16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í C-deild Alþingistíðinda. (1470)

172. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég á víst ekki eftir nema stutta aths. við þessa umr., og ég get líka látið mér það nægja, því að ef málið kemur til 3. umr., gefst tækifæri til að ræða það betur, en komi það ekki til 3. umr., má láta hér staðar numið. Ég vil aðeins segja nokkur orð út af því, sem ég skaut til hv. 3. landsk., hvort vænta mætti nokkurrar samvinnu í n. frá hans hendi, ef það kæmi til n. aftur. Hann svaraði ekki öðru en því, að ég gæti spurt sjálfan mig, hvort ég vildi nokkra samvinnu. En það eitt kalla ég samvinnu, að málinu verði framgengt. Það er engin samvinna, ef ég krefst þess, að hv. 3. landsk. gangi algerlega inn á mitt mál, eða ef hann krefst þess, að ég fallist á hans mál, en hitt stend ég við, að ef hann vill vinna að framgangi málsins með mér, þá er ég við því búinn.

Hann var eitthvað að tala um það, að ég væri óþarflega búinn að binda hendur mínar gagnvart mínum flokki með útgáfu nál. Ég hefi þar í öllu farið eftir minni sannfæringu og ekki spurt flokkinn um það að neinu leyti. Hitt verður að skeika að sköpuðu, hvort það er í samræmi við flokkinn eða ekki.

Ég get svo látið útrætt um þetta mál að sinni. Ég vona, að málið komi til 3. umr. og þá fáum við tækifæri til að ræða betur um það, hv. 3. landsk. og ég.