07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í C-deild Alþingistíðinda. (1437)

172. mál, einkasala á tóbaki

Jóhann Jósefsson:

Það var einhverntíma undir eldhúsdagsumr. hér, að hæstv. forsrh. lét svo um mælt, þegar hann hafði ekki við að svara þeim ádeilum, sem sjálfstæðismenn beindu að stj., að honum fyndist þetta skrípaleikur. Ég verð að segja, að mér virðist allt þetta tóbakseinkasölustand, sem stj. og flokkar hennar eru að burðast með, ganga skrípaleik næst.

Hv. frsm. (HStef) hefir algerlega gengið framhjá öllum rökum í þessu máli. Hv. þm. N.-Ísf. er búinn að margskora á hann að sýna nokkra veilu í þeim útreikningi, sem hann hefir gert, og sem við vitum, að hefir stoð í landsreikningum og öðrum opinberum gögnum. Nei, það er ekki verið að hugsa um það, heldur er verið að bisa við að koma á einkasölu aftur, hvað sem það kostar.

Hv. jafnaðarmenn eiga góða daga hér á þingi, þegar þeirra stefnumál og hjartans áhugamál eru tekin upp af „bændastjórninni“ og þingbændum og borin fram „nolens volens“, þannig að jafnaðarmenn geta setið brosandi og lesið „Manninn frá Suður-Ameríku“ og þurfa ekki að skipta sér af neinu. Það er eiginlega óhætt að segja, að ekki mannfleiri þingflokkur en jafnaðarmenn eru hafi komið ár sinni sæmilega fyrir borð.

Þegar tóbakseinkasalan, sem var ákaflega illa þokkuð af landsmönnum, var afnumin, þá hafði ég allmikil afskipti af því máli. En eins og hv. þm. N.-Ísf. er búinn að benda á og stjórnarliðar geta ekki með nokkrum rökum mótmælt, þá hafa allar hrakspárnar, allar dylgjurnar og rógurinn, sem kom þá fram í ræðum þess manns, sem nú er orðinn dómsmrh., og annara fylgismanna einkasölunnar, fallið um sjálft sig. Það hefir komið í ljós, að þrátt fyrir alla verðlækkun á vörunni hefir ríkið fengið meiri tekjur en við þorðum að gizka á. En samt sem áður er þeim málefnið svo hugarhaldið, þessum forvígismönnum ófrelsis og hafta, að þeir hika ekki við að steypa aftur einokun yfir landsmenn. Það er nú búið í bili að hressa hv. 1. þm. N.-M. svo upp, að hann berst öruggur fyrir stefnumálum stj. Ef ekki er hampað framan í hann einhverjum fríðindum, hefir hann allt á hornum sér, en svo þegar hann er smurður, fer þm. þegar á stað; þetta er nú eitt skiptið, sem hann hefir verið „smurður“ — ég trúi hann sé nýbakaður endurskoðandi í Útvegsbankanum —, enda er hann nú allákveðinn að mæla með einkasölu. Hann hafði bara engin rök í málinu, þau voru látin liggja milli hluta.

Það verður annars nógu gaman að heyra, þegar hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Ísaf. fara að leiða saman hesta sína um verzlunarmál á kosningafundum í vor. Ég þekki ekki mismuninn þar á milli. Hv. þm. Ísaf. má fara að gæta að sér, að „Framsókn“ fari ekki fram úr honum í kapphlaupinu um að leggja sem mest höft og helsi á verzlun landsmanna. Ég geri þó ekki ráð fyrir, að hv. þm. Ísaf. kalli nú allt ömmu sína í þessum efnum. (Einhver þm.: O, hún er nú dáin!). Satt er það, en mér virðist svo örugglega að einokunarverkinu gengið af flokknum, sem kennir sig við bændur, að sócíalistar mega fara að gæta að sér.

Það er nú viðurkennt, að þessar þjóðnýtingar- og ófrelsiskenningar eru fast að því mannsaldri á eftir tímanum. En það er til marks um þroskaleysi Íslendinga, og sérstaklega þess flokks, sem nú ræður lögum og lofum í þinginu, að hér glápa menn á hugmyndir, sem fyrir löngu er búið að varpa fyrir borð hinumegin hafs. Menn dreymir t. d. ekki um það á Englandi, þar sem þó er verkamannastjórn, að hneppa verzlun brezka heimsríkisins í neina fjötra, og sama er að segja um Danmörku og Þýzkaland.

En hér á landi eira þessir menn engu. Þeir eru eitthvað svo þroskalausir, að þegar þeir hafa völdin um tíma, er um að gera að kollvarpa sem mestu af því, sem fyrir er í þjóðfélaginu, og koma með annað í staðinn, án þess að því er virðist að athuga, að slíkt athæfi hefnir sín ávallt sjálft. En í rauninni má segja, að til þess að gera skýrari afstöðu milli hinna frjálslyndu og ófrjálslyndu manna fyrir landskjörið sé það gott, pólitískt skoðað, að einmitt stjórnarflokkarnir, framsóknar- og jafnaðarmenn, sækja svo fast að hneppa verzlun landsins í einokun; það ætti að opna augun á landsmönnum fyrir því, hverju þessir flokkar berjast fyrir. Svo er það alltaf látið kveða við úr herbúðum stj., að við hinir séum með málþóf. Það kemur, ekki fyrir nú orðið það deilumál, að ekki sé komið með þá mótbáru, að við andstæðingarnir viljum beita málþófi. Það, sem liggur á bak við þetta, er sami andinn og kom fram hjá stjórnarliðinu í fyrra, þegar það skar niður umr. um stjórnarfyrirkomulagið í síldareinkasölunni. Því grípa þeir ekki alltaf til þess örþrifaráðs? Þá losnuðu þeir við þær ádeilur, sem við eftir þingræðisreglum höfum leyfi til að koma með. En bak við nöldur og eftirtölur stjórnarliðsins liggur auðvitað þessi hugsun: Þið eruð í minni hl., og þið eigið að þegja. Það er þessi kúgunarandi. Þess vegna er t. d. Tíminn látinn fiska upp, hve lengi við höfum talað á eldhúsdegi. Þess vegna er þetta sífellda nöldur og vanþóknun yfir því, að við stjórnarandstæðingar notum málfrelsi okkar á þingi.

Hv. þm. N.-Ísf. minntist á eitt atriði, sem núv. hæstv. dómsmrh. dró mjög fram á þingi 1925, þegar einkasalan var afnumin. Hann var heldur en ekki á því, að ekki lægju hreinar hvatir hjá þessum kaupmönnum, mér og mínum líkum, sem börðust fyrir því, að verzlunin yrði gefin frjáls. Okkar markmið væri svo sem að losa tóbaksverzlunina úr höndum Landsverzlunarinnar, til þess að „svíkja tolla“, eins og hann komst að orði. En það voru strax gerðar þær ráðstafanir til að koma í veg fyrir tollsvik, er reyndust fullnægjandi, og ég veit ekki betur en að almennt sé álitið, að hvað tóbakið snertir eigi sér ekki mikil tollsvik stað. A. m. k. heyrist ekki mikið um það talað.

Ég ætla ekki að skipta mér af deilum hv. 2. þm. Reykv. og þeirra þm. Sjálfstæðisflokksins, sem talað hafa. Það var bent á, að hann hefði hirt reiturnar, eftir því sem hægt var, þegar tóbakseinkasalan var afnumin. Hann sat eftir í hrúgunni og gramsaði i. Hann segir sjálfur, að það hafi verið skylda sín að nota þá þekkingu, sem hann hafði öðlazt í „faginu“, tóbaksverzluninni. Ég ætla ekkert að lá honum það eftir atvikum. Eins og hv. þm. virðist koma fram í opinberu lífi, var ekki nema eðlilegt, að hann hefði það eins og hann hafði.

Annars fer að verða nokkuð broslegt, ef það á að ganga svo til með skiptandi áhrifum stjórnmálaflokkanna, að ýmist er verið að setja á stofn einkasölur eða afnema þær. Við vitum, að þeir, sem mest græða á því, eru forstjórarnir, sem eru í ríkisins þjónustu, eins og hv. 2. þm. Reykv. sagðist hafa verið, en sem verða svo heildsalar, til þess einn góðan veðurdag að geta selt allar birgðirnar til ríkisins, og orðið aftur auðmjúkir þjónar ríkisins.

Það er svo lítil festa í þessu, að það er raunalegt, að stjórnmálaflokkar skuli ekki vera þroskaðri en svo, að þingið þurfi að eyða tíma og peningum til þess að ræða það nú, hvort ekki sé nauðsynlegt að innleiða aftur tóbakseinkasölu, þrátt fyrir það, þótt búið sé að sýna og sanna, að afnám hennar var ekki til skaða, heldur gróða fyrir ríkissjóð og ótvíræður gróði fyrir alla, sem nota þessa vöru.

Mér datt í hug við þessar umr., að þjóðin sé undir nokkurskonar martröð hinna pólitísku valdhafa í landinu, þessara tveggja flokka, sem í raun og veru renna saman í flestöllum málum, og í verzlunarmálunum eru einn flokkur. Þessir flokkar sitja um hvert tækifæri til þess að fá hefta framtakssemi þjóðarinnar, bæði á verzlunarsviðinu og öðrum sviðum. Þetta er úrelt aðferð á okkar tímum, úrelt kúgunaraðferð, sem þessir valdhafar vilja beita þjóðina, og það er sannarleg martröð, sem hin íslenzka þjóð lifir undir, meðan slíku fer fram.

Um rök þýðir ekki að ræða, á reikningslega útkomu þýðir ekki að benda; á sanngirni þarf ekki að minnast, því það er ekki nema ósanngirni að vænta úr þessum herbúðum. Stefnan er þessi, að leggja sem mest af lífi þjóðarinnar undir ok fámennrar klíku, hvort sem hún heitir síldareinkasala, olíueinkasala eða tóbakseinkasala, eða hvaða nafni sem hún nefnist. Svo sjáum við, hvernig það gengur til, þegar slíkt fyrirkomulag er komið á í hverri grein. Maður man slaginn, sem stóð 1925 um að breyta tóbaksverzluninni úr ófrjálsri verzlun í frjálsa. Og maður sér glögglega, hvernig til tekst, þegar þessar stofnanir, eins og t. d. síldareinkasalan, eru komnar á fót. Þær eru gerðar að pólitísku vígi og athvarfi, og það er ómögulegt fyrir einstaklinga þjóðfélagsins að ná þar nokkrum rétti. Það safnast utan um þetta skjaldborg af pólitískum spekúlöntum og málaliðsmönnum, sem standa gegn öllu því, sem heitir gagnrýni á þessum ríkisstofnunum. Dirfist nokkur að finna að stjórn þeirra, er hann óðar lagður í einelti með blaðaskömmum og hafður að skífu fyrir eiturörvar málaliðsins.

Mér virðist, að það væri rétt fyrir hæstv. stj., þar sem hún hefir öll tök á þessu máli, að keyra tóbakseinkasöluna í gegn á þessu þingi með afbrigðum og beita til þess öllum meðulum, sem til eru. Því að það verður að líta svo á, fyrst komið er fram á síðustu daga þingsins, að stj. áliti hér mikið þjóðþrifamál á ferðinni, úr því að eyða má tíma þingsins í þetta. En það skulu þessir herrar vita, að við sjálfstæðismenn teljum okkur ekki skylt að steinþegja við vitleysunni.

Málþóf eða ekki málþóf, — það má kalla það hvað sem menn vilja. En við hvaða mál, sem valdhafarnir, jafnaðarmenn og framsóknarmenn koma með, og sem dregur úr frelsi einstaklinganna til þess að bjarga sér, hvort sem það eru verzlunarfjötrar eða önnur höft, þá munu sjálfstæðismenn standa þéttir í fylkingu til þess að mótmæla óhreinskilninni, mótmæla kúgunartilraununum og mótmæla blekkingunum og öðru því, er þeir beita sér til framdráttar, jafnaðarmannaflokkurinn og Framsóknarflokkurinn-flokkarnir, sem bera ábyrgð á stjórninni og ráða að mestu gangi mála á þessu þingi.