06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í C-deild Alþingistíðinda. (1507)

212. mál, sundhöll í Reykjavík

Flm. (Jón Ólafsson):

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að það getur orkað tvímælis, hvort dómsmrh. hefir heimild til þess að greiða þessar 100 þús. kr., eftir orðalagi laganna frá 1928. En ég held þó, að hann muni gera það, svo framarlega sem verkið er hafið á þessu ári, því að þó að verkið eigi að vera fullgert í júlí í sumar, þá getur það varla talizt svo afgerandi atriði, að ríkið sjái sér ekki fært að veita fé til verksins fyrir þá sök eina.

Mér skildist á hv. 1. þm. Skagf., að hann vildi fá að vita. hvað farið hefði á milli bæjarstj. og hæstv. dómsmrh. út af þessu máli. Ég er nú ekki svo nákunnugur því, að ég geti skýrt frá því, enda skiptir það litlu máli. En hitt veit ég, að ávallt hefir þótt eitthvað vanta í áætlanir húsameistara ríkisins, og þótt ýmist of háar eða of lágar. Ennfremur hefir hæstv. ráðh. haldið því stöðugt fram, að í sundhöllinni þyrfti að vera sjólaug, og neitað að samþykkja uppdráttinn að öðrum kosti.

Upphaflega var ætlazt til, að laugarnar yrðu 3, ein fyrir íþróttamenn, önnur til kennslu, en sú þriðja átti að vera sjólaug. En þegar betur var aðgætt, kom það í ljós, að það myndi verða svo dýrt, að það færi langt fram úr áætlun. Þetta var líka gert í sambandi við það, að bærinn kæmi upp sundlaug til þess að kenna börnum úr barnaskólanum. Um þessa laug til kennslu náðist ekki samkomulag við hæstv. dómsmrh., og var því horfið að því, í sambandi við íþróttamenn, að hafa aðeins eina sundlaug og svo 8x10 m. sjólaug. Að öðru leyti en þessu veit ég ekki til, að hafi verið nokkurt ósamkomulag milli hæstv. ráðh. og bæjarstj. Reykjavíkur. Að vísu var það með ákveðnum skilyrðum, að hæstv. dómsmrh. veitti samþykki sitt til, að sjólaugin skyldi tekin með. Það má vel vera, að bæjarfulltrúar Reykjavíkur, eða sá bæjarfulltrúi, sem líka er þm. Reykv. og flytur þetta frv. með mér, geti lýst því betur, hvort ósamkomulagið milli bæjarstj. og hæstv. dómsmrh. hafi verið nokkuð annað en það, sem ég nú hefi skýrt frá. Mun á báða bóga hafa verið tog nokkurt um þessi atriði: Var þó að síðustu, í öllum aðalatriðum, farið eftir till. hæstv. dómsmrh. í þessum efnum.

Held ég svo, að það hafi ekki verið fleira, sem hv. 1. þm. Skagf. spurði um.