06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í C-deild Alþingistíðinda. (1506)

212. mál, sundhöll í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Ég verð að segja, að ég efa það stórlega, að nægilegt sé að gera þá breytingu, sem frv. á þskj. 212 ráðgerir. Mér skilst, að lögin frá 7. maí 1928 setji það beinlínis að skilyrði fyrir 100 þús. kr. framlagi ríkissjóðs, að sundlaug verði fullger og tekin til afnota eigi síðar en sumarið 1930. Nú vita allir, að sundhöllin verður ekki tilbúin í sumar, og falla því lögin alveg úr gildi, nema meiri breyt. sé gerð en þetta frv. ráðgerir. Þessa aths. vildi ég gera, en það, sem aðallega kom mér til að standa upp, voru þau orð í grg. frv., að „eftir margvíslegar samningaumleitanir við ríkisstj. og tilraunir húsameistara að draga sem mest úr kostnaði, fékkst loks samþykki ráðh. á uppdrætti, sem bæjarstj. samþykkti, og telur kostnaðinn vera 480–500 þús. kr., sem að áliti borgarstjóra er of lágt“. — Eftir þessum orðum að dæma lítur út fyrir, að bæjarstj. hafi átt í höggi við hæstv. dómsmrh. um að draga úr kostnaðinum við byggingu sundhallarinnar, og að hann hafi lagzt á móti því. Þykir mér þetta undarlegt, þar sem sami ráðh. flutti frv. á þinginu 1928 um að byggja sundhöll, er væri meir en helmingi ódýrari en sú, er þetta frv. ræðir um. Vil ég því spyrja hv. flm., hvort þeir álíta þessa afstöðu hæstv. ráðh. hafa verið orsök þess, hversu framkvæmdum hefir seinkað í málinu, og að þær skuli nú fyrst vera að byrja, og hvort þeir álíti það orsök dráttarins, að hæstv. ráðh. vildi ekki staðfesta uppdráttinn né ganga inn á þær till., sem bæjarstj. gerði til þess að draga úr kostnaðinum af byggingu sundhallarinnar.