24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í C-deild Alþingistíðinda. (1393)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Mér láðist að geta þess í fyrri ræðu minni, að frv. er gert ráð fyrir mjög verulegri breyt. á eignarskattinum. Samkv. frv. hækkar eignarskatturinn um h. u. b. 100% til uppjafnaðar, og auk þess greiðist skatturinn af eignunum öllum, ef þær nema meiru en hinu skattfrjálsa lágmarki, 5000 kr. En nú eru 5000 krónur skattfrjálsar hjá hverjum gjaldanda og dragast frá, þótt hann eigi mörg hundruð þúsunda. Mér fannst rétt að benda á þetta, því að annars mætti ætla, að hækkunin væri ekki meira en 50%, eins og á tekjuskattinum.

Ég þarf aðeins að svara hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. N.-M. — Hv. 1. þm. N.-M. drap á það í síðari hluta ræðu sinnar, að eftir mínum breyt. verði skattlækkunin á manni hér í Reykjavík, sem hefir 5 menn í heimili og 7000 kr. tekjur, 2 krónur. Samkvæmt mínum till. á þessi maður að greiða 90 kr., í stað 92 kr. samkv. gildandi lögum. Því hærri sem tekjurnar verða, því meiri verður munurinn. Af 5000 kr. tekjum verður skatturinn samkv. till. mínum tæpl. helmingur þess, sem hann nú er, 15 kr. í stað 32. Hér er átt við nettótekjur, en ekki skattskyldar tekjur. Ég vil ennfremur benda hv. þdm. á að bera saman skatt af 50000 kr. skattskyldum tekjum hér og í öðrum löndum. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp samanburð á skatti af þeirri upphæð í nokkrum löndum.

Tekjur

skattein.

skattur

England .........

50000

shillings

9925

Þýzkaland ......

50000

ríksm.

11500

Danmörk ......

50000

d. kr.

4912

Noregur .......

50000

n: kr.

5560

Svíþjóð .......

50000

s. kr.

3910

Ísland ........

50000

ísl. kr.

8337

Samkv. minni till. yrði skatturinn hér á landi 10.800 kr. af 50000 kr. skattskyldum. Hækkunin er því ekki eins ægileg og mér skildist, að hv. l. þm. Reykv. fyndist hún vera. Hinsvegar skal ég fúslega játa, að hér er um mikla breyt. að ræða. Skattur af tekjum undir 7000 kr. fyrir fjölskyldu hér í Reykjavík lækkar mjög, og er enginn af 4000 kr. eða minni. Hinsvegar hækkar hann mjög af 12000–100 þús. kr. tekjum. Slíkar tekjur þola líka verulegan skatt, en lágtekjurnar engan eða lítinn.

Tekjur ríkissjóðs aukast þó við þetta um h. u. b. 50% frá því, sem nú er. Það er því rétt hjá hv. þm., að hér sé um stefnubreyt. að ræða, þá, að auka skatta á hátekjum, en lækka þá á lágtekjum og tolla af nauðsynjum.

Hv. þm. kvaðst vilja láta leggja háa tolla á munaðarvöru og sagði, að þeir, sem keyptu hana, borguðu þá í raun og veru tekjuskatt í ríkissjóð. Ég kannast vel við þessa skoðun íhaldsmanna um að tolla óhófs- og munaðarvörur. Reynslan hefir bara alltaf orðið sú, að aðaltollarnir eru teknir af nauðsynjavörum, en ekki af munaðarvörum.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi einhverntíma tækifæri til að kynna sér þskj. 139, en ég ætla þó að minnast á nokkrar tollvörur til að sýna, hverjar þessar munaðarvörur“ eru, sem tollar nú eru lagðir á.

Árið 1927 var kolatollur 265 þús. kr. og salttollurinn var þá milli 65 og 66 þús. kr. Eftir till. frá meiri .hl. mþn., sem vildi breyta þessu, á salttollurinn að hækka úr 65400 upp í 136 þús. og kolatollurinn úr 265 þús. upp í 296 þús., allt miðað við innflutning ársins 1926, sem var lítið innflutningsár.

Þá er tollur á eggjum, kartöflum, smjörlíki, erfiðisfatnaði, borðbúnaði og búsáhöldum, öllum dúkum og flíkum, sem til landsins flytjast. Af þessu flestu nemur tollurinn um 20%, nærri 1/5 hluta innkaupsverðs. Eru þetta munaðarvörur?

Tollur af kaffi og sykri og kaffibæti nemur frá 60%–85% af innkaupsverði. Svona mætti lengi telja.

Ágreiningurinn milli mín og hv. 1. þm. Reykv. liggur ekki í því, hvort eigi að tolla óþarfa eða ekki, heldur í því, hvort beri að afla ríkissjóði tekna með því að leggja skatt á eignir manna og tekjur umfram þarfir eða með því að tolla nauðsynjavörur og skatta þurftartekjur. Ég held, að enginn, sem les landsreikningana og skýringarnar í grg., treystist að neita því, að meiri hl. af tekjum ríkissjóðs er fenginn með því að hátolla nauðsynjavörur almennings. Það er sannarlega kominn tími til að breyta um stefnu í þessu efni, gæta meira réttlætis og hagsýni en gert hefir verið. Hv. þm. segir, að það sé ekki rétt að segja, að skattalöggjöfin sé handahófsverk. Það er þó ekki ofmælt. Þegar samþ. var aðflutningsbann á áfengi, voru vörutollslögin samin í mesta flýti og talið sjálfsagt að endurskoða þau bráðlega. Þau áttu aðeins að vera bráðabirgðalög, til að afla ríkissjóði tekna í staðinn fyrir vínfangatollinn, sem þá átti að hverfa alveg. En þau hafa haldizt óbreytt í flestum aðalatriðum, nema hvað sífellt hefir verið bætt ofan á tollana og þeir hækkaðir. Loks var svo verðtollinum, sem líka átti aðeins að vera til bráðabirgða, dembt ofan á vörutollinn, svo að af fjölmörgum nauðsynjavörum nema þeir nú samanlagt um og allt að 20% af innkaupsverði.

Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann telur t. d. vinnufatnað óþarfa vöru, sem ástæða sé til að heimta af 20% toll. Ég veit, að hann játar það með mér, að slíkt sé rangt.

Þá tók hv. þm. svo til orða, að með því að hækka tekjuskattinn væri verið að veitast að þeim, sem með dugnaði öfluðu sér hárra tekna, er þeir svo verðu til framkvæmda. Að veitast að einhverjum er nú hið sama og að sótt sé óþyrmilega að honum. En þetta er fjarri lagi. Það eru einmitt fátæklingar og barnamenn, sem nú er sótt óþyrmilega að. Hvor verður harðara úti, fjölskyldumaður með 5 í heimili, sem greiðir 10% af sínum 3000 króna tekjum, eða efnamaður með 12500 kr. tekjur, sem ekki þarf að greiða nema 490 krónur í viðbót við sömu tolla, 300 kr., og hinn, eða alls 6–7% af tekjunum? Hag þjóðarinnar er því betur komið, sem fleiri af landsbúum búa við sæmileg kjör. Þróttmikið athafnalíf skapast miklu frekar af sæmilegum tekjum margra og góðri afkomu almennings heldur en háum tekjum fárra. Þess ber líka að gæta, að þjóðfélagið sem slíkt veitir möguleika og skilyrði fyrir því, að háar tekjur myndast. Er því ekki nema sanngjarnt, að nokkru af þeim sé skilað aftur til hins opinbera, sem lagt hefir fram til tekjuöflunarinnar. Ég hygg líka, að ekki sé með réttu hægt að segja, að veitzt sé að hátekjumönnunum með frv. mínu. T. d. á að greiða af 100 þús. kr. skattskyldum tekjum aðeins 29 þús. kr.; eftir eru 71 þús. En þess ber vel að gæta að hér er átt við þær tekjur einar, sem eftir verða, þegar búið er að draga frá allan kostnað, þar með talinn tekju- og eignarskattur og aukaútsvar. Þessir skattar geta numið allhárri upphæð, og munar því mikið um þá til frádráttar. Segjum t. d., að þeir nemi 60 þús. kr. Þá á maður, sem hefir 160 þús. kr. árstekjur, að frádregnum rekstrarkostnaði og þvílíku, að greiða af 100 þús. kr. 29 þús. kr. í tekjuskatt. Það er um 18% af nettótekjum. Er það ekki hátt. Og ef athugaðar eru skattskýrslurnar aftast á þskj. 137, þá sést, að ekki er um marga slíka menn að ræða.

Loks vildi ég þá benda hv. þm. á eitt, sem ég hygg, að við séum sammála um, að í raun og veru er það svo, að allir skattar og skyldur landsmanna verða að greiðast af þeim tekjum, sem afgangs verða þurftartekjum landsmanna í hvert sinn. Ef þessu er ekki fylgt, þá er ekki nema um tvo aðra möguleika að ræða, annaðhvort að taka lán eða þá að skerða höfuðstól. Þriðja leiðin er að vísu til, sú, að klípa af þörfunum. En reynslan hefir nú sýnt það, að enga þessa leið þarf að fara, því þrátt fyrir alla okkar skatta hafa þó eignir landsmanna aukizt stórkostlega og aukast með ári hverju. Er það sönnun þess, að nógar tekjur eru umfram þurftartekjur til að bera alla okkar skatta. Og einmitt á þær tekjur á að leggja skattana. Menn hljóta að játa það, að brýnustu þurftartekjur beri ekki að skattleggja. Og það getur enganveginn talizt nokkurt vit í því fyrir hið opinbera að skattleggja þurftartekjurnar og verða svo að leggja gjaldendum það á annan hátt, í d. með fátækrastyrk. Einmitt á þessu sviði er aðalágreiningurinn milli mín og hv. 1. þm. Reykv. Hann vill leggja skattana á þurftartekjur og nanðsynjar fólksins, en hlífa efnafólki og hátekjumönnum við sköttum, leggja 10% á 3000 kr. tekjur, en aðeins 6% á 12000 kr. tekjur.