07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í C-deild Alþingistíðinda. (1432)

172. mál, einkasala á tóbaki

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta frv., enda hefir það þegar verið rætt nokkuð frá báðum hliðum, en ég vildi þó drepa lítillega á þetta mál út frá sjónarmiði, sem ekki hefir komið fram ennþá.

Það er enginn vafi á því, að það er rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að ríkið getur fengið fullar 200 þús. kr. tekjur árlega með því að taka tóbaksverzlunina í sínar hendur og reka hana á heildsölugrundvelli, án þess þó að íþyngja þurfi neytendunum með hækkuðu verðlagi. Náttúrlega er þetta ekki fundið fé, heldur tekið frá heildsölunum, en gróðinn er þó annars eðlis en fengist með því að hækka verðið á þessari nautnavöru með auknum tollum.

Það hefir verið talað mikið um það síðustu tvö ár, að nauðsyn bæri til, að ríkið styddi með fjárframlögum raforkuveitur til sveita og í hinum smærri þorpum. Kaupstaðirnir hafa betri aðstöðu í þessu efni vegna fjölmennis síns, sérstaklega þó Reykjavík, því að hér er fólkið flest og tiltölulega auðvelt að ná til hins bezta vatnsfalls, sem völ er á.

Ef Alþingi hugsar til þess í alvöru að bæta raforkuveitunum við á áætlun sína, má ekki fara eins og fór um berklavarnirnar, að bætt sé á ríkissjóðinn miklum útgjöldum án þess að jafnframt sé séð fyrir að afla tekna. Hefi ég fært það í tal við ýmsa þm., hvort ekki væri því ráð að láta gróðann af hinni væntanlegu tóbakseinkasölu renna til rafveitnanna. Mætti bæta slíku ákvæði inn í frv. við 3. umr., að ágóðanum yrði varið til þess að styrkja, hvort heldur væri einstaka menn eða félög, í að koma sér upp raforkuveitum, eða ef menn vildu síður fella þetta inn í frv., mætti taka það fram í l. um raforkuveiturnar.

Eins og stendur er verið að rannsaka kostnaðarhliðina á þessu máli, og hefir homið í ljós, að margir og miklir erfiðleikar eru við það bundnir. Einn þeirra er sá, að það er að verða meira og meira áberandi, að eins og enn er varið kunnáttu hinna beztu manna við að leiða rafmagn, lítur út fyrir, að okkur verði um megn að koma upp svo öflugum leiðslum, sem nauðsynlegar eru, til þess að hægt sé að hafa rafmagnið til hitunar. Til þess að það yrði unnt þyrfti að leiða meira rafmagn um dreifbýlið heldur en efnalitlir menn geta risið undir af eigin rammleik. Og til að hjálpa þeim þarf fé, og það fé álít ég syndlaust að taka á þann hátt, sem fyrr er á drepið.

Það má telja vafalaust, að hin öra þróun smáraforkuveitnanna haldi áfram á næstu árum. Sá smiður, sem mest gengi hefir haft í þessum efnum, er búinn að færa svo út kvíarnar, að hann getur nú haft 15 menn á vinnustofu sinni við að smíða raforkuvélar mikinn hluta ársins. Er þó langt frá því, að hann hafi undan þeim kröfum, sem gerðar eru til hans víðsvegar um land, að mestu um virkjun fyrir einstök heimili.

Ég álít rétt að tryggja þennan tekjustofn, sem felst í þessu frv., og slá því föstu, að honum skuli varið til að styrkja jöfnum höndum einstaklingsveitur og félagsveitur, en engu síður þær fyrrnefndu, því að þar hefir það sýnt sig, að þróunin er mest. Það mundi gera þetta mál hugþekkara þeim, sem eru andvígir því, og skapa þannig möguleika fyrir því, að hægt yrði að mætast á miðri leið, þar sem þeir menn, sem mest hafa spjallað um raforkunotkun í sveitum, hafa ekki sýnt fram á neina leið til þess að afla peninga í sjálfar rafveiturnar. Hefir leikið á því nokkur vafi, hvort hugur fylgdi máli.