06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í C-deild Alþingistíðinda. (1512)

212. mál, sundhöll í Reykjavík

Flm. (Jón Ólafsson):

Ég hefi ekki margt að segja, því hv. 1. þm. Skagf. tók það fram, sem ég vildi sagt hafa.

Ég get ekki annað skilið en þetta mál eigi heima hjá fjvn., því hún hefir næstum því lokið störfum sínum. Ég er hræddur um, að jafnmiklum iðjumanni og hv. þm. Borgf. myndi bregða við, ef hann hefði ekkert að starfa. Mér finnst það því reglulegt gustukaverk að láta hann hafa eitthvað að starfa.

Þetta frv., sem hv. þm. var að tala um, hefði mátt afgreiða einhverntíma milli funda. Það, að frv. hefir ekki verið afgr., er ekki beinlínis því að kenna, að nefndin hafi ekki haft tíma til þess, heldur vegna þess, að n. þótti ekki nauðsyn að afgreiða það fyrr en hún gæti tekið það til rækilegrar athugunar. Að vísu var þrem mönnum úr n. falið þetta verk, en þar sem þess var krafizt, að koma fjárl. frá sem fyrst, þótti þeim engin nauðsyn að eyða tíma í að taka ákvörðun um þetta frv. Það ætti ekki að þurfa að daga uppi þess vegna.

Ég skal ekki þrátta við hv. þm. Borgf. Mig langar sízt af öllu til að fá mál í fjvn., en þetta mál finnst mér algerlega eiga þar heima. N. verður að athuga og gera till. um, hversu mikið og hvernig skuli veita þessa upphæð, sem hér er farið fram á.