03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í C-deild Alþingistíðinda. (1484)

198. mál, raforkuvirki

Jón Auðunn Jónsson:

Ég ætla mér ekki að koma fram með mótmæli gegn þessu frv., en vil aðeins gefa frekari upplýsingar um Raflýsingarfélagið, sem ég á einn hlut í, þótt ég hafi ekki sótt fundi félagsins á síðasta ári, eða verið að öðru leyti viðriðinn starfsemi þess.

Í 11 ár var hluthöfunum ekki greiddur neinn arður af fé því, sem þeir höfðu lagt fram, en á síðastl. ári fengu þeir 25%. Orsökin til þessa mun hafa verið sú, að félagsstj. gerði ráð fyrir, að félagið yrði leyst upp, því að bæjarstj. hafði ákveðið að virkja foss og framleiða þannig rafmagn fyrir bæinn. Félagið er hinsvegar mjög illa statt, og ég veit til þess, að hlutabréfin hafa verið seld fyrir 30–50%, enda hygg ég, að það geti tæplega skilað meiru af hlutafé.

Ég skal ekki mæla því bót, að félagið greiddi hluthöfum 25% í arð, en eins og ég gat um, þá var ástæðan sú, að gera mátti ráð fyrir, að það gerði upp og hætti starfsemi sinni, er bærinn hefði komið þessari fossavirkjun í framkvæmd.

Í sjálfu sér er ég ekki á móti því, að ríkisstj. ákveði hámarksverð eftir till. sveitar- eða bæjarstjórna, en vil aðeins taka það fram, að hvergi nema í Hafnarfirði hefir rafmagnsverð, þar sem það er framleitt með mótorafli, verið lægra en á Ísafirði. Í Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, Stokkseyri og Eyrarbakka er það t. d. alstaðar hærra.