm. með þessu. En þar sem óvíst er um, hvort tími vinnst til að afgreiða ýms mál, sem eru meira virði en þetta, þá er mér sárt um þann tíma, sem gengur í deilur um það. Og þótt því verði nú, eða öllu heldur flm. þess, sú linkind sýnd að láta það ganga til n., þá vona ég samt, að þessi hv. deild afgreiði það aldrei frá sér til hv. Ed.