05.03.1930
Neðri deild: 44. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í C-deild Alþingistíðinda. (1378)

136. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það eru aðeins örfá orð til hv. 1. þm. Skagf. — Þegar breytt var mati á jarðabótadagsverkum síðastl. vor, þá var ekki hreyft við sáðsléttum, heldur látin standa óbreytt þau fyrirmæli reglugerðarinnar, að sáðsléttur þyrftu að vera ársgamlar, þegar þær væru teknar á skýrslu. En þá var ákveðið, að allar aðrar jarðabætur skyldu teknar strax á skýrslu, eða ári fyrr en venja var til áður samkv. reglugerðinni.

Ef nú á að álasa stjórn Bf. Ísl. fyrir það, að sáðslétturnar skyldu ekki vera teknar með strax ásamt öðrum jarðabótum, þá er um leið verið að álasa hv. 1. þm. Skagf., því að þetta hefir staðið óbreytt samkv. þeirri reglugerð, er hann staðfesti um þetta efni.

Hv. þm. hafði það eftir Sigurði búnaðarmálastjóra, að stjórn Bf. Ísl. væri að heykjast á dagsverkamatinu. Því til skýringar skal ég geta þess, að ágreiningur var um það í stjórn Bf. Ísl., hvort það ætti að leyfa það strax, að sáðsléttur yrðu teknar á skýrslu um leið og þær væru fullgerðar; en nú var þetta einnig leyft síðastl. haust, þannig að allar jarðabætur eru nú teknar á skýrslu um leið og þær eru fullgerðar. Að þessu leyti má segja, að stj. hafi slakað til frá þeirri ákvörðun, sem gerð var síðastl. vor.