12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þegar þetta frv. var lagt hér fram í þingbyrjun, þá gerði ég nokkra grein fyrir því f öllum aðalatriðum. Ég tók það þá fram, að frv. væri þannig byggt, að það mætti gera ráð fyrir, að varlegast væri að hækka ekki tekjuliði þess. Þar af leiðandi mætti heldur ekki, ef frv. ætti að fá æskilega afgreiðslu, hækka gjaldahlið þess. Hinsvegar gat ég þess, að ef um er að ræða að leggja fram fé til annara verklegra framkvæmda en þeirra, sem í frv. getur, þá væri ekkert á móti því; en það yrði þá að lækka tilsvarandi aðra liði gjaldahliðarinnar.

Þegar þetta frv. var samið, í nóv. síðastl., var dálítið í raun og veru nokkuð annað en það er nú. Og ég álít, að það fjárhagslega útlit sé ekki svo bjart framundan, að það sé rétt að tefla á það tæpasta með útgjöld ríkissjóðs. Í nóvembermán. var það ekki komið á daginn, sem síðar kom; fyrst og fremst það, sem ég tók fram við 1. umr., að afkoma þjóðarinnar síðasta ár var ekki eins góð og maður hefði getað búizt við eftir hinu góða árferði. Afkoman var töluvert lakari 1929 heldur en 1928.

Og síðan hefir bætzt við annað, sem gerir útlitið skuggalegra, nefnilega bankamálið, sem nýlega hefir verið afgr. með lögum frá þinginu. Það mál hlýtur — hvernig sem um það fer — að baka ríkissjóði mjög aukin útgjöld. Og það verður að munast, að þau útgjöld koma, jafnvel þótt þau séu ekki í fjárlögum.

Nú þótt það kunni að bera eitthvað á milli í einstökum atriðum við hv. fjvn., þá vil ég þó þakka henni fyrir starf hennar við frv. Mér er það kunnugt, að hv. n. hefir lagt mikið verk í það að fara í gegnum frv. og gera það svo úr garði, að sem bezt mætti verða. Nefndin hefir, sem vænta mátti, gert nokkrar brtt. við frv., og þó verð ég að segja, að brtt. hennar eru óvenjulega fáar, miðað við það, sem verið hefir undanfarið. En flestar ganga þær vitanlega í þá átt að auka útgjöldin. Eins og frv. er nú, er tekjuafgangur áætlaður um 60 þús. króna. Við meðferð n. hefir komið fram sú leiðrétting á frv., sem nemur sem næst þeirri upphæð, sem tekjuafgangurinn var ráðgerður. Það er því sjáanlegt, að ef allar þessar till. til hækkunar verða samþ., kemur fram allmikill tekjuhalli á frv. Því að þar við bætast till. frá einstökum þm., sem nema mikilli upphæð, ef samþ. verða, flestar. Ef allar þessar hækkunartill. verða samþ., er sjáanlegt, að tekjuhalli fjárlaganna verður eftir þessa umræðu um ½ millj. króna. Og ég sé í raun og veru ekki, að það sé forsvaranlegt að auka útgjöldin svo mjög, þar sem ekki er hægt að hækka tekjuliðina til þess, að jafna á móti.

Ég sé ekki ástæðu til að gera margar af einstökum till. að umræðuefni nú sem stendur.

Í þessum fyrri kafla er ekki mikill ágreiningur milli mín og hv. n. um ýmsar þeirra, og sumar alls ekki.

1. brtt. hefir hvorki áhrif til hækkunar eða lækkunar. Um það er aðeins að ræða, hvort þessir liðir, tekjur menningarsjóðs og skemmtanaskattur, eigi heima í fjárlögum. Um þetta ætla ég ekki að metast við nefndina, þótt ég hallist reyndar að því, að þeir eigi að standa utan við fjárlögin.

Þá er e-liður 7. brtt. Ég sé ekki, að sá liður geri neitt gagn eins og hann er hér fram settur. Það er gert að skilyrði fyrir styrkveitingu, að fátækt fólk fái ókeypis lækningu í nuddlækningastofunni ekki sjaldnar en 4 sinnum á mánuði. Ég get í raun og veru ekki hugsað mér, að nokkrum manni sé gagn að því, að hann sé nuddaður 4 sinnum á mánuði, og kæmi þetta því ekki að tilætluðum notum.

Um hækkun á utanfararstyrk héraðslækna er það að segja, að ég sé ekkert sérstakt á móti honum. Sú upphæð hefir alltaf verið smá, og hefir ekki verið nálægt því hægt að fullnægja umsóknum. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að enn fari á sömu leið, að það verði ekki hægt að veita þeim öllum styrk, sem vilja fara.

Þá eru vegagerðir. Í raun og veru sé ég ekki ástæðu til að ræða um hvern veg út af fyrir sig. Breytingar hv. n. á framlögum til einstakra vega eru ákaflega smávægilegar, og get ég vart séð, að þær séu til neinna sérstakra bóta. En mér finnst ástæða til að ræða till. n. um framlag til bryggjugerða í samræmi við vegagerð eða aðrar framkvæmdir yfirleitt. Nú er það svo, að þegar frv. var samið, lá ekki nein umsókn fyrir um styrk til hafnargerða. Þess vegna var sett aðeins lítilfjörleg upphæð í frv. til bryggjugerða, líkt og hefir verið undanfarið. En nú kemur í ljós, að fyrir liggja mjög margar og kröfustórar umsóknir um styrk til bryggjugerða. Ef nú þingið vill sinna þessu, sem ég tel rétt, þá sé ég ekki mögulegt að gera það öðruvísi en með því að draga úr verklegum framkvæmdum annarsstaðar. Það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að þenja gjaldþol ríkissjóðs til verklegra framkvæmda. En ég sé ekkert á móti því, að dregið sé úr á einum stað og aukið við á öðrum. Hinsvegar er ég ekki alveg viss um, að uppástunga n. um fyrirkomulag á framlagi til bryggjugerða sé heppileg. Hún leggur til að veita til allmargra bryggjugerða, en bindur upphæðina að nokkru leyti, þannig að margar bryggjugerðir geta farið fram á sama tíma, en þó ekki orðið lokið yfirleitt fyrr en eftir 3 ár. Nú er gert ráð fyrir, að ríkið styrki að 1/3, en hlutaðeigandi héruð 2/3. Mér finnst réttara að áætla einhverja upphæð til bryggjugerða, sem svo yrði skipt til þeirra kauptúna og héraða, sem sýndu það, að þau hefðu sitt framlag til.

Ef byrjað er á dýrum bryggjum, sem kosta fleiri hundruð þús., þá er engin trygging fyrir því, að framlagið, sem koma á frá hlutaðeigandi héraði, verði til nema í byrjun. Kemst þá kannske aldrei lengra en að hálfna verkið. En sé féð til reiðu handa þeim héruðum, sem sýna það, að þau geta lagt fram á móti, ætti það að ýta undir ötula fjársöfnun.

Nefndin tekur það fram í nál. sínu, að hún er því eindregið mótfallin, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir framlagi héraða til bryggjugerða. Ég er alveg samþykkur n. um þetta og tel, að það ætti að vera stefna þingsins að forða ríkissjóði sem allra mest frá því að ganga í ábyrgðir. Ef nú þessi héruð, sem eiga að leggja stórfé til bryggjugerða og annara framkvæmda, vita það, að þau geta ekki fengið ábyrgð ríkissjóðs, þá tel ég vart hugsanlegt, að þau ráðist í þær framkvæmdir nema með töluvert löngum undirbúningi. Þau þurfa áreiðanlega til þess að útvega sér nægilegt fé á eigin ábyrgð.

Þá vill hv. nefnd hækka tillagið til símalagninga um 25 þús. kr. Ég er þeirrar skoðunar, að þar sem við undanfarin ár höfum gert ákaflega mikið að símalagningu og nú loks ráðizt í það stórvirki að byggja hér í Reykjavík dýra landssímastöð og dýra bæjarsímastöð, þá sé ekki forsvaranlegt að leggja nema lítið í nýjar símalínur. Það er fyrirsjáanlegt, að árið 1930 verða auknar tekjur af símanum mjög litlar, en mjög mikill kostnaður. Þess vegna álít ég vel geta beðið til 1932 að hefjast handa um stærri framkvæmdir í símalagningu úti um landið.

Ég sé ekki ástæðu að svo stöddu til að fara út í brtt. einstakra hv. þm. við þennan kafla fjárlaganna. Ég vildi aðeins mega vænta þess, að hv. deild sýndi gætni því að auka útgjöld á ríkisstj. nú eins og ástatt er. Við megum ekki láta þessi góðu tekjuár undanfarið villa okkur sýn. Því að það er eins víst og að nótt fylgir degi, að það hlýtur að koma afturkippur í þær miklu framkvæmdir og þær miklu tekjur, sem ríkissjóður, hefir haft nú á síðustu árum.