05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (1376)

136. mál, jarðræktarlög

Magnús Guðmundsson:

Hv. þm. Mýr. viðurkenndi, að samkv. reglum þeim, sem jarðabætur voru mældar eftir síðastl. sumar, hefðu sáðsléttur átt að bíða lengur en nú er ákveðið. (BÁ: Nei, það stóð óbreytt frá því, sem áður var). Ég hætti þá alveg að skilja hv. þm.; þetta er þvert á móti því, sem mér virtist hann segja áður. Hann sagði, að þessu atriði hefði svo verið breytt, þegar komið var fram á jólaföstu. Er það líka rangt? (BÁ: Það er rétt). En þá hefir verið búið að mæla þær sáðsléttur, sem átti að taka á skýrslu á síðastl. ári. — Hv. þm. Mýr. neitaði því, að jarðabótastyrkurinn hefði verið lækkaður, en sagði, að dagsverkið hefði aðeins verið stækkað. En finnst honum það ekki koma í sama stað niður? Hæstv. atvmrh. vildi þó ekki neita því; hann skildi það betur en hv. þm. Mýr., að þegar meira er lagt í dagsverkið, og styrkurinn er miðaður við hvert dagsverk, þá hlýtur að leiða af því lækkun á styrknum. Ég verð því að endurtaka það, sem ég sagði áður, að það er undarleg aðferð, að lækka jarðræktarstyrkinn einmitt á því ári, sem kaupgjaldið hefir hækkað, og því er ekki hægt að neita, að allur kostnaður við jarðabætur hefir mikið aukizt á árinu.

Hæstv. atvmrh. vildi afsaka sig með því, að trúnaðarmenn Bf. Ísl., Sigurður búnaðarmálastjóri og jarðræktarráðunauturinn, hefðu borið fram þessar till. um stækkun á dagsverkinu. En ég hefi heyrt Sigurð búnaðarmálastjóra segja það, að stjórn Bf. Ísl. væri að heykjast á þessum ályktunum sínum. — Hvaða ágreiningur hafi verið í stj. Bf. Ísl.um þetta atriði, veit ég ekki um, enda kemur það málinu litið við, og óvíst, hversu rétt er frá því skýrt; en þegar litið er á það, hvað ofan á varð, þá er það þetta: að jarðræktarstyrkurinn hefir verið lækkaður.