24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í C-deild Alþingistíðinda. (1399)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Stefánsson:

Ég tel ekki þörf á því nú við þessa umr. að ræða út til hlítar einstök atriði þessa máls, því að ég tel það víst, að frv. þetta verði látið ganga til nefndar, og að því loknu verði það athugað nánar.

Út af umr. samnm. minna í tolla- og skattanefndinni vildi ég þó segja nokkur orð, og þá einkanlega taka til athugunar hlutföllin milli skatta og tolla. Það er venja að skipta sköttunum í tvo flokka, beina og óbeina. Þetta eru að vísu stærstu flokkarnir, en í rauninni er rétt að aðgreina þetta nánar. Ég hefi hér fyrir mér skýrslu um tekjustofna ríkissjóðs og sveitar- og bæjarsjóða, og er þeim þar skipt í 5 flokka. Þeir eru þessir: 1) beinir skattar, 2) óbeinir skattar eða tollar, 3) atvinnutekjur, 4) eignatekjur, og loks 5) aðrar tekjur. — Beinu sköttunum má svo aftur skipta í undirflokka, sem falla ýmist til ríkissjóðs eða sveitar- og bæjarsjóða. Skal ég nú gera nánari grein fyrir þessari flokkun; og er það þá þannig:

a. Eiginlegir skattar:

Fasteignaskattur,

Tekju- og eignarskattur,

Erfðafjárskattur,

Stimpilgjöld,

Bifreiðaskattur.

b. Skattar eða greiðslur fyrir sérstaka aðstoð:

Aukatekjur,

Leyfisbréfagjöld,

Skólagjöld,

Vitagjöld.

c. Skattur á atvinnurekstri:

Lestargjald,

Útflutningsgjald,

Gjald af brjóstsykursgerð o. fl.

d. Útsvör (álögð).

Árið 1926 hefir 1. undirflokkur beinu skattanna numið 12,2% samanlagt til ríkissjóðs og sveitarsjóða; annar flokkurinn, sem eru gjöld fyrir sérstaka aðstoð, sem hið opinbera veitir, hefir samanlagt numið 5,6%; þriðji undirflokkurinn, sem er ýmiskonar skattur á atvinnurekstri, hefir numið 6,4%, og svo eru loks útsvörin, sem hafa numið 27,8%. Samanlagt hefir þetta, sem ég kalla beina skatta, numið 52%, en það er raunar ekki ágreiningslaust meðal manna, hvað megi að réttu lagi kalla beina skatta og hvað ekki.

Þá kem ég að tollunum, en þeim er skipt í tvo aðalflokka, annarsvegar er tollur á almennum þurftarvörum, en hinsvegar tollur á munaðarvörum. Tollur á þurftarvörum, sem vörutollur og verðtollur, hefir numið þetta ár 18,6%, en munaðarvörutollurinn, þ. e. a. s. tollur af víni, kaffi, sykri og tóbaki o. þ. h., hefir numið 22,5%. Samanlagt hafa þá þessir óbeinu skattar numið 41,1%. — Nú er þess að gæta, sem komið hefir og fram hér við umr. þessa máls, að tollur á munaðarvörum er ekki sambærilegur við aðra tolla, því að þær vörur, sem slíkir tollar hvíla á, eru menn ekki nauðbeygðir að kaupa fremur eða í stærra mæli en menn geta eða vilja.

Þá eru eftir aðrir þrír flokkar, sem gefa miklu minni tekjur en hinir, sem ég hefi talið, og má þá fyrst nefna atvinnutekjur, svo sem pósttekjur, símatekjur, tekjur af víneinkasölunni ásamt tóbakseinkasölu og steinolíueinkasölu, sem námu 2,6%. Þá koma eignatekjur, sem sé tekjur af fasteignum, vaxtatekjur, vaxtatekjur útdreginna veðdeildarbréfa og tekjur af bönkum, sem nema samanlagt 1,6%. Þá koma að síðustu aðrar tekjur, sem ekki er hægt að vita, í hvaða flokki eiga að teljast að réttu lagi, en það eru ýmsar og óvissar tekjur, sem nemur samtals 2,7%.

Niðurstaðan verður því sú, að það, sem kalla má beina skatta, nemur rúmlega 50%, tollar aftur 40%, og er þó þess að geta, sem fyrr er sagt, að tæpur helmingur af því fellur á vörur, sem eru almennar þurftarvörur. Loks eru aðrar tekjur tæp 7%.

Mér þótti rétt að gefa þetta yfirlit, þótt ég hinsvegar viti það, að um það geti orðið ágreiningur, hvað séu beinir skattar og hvað ekki. Þessi flokkun mín er byggð á því, hvað lagt er á sem beinir skattar, en ekki hvort hægt er að velta þeim á neytendur eða ekki, því að slíkt er undir ýmsum atvikum komið, sem geta verið mismunandi á mismunandi tímum.