07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í C-deild Alþingistíðinda. (1431)

172. mál, einkasala á tóbaki

Héðinn Valdimarsson:

Hv. 2. þm. G.-K. beindi nokkrum orðum til mín, og það gefur mér tilefni til að standa upp. Annars virðist mér það, sem hv. þm. hafa talað móti málinu, harla veigalítið. (Einhver: Ég held þessi hv. þm. hafi ekkert heyrt; hann hefir aldrei verið í deildinni). Ég var nálægur og heyrði mikið, og mér finnst hver ræðan annari lík.

Það er kunnugt, hvaða ástæður lágu til grundvallar fyrir því, að tóbakssalan var afnumin, sem hafði gefið ríkissjóði mikið fé. Það var lagt afarmikið kapp á það af Íhaldsflokknum að leggja hana niður, og af tveimur ástæðum. Önnur var pólitísk frá stjórnmálamönnunum í flokknum, en hin var hagsmunaleg, runnin frá verzlunarstéttinni innan flokksins. Stjórnmálamennirnir sögðu hvað eftir annað, bæði í ræðu og riti, að tóbakseinkasalan væri höfuðvígi fyrir framsóknarmenn og jafnaðarmenn, og meðan hún stæði í þjóðskipulaginu, væri hvergi öruggt fyrir þá í landinu; fyrir henni væru menn, sem þeir töldu sér fjandsamlega í skoðunum. Og þar að auki væri þarna byrjað á nýju fyrirkomulagi, sem mundi — ef það næði að þróast — stöðugt vera hægt að benda á sem mótsetningu við þeirra fyrirkomulag. Svo að þetta var ærin hvöt fyrir þá til að leggja alla stund á að ríða þessa þjóðarstofnun niður.

Þá var það budda Íhaldsflokksins, verzlunarstéttin, sem leggur peninga til blaða og kosninga. Kaupmenn litu svo á málið, sem tekinn væri biti úr munni sér, og ef einkasalan væri kveðin niður aftur, mundu þeir græða það fé, sem lenti í ríkissjóði frá einkasölunni. Þeir lögðu þess vegna fram mikið fé þessi árin til blaða og „agitationa“ úti um landið á móti þessu fyrirtæki. En þegar einkasalan var afnumin, fór nokkuð á annan veg en íhaldsmenn hugðu, bæði stjórnmálamenn og kaupmenn, enda ekki hægt að krefjast framsýni af þeim í slíkum málum frekar en öðrum. Niðurstaðan varð auðvitað sú, að þeir, sem höfðu starfað við einkasöluna, hugsuðu sér, að gaman væri að láta þeim ekki verða kápuna úr því klæðinu að svæla undir sig alla tóbaksverzlunina. Þessir menn, sem íhaldsblöðin höfðu árum saman rægt og sagt að ekkert skynbragð bæru á verzlun, höfðu þegar svo var komið ánægju og metnað af því að reyna sig við kaupmannastéttina í hinni marglofuðu frjálsu samkeppni, hæfileikamælikvarða íhaldsins. Þá var stofnuð Tóbaksverzlun Íslands, sem síðan hefir starfað og hefir yfir 60% af allri heildsölunni með tóbaksvörur. Þetta fyrirtæki hefir gefizt ágætlega fyrir sína eigendur, og mun óhætt að telja það eitt af arðmestu fyrirtækjum, sem hér eru í landinu. Þetta eru auðvitað vonbrigði fyrir þá, sem bjuggust við að ná undir sig öllum arði af tóbakssölunni. En þeir hafa huggað sig við það, að betra sé lítið en ekki neitt og þeir hefðu þó einhver smábein að naga.

En beri maður að öðru leyti saman þetta fyrirkomulag, sem nú er, þar sem eitt einkafyrirtæki hefir meira en helming af tóbakssölunni, og afgangurinn skiptist milli margra smærri, og svo hitt, að ríkið hafi alla söluna, þá hygg ég það þurfi nokkuð magnaðan íhaldsmann til að segja, að núverandi fyrirkomulag sé betra. Það vita allir, sem til þekkja, að bæði að því leyti, að ágóðinn lendir í vösum einstakra manna, en ekki í ríkissjóðnum, og frá verzlunarlegu sjónarmiði er einkasala ríkisins hagkvæmari. Þeir hv. þm., sem talað hafa móti þessu frv., hafa gerzt svo djarfir að halda fram, að tóbakseinkasala fengi lakari innkaup heldur en verzlanir einstakra manna. En tóbakseinkasalan fékk einmitt betri kjör á öllum sviðum, þar sem reynt var, heldur en þeir, sem höfðu umboð fyrir sömu verksmiðjur áður. Þetta er auðvelt að sanna, að það var ekki ein einasta verksmiðja; sem Landsverzlunin skipti við, sem gaf ekki ríkinu að einhverju leyti betri kjör, annaðhvort með lengri gjaldfresti og óbreyttum kjörum eða með meiri afslætti en umboðsmenn höfðu áður. Og nú fá heildsalar hér einnig lakari innkaup á tóbaki en Landsverzlunin.

Hvað rekstrarkostnaði viðvíkur, þá er hann miklu meiri nú við heildsöluverzlunina heldur en nokkurntíma við tóbakssölu ríkisins. Þetta er eðlilegt, af tveimur ástæðum. Fyrst og fremst af því, að einkasalan hafði alla verzlunina, svo að kostnaðurinn skiptist niður á mikla veltu, og í öðru lagi af því, að nú verða tóbakskaupmenn að leggja mikið fé fram til þess að selja vöruna, en áður kom salan af sjálfu sér, þar sem ekki var nema í eitt hús að venda. En mikill sölukostnaður er auðvitað óþarfur frá þjóðfélagslegu sjónarmiði.

Af þessu leiðir það, að þótt Tóbaksverzlun Íslands gefi góðan arð, þá verður sá arður samanlagður við arð annara innflytjenda miklu minni en ef ríkið hefði tóbakið á sínum höndum. Þetta er svo einfalt, að þeir, sem hafa nokkra nasasjón af verzlun, ættu að geta skilið það, að stærstu fyrirtækin, sem sameina meira undir einn hatt, fá ódýrari rekstur og betri kjör.

Það mætti minnast á ýmislegt fleira. Hjá ríkinu liggur t. d. miklu minna fjármagn í vörubirgðum en hjá einstaklingum, því að hver einstakur verður að hafa birgðir, en einkasalan getur reiknað söluna nákvæmlega út.

Mér dettur ekki í hug að ganga inn á þá hugsun, sem ég hefi orðið var hjá nokkrum hv. framsóknarmönnum, að tóbakið væri eiginlega sú eina vara, sem ríkið ætti að reka verzlun með. Ég álít, að þær reglur, sem ég hefi nefnt, gildi að miklu leyti um verzlunina við útlönd.

Nú hefir hv. 2. þm. G.-K. á sinn venjulega vinsamlega hátt látið hér í ljós, að ég mundi í raun og veru ekki vera með því, að ríkið tæki að sér tóbaksverzlunina, vegna þess að ég ætti hluti í Tóbaksverzlun Íslands. Ég á þar að vísu ekki nema einn tuttugasta hluta af höfuðstólnum, en nægilega mikið til þess, að það gefi góðan arð. En ég verð að segja, að hvernig sem hv. 2. þm. G.-K. mundi hegða sér í slíku tilfelli, þá er ég ekki það mikill ræfill, að ég vinni það fyrir nokkrar krónur að ganga frá sannfæringu minni. En það er sannfæring mín, að þessi vörutegund sé miklu betur komin hjá ríkinu en einstökum mönnum, af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar talið, svo að hvað sem hv. 2. þm. G.-K. álítur um það, þá mega menn trúa því, að mér er full alvara, að þetta frv. nái fram að ganga.

Það hafa nú ýmsir talað mikið um einokun, og allt tal þeirra ber vott um litla þekkingu á verzlunarsögu Íslands. Það er nú svo, að hörmungarnar á einokunartímabilinu voru ekki í raun og veru af því, að það var einkasala á vörum, heldur af því, að einkasalan var fengin í hendur einstökum kaupmönnum. Það var eins mikill munur á hörmangaraverzluninni og konungsverzluninni eins og á nótt og degi. Það voru flestir sammála um það, að þegar konungur hafði verzlunina í sínum höndum, m. ö. o. þegar rekin var landsverzlun, þá var verzlunin betri, en þegar kaupmenn voru einráðir, þá var verzlunin svo ill sem hugsazt gat.

Hér með okkur Íslendingum er nú barizt um einkasölu eða samkeppnisverzlun, á sinn hátt eins og áður var barizt um konungsverzlun eða hörmangaraverzlun. Hörmangaraverzlunin byggðist á „frjálsri samkeppni“, þó að hún að vísu hafi verið einráð yfir markaðinum, en konungsverzlunin er hliðstæð landsverzlnninni nú, með þeim mun, að að því leyti sem stjórnarfarið er nú lýðfrjálsara getur þjóðin sjálf haft áhrif á það, hvernig verzlunin verður. Það er því í raun og veru sami meginmunurinn á hörmangaraverzluninni og konungsverzluninni annarsvegar og samkeppnisverzluninni og einkasölu hinsvegar, þegar einkasalan er rekin af mönnum, sem vilja hag hennar sem beztan, en ekki kosta kapps um að eyðileggja hana í augum almennings, eins og vill brenna við, þegar íhaldsmenn og íhaldsstj. hafa með hana að gera. Vil ég í því sambandi skírskota til þess, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um afgreiðsluna á pósthúsinu. Á þeim árum sat íhaldsstj. að völdum og því engin furða, þótt misfellur væru á í þessum efnum. Þó að um opinber fyrirtæki sé að ræða, er hægt að reka þau illa, og mikil hætta á, að svo verði, þegar þeir menn, sem fara með stjórn þeirra, hafa engan skilning á málinu né vilja til þess að vinna fyrir heildina.

Hv. þm. Dal. tók það sem dæmi þess, hve fráleitt væri að halda áfram á þessari braut, ef sett væri upp einkasala á bifreiðum. Ég álít þetta vel til fallið, og mér er kunnugt um það, að þar eru mér margir sammála, þó að ekki séu þeir flokksbræður mínir. Hingað er hrúgað inn hverri bifreiðategundinni á fætur annari. Fjölmargar þeirra reynast illa og með mörgum tegundunum fylgja engir varahlutir. Því vill það oft brenna við, þegar menn, sem litla þekkingu hafa í þessum efnum, eiga í bílakaupum, að þeir kaupa einhverja nýja tegund og verða svo að standa uppi atvinnulausir um lengri eða skemmri tíma, ef til vill 3–4 mánuði, á meðan verið er að ná í varahluti í þessa bíla, sem ekkert er til að gera við með, ef þeir bila. Ég álít, að full ástæða sé til þess að rannsaka, hvort ekki mætti draga úr þessum innflutningi á nýjum bifreiðategundum og fá í þeirra stað haldkvæmar og góðar tegundir með nægilegum varahlutabirgðum fyrir þarfir landsmanna.

Sama máli gegnir um ýmislegt fleira. T. d. er mikil hætta á því, að bátamótorar verði ofurseldir þessum sömu örlögum. Hingað eru fluttar ótal tegundir af þeim, og er það mörgum íhugunarefni, hversu mikill tími og peningar fara þar til spillis, vegna þess, hve margar hinar nýju tegundir reynast illa.

Hv. 1. þm. Reykv. tók nokkur dæmi um það, hversu hin frjálsa verzlun, sem hann svo kallar, hefði gefið góða raun. Nefndi hann t. d. það til, að eftir að tóbakseinkasalan var lögð niður, hefði verðið á tóbakinu ekki hækkað, þrátt fyrir hina auknu tolla, sem á það voru lagðir. En það vildi nú til fyrir andstæðinga tóbakseinkasölunnar, að í lok þess árs, sem hún hætti, varð mikið verðfall á tóbaki, og af þeim ástæðum þurftu þeir, sem tóku við af einkasölunni með verzlun á tóbaki, ekki að hækka verðið, þó að tóbakstollurinn væri hækkaður. Þetta stendur því alls ekki í sambandi við það, að tóbakseinkasalan var lögð niður, heldur var það bein afleiðing þess verðlags, sem á þessum tíma var á tóbaki á heimsmarkaðinum.

Hv. 1. þm. Reykv. taldi það sönnun þess, hversu heppilegra það væri fyrir ríkið að taka tekjur sínar með tolli en einkasölu, að tekjurnar af tóbakstollinum færu alltaf vaxandi. En nú er á það að líta, að tollurinn er mestur á vindlingum, en tiltölulega lítill á rjóli og munntóbaki. Aftur á móti snýst sala tóbaksins meira og meira um vindlinga, því að vindlinganotkunin fer stöðugt í vöxt, hér á landi sem annarsstaðar, eins og innflutningsskýrslurnar bera ljóst vitni um. Má gera ráð fyrir, að á næstu árum muni vindlinganotkunin fimmfaldast, miðað við vöxt hennar undanfarið. Þessar ástæður liggja til þess, hversu tollatekjurnar af tóbakinu hafa aukizt. Það á engar rætur í því fyrirkomulagi, sem nú er á tóbaksverzluninni. Slíkt er misskilningur einn, að svo sé.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að einkasala á hverju sem væri hefði alltaf vonda vöru á boðstólum. Hefði hann fengið að kenna á því sjálfur, þegar tóbakseinkasalan var hér. Þá hefði ekki verið völ á öðru neftóbaki en svörtum rudda, sem gerði hvert nef skinnlaust. Mér er ekki kunnugt um það, hvað skinnhúðin í nefi hv. 1. þm. Reykv. er sterk, en hitt er mér fullkunnugt um, að tóbakseinkasalan vandaði ekki síður val sitt á rjóli en öðru tóbaki. Féll að vísu niður um tíma innflutningur á rjóli frá einu aðalfirmanu á því sviði, vegna einhverra misbresta á samkomulagi, en tóbakseinkasalan flutti inn frá byrjun neftóbak frá því firma, sem mesta neftóbaksverzlun hefir haft hér á landi og alþekkt er undir nafninu „Brödrene Braun“. Ef hv. 1. þm. Reykv. hefir því verið orðinn skinnlaus í nefinu vegna vonds neftóbaks, stafar það af því, að hann hefir hætt að nota hinar gömlu og viðurkenndu tegundir og snúið sér að einhverjum nýjum, eða þá að sannfæring, hv. þm. fyrir því, að tóbakseinkasalan hlyti að verzla eingöngu með vont tóbak, hefir verið svo sterk, að hann hefir fengið fleiður í nefið við tilhugsunina um það, að hann væri að taka einkasölutóbak í nefið.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar en ég hefi gert. Hér er um að ræða mjög verulegt fjáröflunarfrv., þar sem telja má víst, að tóbakseinkasalan muni gefa af sér í árlegar tekjur fullar 200 þús. kr., án þess að íþyngja þurfi almenningi í verðlagi. Er þar gengið út frá því, að tóbaksnotkunin haldist óbreytt, en allar líkur benda til, að tóbaksnotkunin muni fremur vaxa en minnka, og gefur það náttúrlega meiri gróða af einkasölunni.

Hv. 2. þm. G.-K. lét það í ljós, að sú mundi ekki meiningin, að þetta frv. ætti fram að ganga á þessu þingi. Ég skal játa það, að mér er ekki kunnugt um, að Framsóknarflokkurinn hafi sem slíkur tekið afstöðu til þessa frv., en tveir af meðnm. mínum eru meðmæltir frv., og hefi ég enga ástæðu til að væna þá um það, að þeir ætli frv. ekki fram að ganga, né heldur þeirra flokkur.

Við jafnaðarmenn höfðum hugsað okkur að leggja annan grundvöll fyrir þessu máli á þessu þingi, en við hurfum frá því, og það varð úr, að hv. þm. Ísaf. flytti þetta frv. ásamt hv. l. þm. N.-M. Við höfðum hugsað okkur að bera fram frv.um það, að sett yrði á stofn einskonar landsverzlun, sem starfaði í deildum og hefði með að gera hin ýmsu verzlunarfyrirtæki ríkisins og annaðist þar að auki öll efnisinnkaup þess. Stofnun þessa væri síðar hægt að auka eftir þörfum, með því að bæta við nýjum deildum. Ríkið þarf að láta gera efniskaup árlega fyrir stórfé, t. d. á efni til síma, byggingarefnum, kolum, lífsnauðsynjum o. þ. l., og virðist því ekki nema sjálfsagt að sameina þetta allt undir eina og sömu framkvæmdarstjórn. Nái þetta frv. fram að ganga, sem ég vona fastlega að verði, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að sett verði á stofn slík innkaupaskrifstofa í sambandi við tóbakseinkasöluna, enda þótt það sé ekki fyrirskipað í lögum. Þar sem hið opinbera á annað borð þarf að sjá um þetta, er sjálfsagt að sameina það undir einn hatt, enda vænti ég þess af hæstv. stj., að það verði gert, ef frv. verður að lögum. Ég er viss um það, að á þeim liðum sparast mikið fé, sem nú fer í milliliði.