05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í C-deild Alþingistíðinda. (1422)

172. mál, einkasala á tóbaki

Magnús Jónsson:

* Ég kvaddi mér ekki hljóðs fyrr en hæstv. forseti ætlaði að fara að slíta umr., því að ég hélt, að einhver af hinum efnilegu vinum þessa máls myndi taka til máls á eftir hv. frsm. minni hl., en það lítur út fyrir, að þessi einkasala sé nú öllum heillum horfin, þar sem enginn vill með henni tala nema þessi fáu orð, sem hv. frsm. meiri hl. lét fylgja því. (HStef: Þetta er nú 2. umr.). Já, þetta er 2. umr., en málinu var hleypt í gegnum 1. umr. án þess að um það færu fram nokkrar almennar umr. Þetta er oft gert til vinnusparnaðar, til þess að þurfa ekki að endurtaka það við 2. umr., sem sagt hefir verið við 1. umr.

Ég skal ekki fara mjög langt út í þetta mál, en mér finnst ekki rétt að láta það fara hér í gegn án þess að segja, að álit mitt á því er óbreytt frá því, sem verið hefir.

Þegar tóbakseinkasalan var afnumin á þinginu 1925, var um leið hækkaður tóbaks- og vindlatollur, og átti það að vega á móti þeim hagnaði, sem hafði orðið á tóbakssölunni þau ár, sem einkasalan hafði verið. Þá var því spáð, að þessi hækkun myndi ekki nægja til að halda ríkissjóði skaðlausum og tollhækkunin myndi verða til þess, að tóbakið yrði í hærra verði. Báðar þessar spár hafa sprungið á reynslunni.

Það hefir sýnt sig, að tóbakstollurinn hefir fullkomlega jafnað það, sem tóbakið áður gaf ríkissjóði í ágóða af verzluninni. Og það er almennt viðurkennt, að verðið hefir ekki hækkað, en gæðin aukizt, eins og yfirleitt er þegar samkeppnin fær að njóta sín.

Þegar um er að ræða einkasölu á einhverri vörutegund, eru það einkum tvær ástæður, sem til greina koma. Önnur er sú, hvort betra sé að afla ríkissjóði tekna með einkasölu eða tollaálagningu, en hin hvor verzlunarmátinn sé vænlegri til almenningsheilla, einkasala eða frjáls samkeppni. Við fyrri spurningunni ætti sú reynsla, sem þegar er fengin, að vera nægilega skýrt svar að því er tóbakseinkasöluna snertir. Aftur á móti geta verið til menn, sem hafa svo mikla ást á einkasölum yfirleitt, að þeir vilja koma þeim á, hvort sem ríkissjóður hefir hag af því eða ekki, og er þá eðlilegt, að þeir reyni fyrst að taka þær vörutegundir, sem mönnum er lítið annt um. Það er hin mesta hugsunarvilla, að hagur sé að því fyrir ríkið að koma í veg fyrir, að ágóði af tóbaksverzlun renni í vasa einstaklinga, þegar eins miklar tekjur fást í auknum tolli þegar verzlunin er frjáls, án þess að tóbaksverðið hækki, eins og af einkasölunni. En reynsla síðustu ára hefir sannað, að svo er, hvernig sem á því stendur. Hvort sem það stafar af því, að einstaklingarnir leggi meira kapp á að fá hagkvæm sambönd og að spara sem mest við verzlunarreksturinn, eða af því, að meira sé flutt inn þau árin, sem einkasala er, framhjá öllu eftirliti. Tóbaksnotkuninni er nú þannig varið, að ekki er líklegt, að mikið meira sé notað af tóbakinu eitt árið en annað. Að innflutningur tóbaks hefir verið meiri árin, sem verzlunin hefir verið frjáls, hlýtur því að stafa meðfram af öðrum orsökum. En að hafa einkasölu aðeins til að leggja á það tóbak, sem inn er flutt á leyfilegan hátt, sem svarar því, sem ella fengist í tollum af því tóbaki, sem með frjálsri verzlun væri flutt inn í stað þess, sem smyglað er framhjá einkasölunni, sjá allir, að er lítið hugsjónatakmark.

Ef taka á upp tóbakseinkasölu til þess að afla ríkinu tekna, og meðmælendur frv. hafa slegið föstu, að sá sé tilgangurinn, þá er það ekki annað en flóknari og langtum fyrirhafnarmeiri leið heldur en ríkið þarf til að komast ofan í vasa borgaranna. Einstaklingar, sem vilja græða peninga, geta ekki sagt við menn: borga þú mér þetta og þú hitt. Þeir verða að koma upp einhverjum fyrirtækjum eða viðskiptum; verða með öðrum orðum að gera einhverjum greiða og taka þóknun fyrir. Þetta er erfið leið til að afla peninga og krefst mikils dugnaðar og fyrirhafnar. Ríkið eitt þarf ekki að fara þessa leið. Það getur lagt það, sem því sýnist, af beinum og óbeinum sköttum á þegnana. Það getur t. d. sagt mönnum að greiða sér svo og svo margar krónur af hverju tóbakspundi, sem þeir kaupa. Sá, sem hefir svona mikið vald, á ekki að láta sér detta í hug að velja margfalt margbrotnari aðferð til að taka fé af sömu mönnum. Þegar um tvær leiðir er að velja að sama marki, er ekki annað en heimska að velja þá erfiðari. Hefði tóbakið orðið að hækka í verði við það, að lagður var á það tollur, sem gefur af sér sömu tekjur í ríkissjóð og einkasalan gerði, þá hefði fremur verið ástæða til að taka hana upp aftur. En reynslan hefir sýnt, að svo er ekki.

Ef fara ætti út í hitt atriðið, hvort einkasala og ríkisrekstur yfirleitt er til hagsbóta fyrir þjóðina, yrði það svo langt mál, að ég get ekki gert það nema mjög lauslega. En ég vil benda á það, að það er ekki eins ósanngjarnt og margir vilja halda fram að bera saman einkasölur nú og gömlu einokunina. Að vísu er mikill munur á því, að ágóðinn af einkasölum rennur ekki út úr landinu, og aldrei mundu verzlunarmenn einkasalanna fara eins skammarlega með viðskiptamenn sína eins og gömlu einokunarkaupmennirnir. En munurinn á einkasölu og einokun liggur allur í aukaatriðum. Tilgangurinn með gömlu einokuninni var sá sami og með einkasölunum nú; hún átti að skapa betra vöruverð, meiri vörugæði og tryggari innflutning. En árangurinn varð þveröfugur, og eins mundi fara enn. Það er bæði gömul og ný reynsla fyrir því, að ríkisverzlanir eru verr reknar en einstaklingsverzlanir. Það er ekki nema hrein undantekning, að það fáist maður til að veita ríkisverzlun forstöðu, sem vinnur að henni með eins miklum dugnaði og áhuga eins og hann ætti hana sjálfur. Það er eins og það komi óðara allt annar andi yfir viðskipti og framkomu manna, þar sem einhverskonar einræði kemst að, á hvaða sviði sem er. Ég get hent á eitt dæmi um áfengisverzlunina. Það er víst ákveðið, að henni skuli vera lokað kl. 12 á laugardögum. Nú atvikaðist svo, að ég varð var við það einn laugardagsmorgun, að áfengisverzlunin svaraði alls ekki í síma. Þegar grennslazt var um, hverju það sætti, var viðkvæðið það, að það væri svo mikið að gera. Hvernig ætli mönnum þætti þetta, ef um einhverja nauðsynjavöru væri að ræða? Ekki hafa einstaklingar, sem verzlun reka, það svona. Þeir sjá sinn hag í að geðjast viðskiptamönnunum og reyna að fullnægja þörfum þeirra sem bezt. En óðara þegar ekki er nema í einn stað að venda eftir einhverju, rís upp þessi derringur.

Ég get nefnt annað dæmi. Þegar franska myntin féll mest í verði á árunum, var ákaflega mikið pantað frá Frakklandi. Um tíma komu fleiri þúsund pakkar þaðan með hverju skipi. Það var auðvitað ekki verið að bæta við fólki á pósthúsinu, þó seint gengi að afgreiða alla þessa pakka. Mönnum var bara sagt að bíða, og svo urðu þeir kannske að bíða eina fjóra klukkutíma eftir að fá afhentan einn böggul. Það var hægt að segja sem svo: ja, þið getið ekki fengið pakkana senda nema í gegnum pósthúsið.

Það er mesti misskilningur, að frjálsa samkeppnin sé einkum til hagsbóta fyrir kaupmennina. Það er vegna neytendanna, sem henni ber að halda uppi. Hún er vitanlega. ekki gallalaus, fremur en annað, en hún er áreiðanlega það bezta fyrirkomulag, sem enn hefir fundizt, til þess að tryggja almenningi þægilega afgreiðslu, vörugæði og lágt verð. Kaupmennirnir vildu auðvitað gjarnan fá einkasölur fyrir sig. Þeir hafa oft talað um það við mig, hvað samkeppnin þrengdi mikið að þeim og hnitmiðaði, að hvergi væri hægt að leggja á nema það allra minnsta. Að þeir yrðu að tefla á fremsta hlunn og gæta hins ítrasta sparnaðar í öllum rekstri, ef þeir ættu nokkurn hagnað að hafa. Á matvöruverzlun væri t. d. ekki hægt að lifa, nema fyrir einn mann í búð, sem getur litið eftir öllu sjálfur, smáu og stóru.

Ég sá nýlega eitt plagg, sem sýnir greinilega misskilning manna á einkasölum. Meiri hl. útvarpsráðsins leggur til, að tekin verði einkasala á útvarpstækjum, til að tryggja útvarpsnotendum góð tæki með vægu verði. Það er undarlegt, hvað menn eru veikir fyrir þessari hugsun. Ég mundi aftur segja, að til þess að tryggja, að menn gætu alltaf fengið beztu og nýjustu tækin, væri eina ráðið að hafa verzlunina frjálsa. Einn úr útvarpsráðinu, sem ég talaði við, sagði að ef verzlunin með útvarpstækin væri frjáls, myndu verða flutt inn svo margskonar tæki, að erfitt yrði að hafa til varastykki í þau. En sannar þetta nú ekki einmitt mitt mál? Einkasalan myndi flytja inn eina tegund af tækjum, til þess að geta notað sömu varahlutina, og ekkert skeyta um að láta menn njóta framfaranna á þessu sviði, sem koma fram á nýjum og nýjum tegundum tækja ár frá ári. Þannig mundi hún tefja eðlilega þróun útvarpsnotkunarinnar.

Nei, eina leiðin til þess, að menn geti fengið réttar vörur fyrir rétt verð, er að hafa frjálsa samkeppni. Hún er sá hverfisteinn, sem heldur athygli manna síhvassri; sljóvgist athyglin, hafa menn ekkert upp úr krafsinu.

Reynslan er yfirleitt sú, að rekstur opinberra fyrirtækja verður dýrari heldur en rekstur einstaklingsfyrirtækja. Einstaklingarnir verða afkomu sinnar vegna að spara það, sem hægt er, við atvinnurekstur sinn, en þegar menn vinna fyrir ríkið, er þægilegra að heimta bara þetta og hitt, sem þurfa þykir.

Það er eftirtektarvert, sem enskur bókaútgefandi einn segir í bók, sem hann skrifaði til að andmæla ásökunum, sem hann hafði orðið fyrir um það, að hann ætlaði sér óhæfilega mikil laun fyrir stjórn fyrirtækisins. Hann viðurkenndi, að hann hefði há laun, en þegar hann fór að bera þau saman við það starf, sem hann gegndi, þá kom í ljós, að hann fékk tiltölulega minna af veltufé þess fyrirtækis, sem hann stjórnaði, í laun heldur en starfsmenn ríkisins, sem vinna að útborgunum úr ríkissjóðnum, fá í þóknun af því fé, sem þeir greiða út, aðeins fyrir að taka féð úr ríkissjóðnum og greiða það þeim, sem við því eiga að taka. Þetta dæmi sýnir muninn á dugnaði einstaklinganna, sem keyrðir eru áfram af sporum samkeppninnar, og starfi þeirra manna, sem vinna í þjónustu ríkisins. Þessi munur gerir það að verkum, að þó meðmælendur einkasölunnar hafi ýms glæsileg pappírsgögn til þess að sýna ágæti hennar, verða þau öll gagnslaus fyrir dómstóli reynslunnar.

Þegar tóbakseinkasalan var afnumin árið 1925, voru tollar á tóbakinu hækkaðir í staðinn. Nú er farið fram á að koma einkasölunni á aftur, en ekki að lækka tollana. Þetta nær ekki nokkurri átt. Ef setja á upp einkasölu til að láta hana sýna ágæti sitt fram yfir tollaálagningu, þá verður auðvitað að afnema tollhækkunina, sem gerð var þegar einkasalan var lögð niður. Hitt yrði eilíf svikamylla, ef bæta ætti annað árið einkasölu ofan á tollana, en afnema hana hitt árið og hækka tollana í staðinn.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ef það er ætlun stjórnarflokkanna að keyra frv. þetta í gegnum þingið, þá tekst þeim það sennilega, en ég trúi því ekki fyrr en ég má til, að Alþ. stigi svo raunalegt spor.