24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (1397)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

* Hv. flm. sagði, að tekjuskatturinn í Danmörku næmi meira af ríkistekjunum en hér hjá okkur. Nú sést það í þeim töflum, sem hv. flm. hefir látið fylgja þessu frv., að tekjuskatturinn í Danmörku er helmingi lægri en hann yrði hér eftir frv., og aðeins lítið eitt hærri en eftir núgildandi lögum.

Þetta sýnir, hvað tölur geta verið varasamar. Þó að tekjuskatturinn sé lægri í Danmörku en hér á landi, nemur hann samt sem áður hlutfallslega meiru af ríkistekjum. Geta menn af þessu séð, að þó að tekjuskatturinn eigi ekki við hjá okkur, er hann fullkomlega eðlilegur tekjustofn í Danmörku, vegna þess, hve þar er margt hátekjumanna. Hér á Íslandi eru slíkir menn ekki til.

Auk þess er þessi samanburður við Danmörku dálítið villandi. og er ég ekki með því að drótta því að hv. flm., að hann sé að reyna að villa menn í þessu máli. Eins og hv. flm. tók fram, er mikill hluti af útgjöldum annara þjóða kostnaður af her og flota, auk þess sem mikið gengur til þess að mæta afleiðingum fyrri ófriða. Ef þetta væri strikað út, hygg ég, að það mundi koma í ljós, að tekjuskatturinn næmi hlutfallslega meiru hér en annarsstaðar. Margar þjóðir, t. d. Englendingar, taka mestan hluta ríkisteknanna með tekju- og eignarskatti. Þeir eiga hægt um vik með að fara ofan í vasa sinna mörgu auðugu borgara; þeir eru nú einu sinni svo vel settir. En það er ekki víst, að við getum leikið þetta eftir. Það má segja, að gott sé að geta farið til útlanda, og að þetta geri Pétur og Páll. En þar með er ekki sagt, að þetta geti allir gert. Við verðum að sníða okkar skattalöggjöf eftir vexti, en ekki eftir því, sem er í öðrum löndum.

Hv. flm. sagði, að alltaf hefði kveðið við frá því fyrsta sá söngur, að tekju- og eignarskatturinn mundi draga úr framkvæmdarlöngun manna. Þetta getur verið; ég hefi ekki kynnt mér þennan söng. Ég veit, að það kveður mikið að honum nú, og tel ekki ósennilegt, að svo hafi jafnan verið áður. Og mér finnst þetta ekki nema eðlilegt í alla staði. Það er sannanlegt, að hinn hái tekjuskattur hefir dregið úr mörgum fyrirtækjum. Ég hefi séð því haldið fram í ýmsum erlendum bókum, sem ég hefi lesið um hagfræðileg efni, að fjölmargir atvinnuvegir hafi verið gerðir ómögulegir, vegna þess, hve þeir voru hátt skattaðir. Og sé lagt fast að hinum ýmsu fyrirtækjum með þessum skatti, er hætt við því, einkum ef fyrirtækin berjast í bökkum, að þau fari að lækka kaupgjaldið. Það mætti segja mér það, að þessi hái skattur á framtakssemi manna og löngun til að reka stórfyrirtæki ætti sinn þátt í kaupdeilunum og atvinnuleysinu, sem nú er að lama allar þjóðir og enginn ræður við, sem jafnaðarmenn lofa að ráða bót á, en gefa þó upp, þegar þeim er trúað fyrir völdunum. Hér á Íslandi hefir að vísu dálítið verið um verkföll, en atvinnuleysi, sem orð sé á gerandi, þekkist hér ekki sem betur fer.

Ég skal ekkert um það segja, hversu mikinn þátt tekju- og eignarskatturinn á í þessum tveim þjóðfélagsbölum nútímans, en að hann eigi sinn mikla þátt í þeim — um það er ég ekki í neinum vafa.

Hv. flm. sagði, að beinu skattarnir kæmu sér betur fyrir útgerðarfélögin. Ég er honum sammála um það. En hv. flm. kom ekki inn á þá hliðina í þessu máli, sem snýr að ríkissjóði. Hvernig á ríkissjóðurinn, sem er bundinn af árlegum þörfum, að bjarga sér, ef tekjustofnar hans verða að engu vegna ills árferðis. Það er hart að þurfa að nota þessa skatta, en hjá því verður ekki komizt. Hins verður að gæta, að stilla sköttunum svo í hóf, að atvinnulífið geti fleytt sér yfir „dauðu punktana“, hafi eitthvað afgangs frá góðu árunum til þess að mæta þeim vondu.

Mér fannst hv. flm. ganga alveg framhjá því, að mikið af hinum nauðsynlegu sköttum kemur fram í breyttu verðlagi og kaupgjaldi, svo að í raun og veru verða það atvinnufyrirtækin, sem bera þetta uppi.