16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í C-deild Alþingistíðinda. (1467)

172. mál, einkasala á tóbaki

Björn Kristjánsson:

Ég vildi staðfesta með fáum orðum það, sem hv. 3. landsk. þm. skýrði frá, að við þrír úr fjhn., hv. 3. landsk., hv. 6. landsk. og ég, vorum ekki boðaðir á fund, þegar málið var tekið fyrir í fjhn. Ég skoða því svo, að málið hafi alls ekki verið rætt enn í n. á lögmætan hátt og sé því eftir að gera það. Málið er það umfangsmikið, að sjálfsagt var, að það væri rætt af öllum í n., alveg jafnt hvort sem allir voru sammála eða ekki. Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að ef allir væru sammála, þá mætti ræða frv. Það er ekki venjulegt að setja nefndarmönnum slík skilyrði.

Það er vitanlegt, að málið þarfnast afarmikillar athugunar, því að reynslan er búin að sýna ávexti einkasölustefnunnar, og einmitt þessi starfsemi, ríkiseinokun á tóbaki, hefir staðið hér nógu lengi til þess, að sýnilegt var, að hún gefur ríkissjóði engar tekjur umfram það, sem tollurinn veitir. Hún var sett á stofn og reynd, og Alþingi komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að leggja hana niður. Þá fæ ég ekki skilið, að nokkrum hv. þm. skuli geta verið kappsmál að reisa hana við aftur, þegar áreiðanlegt er, að hún yrði aftur afnumin eftir ein 2–3 ár. Reynslan, sem fengin er, ætti að vera nóg, þegar ekki er einu sinni hægt að benda á nokkrar einustu líkur til þess, að einkasalan mundi reynast betur í annað sinn og gefa ríkissjóði meiri tekjur en tollinum nemur. Hér getur því ekki verið um neina tekjuaukning að ræða, heldur á aðeins að greiða atkv. um, hvort hjálpa eigi sócíalistum til þess að koma stefnumálum sínum fram. Framsóknarflokkurinn á því um það eitt að velja, hvort hann vill taka upp sócíalistastefnu hreina og ómengaða; um það eitt hlýtur atkvgr. að snúast.

Ég ætlaði ekki að segja nema fá orð. Ég er ekki fær um það að halda langar ræður, er ekki nógu sterkur til þess.