06.03.1930
Neðri deild: 45. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í C-deild Alþingistíðinda. (1513)

212. mál, sundhöll í Reykjavík

Pétur Ottesen:

Mér finnst leitað nokkuð langt eftir ástæðu til þess að vísa þessu máli til fjvn., ef það á að vera í gustukaskyni við einstaka nefndarmenn. Sýnir það vel, við hvaða rök þessi till. styðst, þegar grípa verður til slíks neyðarúrræðis sem þessa.

Fjvn. hefir frá upphafi haft tvo fundi á hverjum degi, 1½–2 tíma árdegis og alltaf 2–3 tíma á kvöldin. Nefndarmennirnir hafa jafnframt sinnt þingstörfum, og verður því varla ætlazt til meiri nefndarstarfa af þeim. Og ég ætla að biðja hv. þm. (JÓl) að taka eftir því (JÓl: Eftir hverju?), að ef hann er að gera gustukaverk á mér sérstaklega, getur það ekki byggzt á öðru en því, að hann líti svo á, að ég sé hlédrægur við að vinna nauðsynleg störf í nefndinni. Hv. þm. geta þar haft þá skoðun, sem þeim sýnist.