16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í C-deild Alþingistíðinda. (1469)

172. mál, einkasala á tóbaki

Jón Þorláksson:

Ég hefi ekki miklu að bæta við það, sem ég hefi áður sagt út af ummælum hv. 2. þm. S.-M. Hann sagði, að það væri gefinn hlutur, að skattatekjur af heildverzlun á tóbaki yfirfærðust til einkasölunnar, en það er alls ekki svo víst. Það er margt fleira í svona máli heldur en það, sem kemur fram á yfirborðinu. Sérstaklega er það nú svo, að ef ýmist er verið að setja á fót einkasölu eða afnema hana, þá má vita það, að þau erlendu verzlunarhús og þær erlendu tóbaksverksmiðjur, sem hingað selja vörur að nokkrum mun, munu hafa sína umboðsmenn hér og greiða þeim hundraðshluta af vörunni þau tímabil, sem einkasalan er notuð alveg eins og þegar verzlunin var frjáls. Einkasalan mun ekki njóta þessa hluta af verzlunararði heildsöluhúsanna, sem fólgið er í umboðslaunum frá þeirri aðaltóbaksverzlun, sem þeir skipta við. Hitt geri ég ráð fyrir að sé rétt að einhverju leyti, að aukning á tóbakstekjum síðustu ár stafi af auknum innflutningi, því að til þess að um tekjuaukningu sé að ræða með óbreyttum tolli verður innflutningurinn að vaxa. Hitt held ég sé alveg rétt, sem ég sagði, að ef á að draga úr notkun tóbaks, þá sé einkasalan ein af þeim leiðum, sem færar eru til þess, en rýrir þá um leið tekjur ríkissjóðs.

Um nefndarstörfin sagði hv. þm., að hann vildi vinna að þeim, ef við hinir vildum ná samkomulagi við sig, ég og hv. 4. landsk., annars væri það bara tímaeyðsla. En það þarf alltaf tvo aðilja til þess að ná samkomulagi, og hv. þm. hefði alveg eins getað snúið því við og sagzt vilja fara í nefndarstörfin, ef hann gæti náð samkomulagi við okkur hina. Málið er algerlega óupplýst, og þó að hv. þm. hafi nokkuð bundið hendur sínar með því að hleypa út þessu svokallaða meirihlutaáliti á þskj. 516, þá ætti hann eftir afstöðu síns flokks að geta litið á málið með sanngirni og horfið frá því að innleiða þessa einkasölu, ef rannsókn leiðir í ljós, að það hafi engin veruleg áhrif á tekjur fyrir ríkissjóð, nema því aðeins, að tóbaksverð hækki. En vilji menn auka tekjur ríkissjóðs með hækkuðu tóbaksverði, þá er miklu brotaminna að gera það með því að hækka tollinn.