07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í C-deild Alþingistíðinda. (1436)

172. mál, einkasala á tóbaki

Jón Auðunn Jónsson:

Ég verð að segja það, að mig undraði stórlega ræða hv. frsm. meiri hl. Það kom greinilega fram, að hann veigraði sér við að halda uppi beinni vörn fyrir einkasöluna, enda kom hann varla nálægt kjarna málsins. Hann reyndi alls ekki að hrekja þær tölur, sem ég bar fram til stuðnings mínu máli. T. d. gat hann alls ekki hrakið það, að nú eru tekjur ríkisins af tóbaki 300–400 þús. kr. meiri en meðan einkasalan var. Hann gat heldur ekki hrakið það, að tóbakið lækkaði þegar á fyrsta mánuði eftir að einkasalan hætti. Hv. þm. veit þetta mjög vel, og treystir sér því ekki til að koma inn á það, heldur reynir hann að vaða elginn um þau atriði, sem minna máli skipta. Einkasalan hafði lækkað tóbaksverðið í desember um 10%, en í janúar, þegar verzlunin var gefin frjáls, lækkaði það um 12% þrátt fyrir tollhækkunina. Ríkissjóður hefir fengið miklu meiri tekjur af tóbakinu eftir að verzlunin var gefin frjáls. Þetta hefir hv. 2. þm. Reykv. ekki getað hrakið. En þetta eru staðreyndir, sem ekki má ganga framhjá. Eitt af því, sem á þinginu 1925 var talið einkasölu til ágætis, var það, að með því yrði betra að hefta óleyfilegan innflutning tóbaks frá útlöndum. Þessi röksemd hefir ekki heyrzt að þessu sinni, enda er það alkunnugt, að meðan einkasalan var, þá var flutt inn óleyfilega tóbak í stórum stíl, sérstaklega á Austfjörðum. Ég get bent á eitt dæmi, sem allir kannast við, þegar hv. 1. þm. S.-M. sagði um tóbak, sem honum var boðið: „Þetta er færeyskur ruddi“. Það var sem sé alkunnugt, að meðan einkasalan stóð yfir, var flutt inn óleyfilega feikn af tóbaki frá Færeyjum.

Hv. frsm. sagði, að það hefði orðið að hækka tóbakstollinn, til þess að ríkið hefði sömu tekjur og meðan einkasalan starfaði. Þetta er ekki rétt, því að það hefði meira að segja mátt lækka tollinn um leið og verzlunin var gefin frjáls. Jafnaðartekjur einkasölunnar árlega voru 764 þús. kr., en jafnaðartekjur fjögurra síðustu ára af tóbaki eru 1 millj. 123 þús. kr. á ári. Þó er í þessum tekjum einkasölunnar talinn gengishagnaður á einu ári, sem nam 69 þús. kr., og ennfremur 90 þús. kr., sem vörubirgðir voru hækkaðar vegna 25% tollgengisviðaukans 1925. En þrátt fyrir þetta verða núverandi tekjur af tóbakstolli þó stórkostlega miklu meiri en af einkasölunni áður. Hv. frsm. sagði, að við hefðum viljað auka tekjur ríkisins, þegar við vorum með því 1921, að ríkið tæki í sínar hendur verzlun með tóbak. Þetta er ekki rétt. Það, sem fyrir okkur vakti, var það, að reyna þetta fyrirkomulag, öðlast reynslu í þessum efnum. En sú reynsla er á þann veg, að okkur dettur aldrei í hug að styðja slíka einkasölu framar. Hv. þm. þarf ekki að undrast þetta, því að hann myndi t. d. ekki vilja ala kú, sem mjólkaði ekki meira en t. d. 1400 potta, þó hann í upphafi hafi keypt hana til reynslu. Nei, hann myndi áreiðanlega slátra henni og kaupa sér aðra betri kú, sem mjólkaði t. d. 3000 potta. Eins er okkur sjálfstæðismönnum farið; við höfum séð, að einkasalan gefur minna af sér heldur en ef verzlunin er frjáls.

Hv. frsm. vill með einkasölunni ná gróða heildsalanna af tóbaksverzluninni. Þetta er síðasta hálmstráið. Nú er þessum málum þann veg háttað, að öllum er það í sjálfsvald sett að komast hjá heildsölum, og á Vesturlandi er það t. d. svo, að kaupmenn verzla beint við útlönd. Ef það eru nú duglegir menn, þá ná þeir að jafnaði sæmilegum kjörum og geta þá grætt töluvert á því. En ef svo er ekki, þá verður hagnaðurinn vitaskuld lítill eða enginn. Þeir kaupmenn, sem minna eru framtakssamir, verzla þá frekar við heildsalana, og gjalda þar framtaksleysis síns. En látum þá um það. Og það verða engin lög frá Alþingi, sem geta verndað þá menn, sem jafnan verzla í skuldaverzlun, eða gefið þeim jafna aðstöðu við þá, sem alltaf verzla skuldlaust.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að sjálfstæðismenn reyndu að rægja fyrirtæki andstæðinga sinna. Þetta er mjög ómaklega mælt, því að sjálfstæðismenn gleðjast yfir því, þegar menn, þótt andstæðingar þeirra séu, geta boðið betra verð fyrir vöru sömu tegundar en aðrir. Því að það er eitt af okkar höfuð-„principum“, að verzlunin sé frjáls og hver maður geti notað sína hæfileika og aðstöðu til þess að skapa sér betri skilyrði. Ég vil segja hv. 2. þm. Reykv. það, að ég ann honum og hans fyrirtæki mjög vel þess gróða, sem hann hefir af olíu eða tóbaki, ef hann selur vöru sína við sama eða betra verði en aðrir. Hitt er annað mál, sem heyrzt hefir hér í umr., að hann hafi notað aðstöðu sína, þegar hann var í þjónustu ríkisins, til að útvega sér upplýsingar og sambönd, til þess að skapa sér betri aðstöðu heldur en kaupmenn hafa almennt. Slíkt hlýtur að teljast viðsjárvert, sérstaklega ef því er svo hagað, að þegar maður er búinn að reka eigin verzlun í 3–4 ár, þá er skellt á einkasölu og keppinautar hans útilokaðir, þannig að hann getur selt sínar vörubirgðir, og fær svo að erfa einkasöluna eftir fáein ár. En það var sérstaklega þessi veila í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem ég vildi benda á.