05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í C-deild Alþingistíðinda. (1370)

136. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Hv. 1. þm. Árn. hefir gert hreint fyrir sínum og okkar dyrum um að sýna fram á, hver reginfjarstæða og rökvilla er í því falin, þegar hv. þm. Mýr. er að gera tilraun til að telja mönnum trú um, að enginn sé munur á stj. fyrirtækis, að það nefndi meiri hl. í stjórn þess, eða nefni bara einn endurskoðanda. Í slíkri samkomu sem Alþingi er ætti ekki að þurfa að eyða löngu máli til að hnekkja jafnmikilli fjarstæðu. Og ég hygg, að hv. 1. þm. Árn. hafi aðallega haldið sína ræðu til að sýna fram á og láta standa sem skýrast, hversu mjög er verið að vaða reyk í þessu máli. Ég ætla því ekki að fara inn á þetta frekar, heldur svara örfáum atriðum úr ræðu hv. þm. Mýr.

Þá er það fyrst, að hann sagði, að fulltrúar allrar bændastéttarinnar stæðu á bak við þessar kröfur. Ég veit nú ekki til, að þessar till., sem hér eru bornar fram, hafi komið fyrir Búnaðarþingið enn sem komið er. Mér er ekki kunnugt um annað en að 3 manna nefnd hafi verið kosin á Búnaðarþingi til þess að leggja till. fyrir næsta Búnaðarþing. Þess vegna er ekki hægt að benda á vilja bænda í þessu efni, nema bara þessara þriggja manna, sem að þessum till. standa, og hv. þm. Mýr. Þeir eru þá fjórir í allt. Það er ómögulegt að segja, hvort Búnaðarþingið muni fallast á þessar till. eða ekki. Hitt getur náttúrlega verið, að þetta sé í samræmi við álit einhverra af þeim, sem áttu sæti á síðasta búnaðarþingi. En búnaðarþingið hefir ekki formlega lagt nokkurt samþykki á þessar till.

Þá vildi hv. þm. ekki einasta draga í efa, heldur mótmæla því, að verið hafi gott samkomulag milli landbn. 1923 og búnaðarþingsins um að þetta skipulag yrði gert, — nefnilega að stj. eftir till. landbn. þingsins skipaði meiri hl. í stjórn Búnaðarfélags Íslands. Ég held ég hafi lýst yfir því við umr. hér í hv. deild, hvernig þetta gekk til. Það voru ekki nema tvær raddir, sem komu fram á þeim fundi, sem landbn. Nd. sat með búnaðarþinginu, til andmæla gegn þessu. Önnur frá Sigurði Hlíðar, en hin frá Halldóri Vilhjálmssyni á Hvanneyri. En svo bætir Halldór við þarna á fundinum, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrst þegar ég sá þetta lagafrv., þá fannst mér það alveg ógerningur, að landsstjórnin skipaði tvo menn í stjórn búnaðarmálanna. En nú finnst mér það rétt og eðlilegt, hættan, sem af því gæti stafað, minnkar sífellt í mínum augum“.

Að þessu athuguðu er það auðsætt, að það var í raun og veru ekki nema ein rödd, sem fram kom til andmæla gegn þessu fyrirkomulagi. Ef menn geta ekki talið þetta gott samkomulag um eitthvert atriði, þar sem margir menn eiga hlut að máli, þó að ein einasta óánægjurödd komi fram, þá veit ég ekki, hvernig á að fá grundvöll undir gott samkomulag. Og ég skal lýsa yfir því, að núv. hæstv. atvmrh., sem var fulltrúi á búnaðarþingi þá, hann studdi mjög að góðu samkomulagi um þetta. Og nú hefir komið yfirlýsing frá honum í dag, sem hnígur í þessa átt, sem ég sagði. Auk þess gaf hann fullkomna yfirlýsingu um það, að það væri mjög óviðeigandi að breyta þessu fyrirkomulagi og brigða þannig þann samning og samkomulag, sem frá öndverðu liggur til grundvallar.

Hv. þm. Mýr. var að tala um, að afskipti Búnaðarfélagsins af þessum jarðræktarlögum væru aðallega skrifstofulegs eðlis. Hv. 1. þm. Árn. hefir nú sýnt rækilega fram á, að þetta er hinn mesti misskilningur. með því að lesa upp ákvæði í lögum og reglugerðum. Auðvitað eru það margvíslegar ályktanir og ráð, sem stj. Búnaðarfélagsins hefir í hendi sér í sambandi við þetta. Yfirleitt hefir stj. félagsins og ráðunautar þess á hendi víðtækt og ábyrgðarmikið starf í landbúnaðarmálum.

Hv. þm. Mýr. tók allstinnt upp fyrir mér, að ég taldi mjög misráðið að breyta reglugerðinni viðvíkjandi mati á dagsverkum. Hv. þm. vildi algerlega vísa því frá, að Búnaðarfélagið hefði nokkurt úrskurðarvald í því máli. En það stendur svo sérstaklega á í þessu tilfelli, að atvmrh. er í stj. Búnaðarfélagsins. Og ég býst við, að þar sem meiri hl. stj. Búnaðarfélagsins er skipaður samkv. till. frá þinginu, þá muni hæstv. atvmrh. í flestum eða öllum tilfellum samþ. till., sem stj. Búnaðarfél. mælir með í þessu máli. Svo að raunverulegt úrslitavald mun því vera í höndum stj. Búnaðarfél.

Þá var hv. þm. að bera fyrir sig eitthvað, sem fram hefði komið hjá frsm. landbn. í Nd. 1928, þegar rætt var um að breyta jarðræktarlögunum. Virðist mér hann helzt vilja þar leita skjóls og hælis fyrir sig og aðra í stj. Búnaðarfél., sem stóðu að þeirri breyt. á síðasta sumri að leggja meira í dagsverkið en verið hafði áður, og draga með því mjög úr þeim styrk, sem bændur njóta samkv. jarðræktarlögunum. Ég hefi nú verið að leita í umr. um þetta mál og ummælum, sem fram komu í sambandi við það, og hefi ekki fundið neitt, sem gefi bendingu um, að breyta ætti þessari reglugerð í þá átt að draga úr styrknum. Ég held þvert á móti, að það skíni alstaðar út úr, að með breyt. á jarðræktarlögunum 1928 sé verið að slá föstu, að bændur ættu að vísu að ganga um þann styrk, sem jarðræktarlögin eftir breyt. ákveða. Ég skal benda á ummæli frsm. landbn. Nd., sem styrkja þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessar breyt. ganga flestar í þá átt að greiða betur en áður fyrir hverskonar jarðræktarframkvæmdum og koma skipulagi á þessa löggjöf, þannig að þeir, sem slíkt hafa með höndum, geti átt nokkurn veginn víst, hvers styrks þeir mega vænta af opinberu fé til framkvæmda þeim umbótum, er þeir vilja ráðast í og til þessarar löggjafar taka“.

Hér er einungis miðað að því, að bændur eigi það nokkurn veginn víst, að hverju þeir hafa að ganga, en ekki ætlazt til breyt. á reglugerðinni í þessu efni.

Næsta sporið í þessu máli er það, eins og kunnugt er, að stj. Búnaðarfél. breytir þannig reglugerðinni, að jarðræktarstyrkurinn lækki um hvorki meira né minna en 1/5. Ég get ekki fundið neitt í meðferð þessa máls hér á þingi, sem stj. gat yfirleitt stuðzt við í þessu tiltæki. Og ég hygg, að meðferð þessa máls á þingi 1928 gangi í þveröfuga átt við þær afleiðingar fyrir bændur, sem urðu af reglugerðarbreytingunni. Og enn til stuðnings þessu vil ég benda á það, að í einu atriði þótti landbn. og Alþingi rétt að breyta lögunum, nefnil., á hvern hátt ábúendur á landssjóðsjörðum mættu greiða afgjöld sín í jarðabótum. Þetta bendir enn frekar á það, að þingið 1928 ætlaðist ekki til neinnar reglugerðarbreyt. í þessu efni.

Hv. þm. Mýr. var mjög hneykslaður yfir því, að ég hefði sagt, að breytingin, sem hann fer fram á, byggist einungis á óljósu hugboði um það, að þetta skipulag kunni einhverntíma að valda ósamkomulagi í stj. Búnaðarfélagsins. Ég er bara alveg hissa, að hv. þm. skuli hneykslast á þessu, þar sem hann er búinn að lýsa yfir, að allan þann tíma, sem jarðræktarlögin hafa verið í gildi og starfrækt svona, — eða frá 1923 — hafi verið það ákjósanlegasta samkomulag í stj. Búnaðarfél. um þetta. Og ennfremur lýsti hann yfir, að þótt þessi skipulagsbreyt. yrði gerð, myndi verða kostað kapps um að hafa sömu menn í stj. Búnaðarfél. (BÁ: Ekki að eilífu). Náttúrlega er ekki hægt að miða þessa jarðnesku hluti við eilífðina, það er alveg rétt, en mér finnst þetta fullkomlega nóg til þess að sýna, að það hefir ekkert ennþá komið fram í þessu fyrirkomulagi, sem gefi til kynna, að annað muni verða hagkvæmara fyrir Búnaðarfél. Og það er áreiðanlega mjög varhugavert að byggja slíka skipulagsbreyt. á einhverjum óljósum hugboðum, sem virðast ekki eiga neinar rætur í reynslu liðinna ára.

Ég get nú vel látið staðar numið, því að hv. 1. þm. Árn. hefir að öðru leyti svarað ræðu hv. þm. Mýr. Hæstv. atvmrh. hefir nú gefið yfirlýsingu um það, að hann væri algerlega á móti þessari breyt. Ég lagði áherzlu á, að honum gæfist tilefni til að segja álit sitt um málið þegar við 1. umr., því að mér sýnist þetta mál svo einfalt, að hv. deild geti tekið ákvörðun um það nú, hvort málið skuli ná fram að ganga eða ekki. Það er þá ekki nema formsatriði að láta það fara í nefnd, ef deildin er því andvíg á annað borð.