03.03.1930
Neðri deild: 42. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í C-deild Alþingistíðinda. (1485)

198. mál, raforkuvirki

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Það var í rauninni alger óþarfi af hv. þm. N.-Ísf. að gefa þessar upplýsingar, sem hann veitti hv. deild, því að ég hafði tekið þetta mestallt fram í minni ræðu. Ég hygg auk þess, að það sé ekki rétt hjá hv. þm., að félagið standi sig illa, því að á síðustu árum hefir félagið keypt inn bréfin og eignir þess hafa aukizt til muna, svo ég hygg, að bréfin standi í mjög sæmilegu verði. (JAJ: Ég skal selja hv. þm. mín bréf fyrir 50%, og það með mikilli ánægju). Ég þakka auðvitað fyrir gott boð, en ég ætla mér ekki að fara að græða á því að okra á rafmagni til almenningsþarfa. Og ég tel Alþingi sæmilegast að girða alveg fyrir það, að einstaklingar geti grætt á slíku. — Að endingu vil ég segja það, að mér hefði þótt eðlilegra, að félagið hefði lagt fé sitt í varasjóð, frekar en að greiða 25% í arð, ef það hefði viljað búa sig undir uppgerð eða er svo illa statt sem hv. þm. hefir viljað gefa í skyn.