16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í C-deild Alþingistíðinda. (1465)

172. mál, einkasala á tóbaki

Jón Þorláksson:

Þótt fjhn. sé ekki búin að fjalla um þetta mál, þykir mér þó — úr því að annar nm., sem fylgir því, hefir þegar stutt það — rétt að gera grein fyrir því, hvers vegna ég get ekki fallizt á frv.

Sú tilhögun, sem þar er farið fram á, var reynd hér árin 1922–25. Í ársbyrjun 1926 var einkasalan lögð niður og tekjur ríkisins teknar með tolli eingöngu. Þegar einkasalan var lögð niður, var tollurinn hækkaður nokkuð til að slaga upp í verzlunarhagnaðinn, en þó ekki svo mikið sem útreikningar sýndu, að þyrfti að vera til þess að jafnast á við eldri toll að viðbættum nettóágóða, heldur var slakað til um toll á neftóbaki og munntóbaki. Hefði nú mátt búast við, að tekjur ríkisins af tóbakinu hefðu rýrnað, en nú liggja fyrir tölur um tekjur ríkisins af þessari vöru í landsreikningum frá 1926–27–28, og hefi ég borið saman síðustu þrjú árin, sem verzlunin hefir verið frjáls, og síðustu þrjú ár einkasölunnar og tekið meðaltal af tekjum ríkissjóðs þessi ár. Fyrsta árið, sem einkasalan starfaði, brugðust tekjur af tóbaki tilfinnanlega, vegna óeðlilega lítils innflutnings. Ég sleppi þess vegna því ári, til að halla ekki á einkasöluna.

Tölurnar sýna, að meðaltekjur af einkasölunni í þrjú ár, ásamt tolli, hafa verið 873 þús. kr. En hin þrjú árin, eftir breytinguna, verður meðaltalið 1042 þús. kr. Munar því að meðaltali á ári 169 þús. kr. á því, hve frjálsa fyrirkomulagið gefur ríkissjóði meiri tekjur en einkasalan, þrátt fyrir það, þótt tollur væri ekki hækkaður sem svaraði verzlunarágóða, þegar breyt. var gerð. Og þrátt fyrir þetta hefir verðið á tóbakinu lækkað.

Þessi tekjuaukning stafar af því, að tóbaksnotkun hefir orðið meiri með frjálsa fyrirkomulaginu en með einkasölunni. Þeir, sem vilja venja menn af tóbaki, geta því fundið kosti hjá einkasölunni. En það er staðreynd, að frjálsa verzlunin hefir gefið ríkissjóði 169 þús. kr. meira í tekjur að meðaltali en einkasalan, og þó er tóbakið ódýrara.

Mér finnst rétt að fara nokkrum orðum um gang málsins að þessu sinni. Frv. þetta er borið fram af þeim hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. N.-M., sem báðir áttu sæti í mþn. í skattamálum. Málið var til meðferðar í þeirri nefnd, og 12. nóv. síðastl. klofnaði n. í málinu. Flm. þessa frv. vildu leggja til einkasölu á tóbaki á næsta þingi, á líkum grundvelli og borið var fram í frv. því á þinginu 1929, sem hv. 2. þm. Reykv. flutti þá. Þessi meiri hl. í mþn. sendi svo málið með bréfi til ráðuneytisins og lagði til, að þessi tilhögun yrði lögleidd og gerði ráð fyrir 200 þús. kr. tekjuauka af henni á ári. „þegar frá líður“. En engin grg. eða rökstuðningur fylgdi þessu. Þeir óskuðu svars sem fyrst frá stj. um það, hvort hún vildi flytja frv. um málið á þingi, og kváðust flytja það sjálfir, ef stj. gerði það ekki. Í grg. frv., sem flutt er í febrúar, segja þeir, að fjmrh. hafi tjáð þeim, að frv. yrði ekki lagt fyrir þingið. M. ö. o., fjmrh. vill ekki leggja þetta frv. fyrir þingið, og ég skil afstöðu hans vel. Fjmrh. var einnig mótfallinn einkasölufrv. því, sem hér var á ferðinni í fyrra. Þetta er eðlileg afstaða hjá honum, því að ljóst er, að af þessari breyt. stafar tekjurýrnun, einkum fyrsta árið.

Í grg. frv. er vitnað í frv., sem hv. 2. þm. Reykv. flutti í fyrra, um líkur fyrir þessum 200 þús. kr. ágóða. Ég hefi gert leit í þskj. frá 1929 um þetta mál, og sé þar þá staðhæfingu, að tóbakseinkasalan muni gefa af sér 200–300 þús. kr. á ári. En hvergi er sýnt, hvernig þetta megi verða. Það er heldur ekkert undarlegt, þó að flm. hafi viljað leiða hjá sér útreikning um þetta, því að þetta getur ekki átt sér stað, nema hækka tollana eða verðið á tóbaki í einkasölunni.

Þá er eigi alllítill munur á ákvæðunum um álagningu á tóbakið í frv. 1929 og þessu frv. Í frv. frá 1929 er gert ráð fyrir 10–35% álagningu, miðað við verð vörunnar með tolli. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir 10–70% álagningu, miðað við verð vörunnar hér á landi án tolls. Er ekki gott að segja, hve mikil áhrif þessi framfærsla hefir á tóbaksverðið. Fjhn. hefir leitt þessa rannsókn hjá sér. En rekstrarkostnaður tóbakseinkasölunnar sálugu nam 100 þús. kr. á ári. Ég held, að óhætt sé að halda því fram að órannsökuðu máli, að mikill hluti af þessari framfærslu í frv. gangi til greiðslu á rekstrarkostnaði. Þá væri og ástæða til að rannsaka, hvort framfærslan leiddi til hækkunar á verðinu.

Þess ber að gæta, að um leið og ríkið tekur tóbaksverzlunina í sínar hendur, missir ríkissjóður nokkrar tekjur, en það eru skattar og gjöld af heildsöluálagningu tóbaksverzlananna. Eftir að einkasalan var lögð niður, hafa sem sé risið hér upp sérstakar tóbaksheildverzlanir — áður fengust smásalar mest við tóbaksverzlun og gerðu sin innkaup sjálfir. Ríkið hefir nú tekjur af þessum atvinnurekstri. Hinsvegar eru ríkisstofnanir bæði undanþegnar útsvari og tekjuskatti.

Afstaða málsins er þá sú: að frjáls verzlun hefir gefið 169 þús. kr. meira af sér að meðaltali í þrjú ár en einkasalan í önnur þrjú, og er tekjuaukningin því meiri en vænta má eftir fólksfjölgun; að fjmrh. hefir ekki viljað leggja frv. fyrir þingið; að forvígismönnum málsins ber ekki betur saman um tekjur af einkasölunni en svo, að hv. 2. þm. Reykv. gerir ráð fyrir 200–300 þús. kr. tekjum, en hv. 2. þm. S.-M. gerir nú ráð fyrir 180–200 þús. kr. tekjum, og að báðar tölurnar eru, að því er séð verður, byggðar algerlega á ágizkun, ekki sjáanlegt, að nokkrir útreikningar hafi verið gerðir til þess að byggja þessar tölur á, eða að unnt sé að rökstyðja þær með neinum slíkum útreikningi. Niðurstaðan af athugun á þessu hlaut líka að verða sú, að ekki væri ómaks vert fyrir ríkissjóð að fara inn á þessa braut.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að hér væri ágreiningur um stefnu. Það er rétt að nokkru leyti og að nokkru leyti ekki. Það má segja, að milli Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins sé ágreiningur um stefnu. Við sjálfstæðismenn stöndum vandlega á verði um hina frjálsu verzlun, því að okkur er ljóst, hver óhagur það er fyrir almenning, ef bundin eru viðskipti hans. Alþýðuflokksmenn hafa öfluga trú á forsjón kjörinna fulltrúa í öllum greinum og vilja leggja sem mest vald í hendur þeirra, og ekki sízt ráðin yfir því, hvar einstaklingarnir megi kaupa sér bita og sopa og með hvaða verði. Fyrir Framsóknarflokknum hefir mér skilizt, að þetta væri ekki stefnumál. Ég hefi tekið eftir yfirlýsingum frá leiðtogum hans á undanförnum árum, og þeir hafa yfirleitt talið sig fylgjandi frjálsri verzlun, en gætu þó hugsað sér að víkja frá henni, ef sérstakar ástæður mæltu með, svo sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Þegar svo stendur á, skil ég ekki, hvernig einn hv. þm. Framsóknarflokksins getur risið upp og sagt, að ekki þýði að deila um þetta mál nú, af því að algerður stefnumunur sé milli flokks síns og Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst flokkurinn skyldugur að gera sér grein fyrir, hvort nú séu fyrir hendi þær sérstöku ástæður, sem hann telur, að einar geti knúið sig til fylgis við einkasölu.

Ég hefi sýnt fram á, að ekki sé í nokkru af þeim skjölum, sem fyrir liggja, gerð tilraun til að sýna, að ríkissjóður fái meiri tekjur en hann hefir nú af tóbaki, nema þá með því, að verð þess væri hækkað stórkostlega. Og væri það ráð tekið, gætu þó tolltekjurnar minnkað, af því að kaupgeta þyrri og verzlunarmagnið rýrnaði, sérstaklega ef illt væri árferði.

Ég held þess vegna, að frá sjónarmiði Framsóknarflokksins hefði verið sérstök ástæða til að gefa málinu athygli í nefnd.

Satt að segja varð ég alveg hissa, þegar form. fjhn., hv. 2. þm. S.-M., greip til þess að skjóta út svokölluðu meirihlutanál., vélrituðu, á laugardagskvöldið var, um það leyfi, sem verið var að ljúka 3. umr. fjárl. hér í d. Ég fór að leita í gerðabók n. til þess að sjá, hvernig á þessu stæði. Þar stóð bókað, að nokkru áður þetta sama kvöld, kl. 9½, meðan umr. stóðu sem hæst, hafi nefndin komið saman hér í hliðarherbergi. Hv. 1. þm. G.-K. hafi vantað, en n. hafi samþ. að afgreiða þetta tveggja lína nál., sem aðeins eru meðmæli með frv., en gerir enga grein fyrir efni þess. Búið var þá að bæta tveimur mönnum í fjhn., en þeim var ekki boðaður fundurinn, það var viðurkennt af öllum, og fimmti nefndarmaðurinn kveður sér ekki boðað heldur. Mér sýnist þetta bera vott um ógnarlegt óðagot í þessu máli, sem að vísu væri skiljanlegt, ef það væri sérstakt stefnumál Framsóknarflokksins, eins og hv. 2. þm. S.-M. virtist halda. En það er misminni hans, og ef hann vissi betur, þá væri framkoma hans óskiljanleg.

Ég vil láta í ljós þá ósk, að hv. 2. þm. S.-M. sem form. fjhn. gangist fyrir því, hvort sem það verður áður en þessari umr. er lokið eða á eftir, að hv. fjhn. taki það til rannsóknar, hvort líkur séu til þess, að ríkissjóður geti fengið nokkrar auknar tekjur af þessu, án þess að verð vörunnar hækki.