24.03.1930
Neðri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. hefir beint til mín nokkrum orðum. Að því leyti, sem hann minntist á áfengisverzlunina, mun ég draga lítið eitt að svara því, en koma að næsta lið, um hvað liði opnun landsspítalans. Stj. hefir látið vinna í honum alveg sleitulaust. Nú í vetur er verið að mála húsið innan og þar næst á að dúkleggja í vor. Verkinu er hagað með það fyrir augum, að standa við loforð, sem Vestur-Íslendingum var gefið með ráði hátíðarnefndarinnar, að a. m. k. annar flokkur þeirra búi þar, meðan þeir dvelja hér í vor. Verkið gengur því eins greiðlega og hægt er, bæði vegna spítalans sjálfs og til þess að bæta úr húsnæðiseklunni um hátíðina. Jafnframt hefir nefnd manna setið að störfum við undirbúning starfrækslu spítalans. Það eru þeir þrír læknar, sem þar eiga að starfa, landlæknir og ein hjúkrunarkona. Nefndin hefir haldið fundi vikulega, þegar nefndarmenn hafa verið hér í bænum. Þeir þrír læknar, sem gert er ráð fyrir að vinni við spítalann, þeir Guðmundur Thoroddsen, Jón Hjaltalín Sigurðsson og Gunnlaugur Claessen, hafa allir nú nýverið farið utan til þess að búa sig undir væntanlega starfrækslu spítalans. Einn af þeim, Gunnlaugur Claessen, er nýkominn úr utanför sinni. Jón Hjaltalín hefir dvalið í Vínarborg í vetur og kemur ekki heim fyrr en með vorinu.

Ég hygg þá, að ekki sé að neinu sérstöku að spyrja um spítalann, og ekki heldur neinu sérstöku að svara frekar en þessu. Enn er ekki hægt að segja, hvort spítalinn geti tekið til starfa í haust eða ekki fyrr en um nýár eða seinna. Það fer eingöngu eftir kringumstæðum. Í raun og veru er ekkert við því að segja, því að það væri heimskulegt að flýta sér svo með að byrja starfrækslu, að það yrði spítalanum til skaða seinna meir, að hrapað hefði verið að einhverju í því máli.

Hv. þm. (HV), og ég held fleiri hv. þm., minntist á, að í fjárlögum hefði ekki verið áætluð nein upphæð til rekstrar spítalans. Þá er því til að svara, að þegar landið hefir lagt svo mikið fé til að reisa spítalann, verður það að starfrækja hann. En það er ekki alveg ákveðið og verður sjálfsagt ekki fyrr en Alþingi sker úr því á sínum tíma, hvort eða að hve miklu leyti spítalinn eigi að verða tekjuhallastofnun.

Um tvennt er að velja. Annað er að selja dagsvistina undir kostnaðarverði. Einstöku læknar hallast að því. En svo eru aðrir menn, sem segja: Það er nógu mikill velgerningur að byggja þetta vandaða hús og fá góða lækna handa sjúklingunum, ásamt góðum aðbúnaði, þó að það verði ekki gert landinu til skaða að nauðsynjalausu. Það er þess vegna möguleiki fyrir því, að spítalinn verði að miklu leyti sjálfstæð stofnun. Það er því fremur hægt, sem til eru dálitlir sjóðir, sem létta undir. Alþingi ræður því á sínum tíma, hvort vísvitandi á að stefna að því, að hafa svo ódýrt í landsspítalanum, að tekjuhalli verði, eða að því, að spítalinn beri sig.

Hv. þm. (HV) minntist á dagbók Þórs, og að ég hygg má líta á þau ummæli í sambandi við grein eftir sama hv. þm. fyrir nokkrum dögum út af rannsókn á togaramáli, þar sem lögð var fram kæra á hendur skipstjóranum á Belgaum um landhelgisbrot. Skipstjórinn á Þór hafði fyrir alllöngu, í tíð íhaldsstjórnarinnar, haft þennan togara fyrir líkum sökum, án þess að kært væri eða málið lagt í dóm, en nú var skipstjórinn á Belgaum dæmdur fyrir nýtt landhelgisbrot. Ég vil af ýmsum ástæðum ekki fara langt út í það mál nú. Aðeins vildi ég taka fram, að skipstjóri Óðins, sem þá var skipstjóri á Þór, er þetta, sem ég nefndi, gerðist, hitti mig í morgun út af þessu máli, og það varð að samkomulagi með okkur, eftir hans ósk, að lögreglustjóri skyldi kalla hann fyrir rétt, til þess að hann gæti upplýst þar, hvernig hann lítur á þetta atvik frá 1924. Ég hefi svo eftir beiðni skipstjórans mælzt til þess við lögreglustjóra. að hann framkvæmi þetta réttarhald. Ég skildi skipstjórann þannig, að það væri nauðsyn að athuga skipsbókina frá Þór í sambandi við þetta mál. Það mun vera áhugamál bæði skipstjórnarmanna, sem þá voru á Þór, og landsstjórnarinnar, að sannindin komi fram í þessu máli og ekkert annað.

Annað atriði, sem beint var til mín, var hvers vegna ég hafi leyft nokkrum fjölskyldum að búa í því auða rúmi, sem til var í spítalanum í Laugarnesi. Hv. þm. (HV) áleit margt við þetta að athuga. Ég tók eftir, að honum var ekki ókunnugt um, að þetta mál mundi eiga sína forsögu. Þegar spítalinn var reistur, var tveimur starfsmönnum ætlaður bústaður þar, lækni og ráðsmanni. Auk aðalinngangs, sem sjúklingar ganga alltaf um, eru tveir hliðarinngangar, sem ætlaðir voru þessum starfsmönnum, og þannig var hægt að ganga inn til þeirra án þess að koma í nokkra snertihættu við sjúklingana.

Nú fór það svo, að spítalalæknirinn, Sæm. Bjarnhéðinsson, hætti að búa þarna, og fluttist í bæinn og hefir íbúð hans staðið auð, þar til í vor sem leið. Þegar sjúklingunum fækkaði, þótti ekki taka því að hafa sérstakan ráðsmannsbústað, sem líka stæði auður, því að svo er nú guði fyrir að þakka, að þessi sjúkdómur, holdsveikin, er í rénun, svo að í vor þurfa sjúklingarnir ekki á að halda nema hálfum spítalanum.

Hvað því viðvíkur, að það sé hættulegt fyrir aðra menn að umgangast þessa sjúklinga, þá er það að vísu rétt, en á hitt má benda, að það hefir aldrei komið fyrir í sögu spítalans, að neinn af starfsmönnum hans hafi sýkzt, hvorki læknir spítalans, ráðsmaður hans eða hjúkrunarkonur hafa orðið fyrir smitun af þessum sjúkdómi.

Þetta stafar af því, hversu sá sjúkdómur, sem hér er um að ræða, holdsveikin, er treglega smitandi, sem betur fer. Ég hygg, að fyrsti áreksturinn af þessu hafi orðið, þegar það kom til orða, að séra Haraldur Níelsson, sem var prestur þessa spítala, skyldi flytja í ráðsmannsíbúðina. Þá var það spítalalæknirinn, sem var á móti þessu, en skoðanirnar skiptar meðal lækna í Reykjavík, en þó ekki skiptari en svo, að meiri hluti læknanna áleit þetta ekki neina fjarstæðu og hugsaði sem svo, að fyrst ráðsmaðurinn hefði búið þarna sér að skaðlausu, þá gæti presturinn það einnig.

Ég held, að það hafi verið í skjóli þessa álits læknanna í Reykjavík, að Jón Magnússon leyfði séra Haraldi að búa þarna.

Eftir að séra Haraldur dó, leyfði ég ekkju hans að búa þarna áfram, sem auðvitað var ekki nema sjálfsögð samúð við hana og hennar ágæta dána mann.

Það var jafnvel farið að verða að umtalsefni meðal lækna hér í þessum bæ, hvernig fara ætti með spítalann í því millibilsástandi, sem hann var í, þar sem hann væri að tæmast af sjúklingum.

Voru um þetta margar ráðagerðir, og vildu sumir setja þarna á stofn gamalmennahæli og hafa þó sjúklinga á neðstu hæð hússins, og í því sambandi var talað um berklasjúklinga.

Þetta tal komst svo að, þegar Bayer, formaður Oddfellowreglunnar í Danmörku, kom hingað fyrir nokkrum árum; varð það að samkomulagi milli hans og landlæknis, að hinum dönsku gefendum væri það ekkert á móti skapi þó þetta auða pláss væri notað.

Landlæknir var á því að nota þetta auða pláss. Þó komst aldrei neinn skriður á málið af því að stjórnin tók í taum með spítalalækninum á móti hinni sterku „opinion“ margra hinna helztu lækna bæjarins, sem auk landlæknis ofbauð, að þetta stóra hús væri látið grotna niður tómt, að ríkið skyldi bera rekstrarkostnað af þessum spítala, sem lá undir skemmdum af brúkunarleysi.

Þegar ég tók við umsjón heilbrigðismálanna og fór að kynna mér þetta hús, duldist mér ekki, að það lá undir skemmdum. Ég kom inn í íbúð læknisins. Þar rigndi inn um gluggana, regnvatnið rann um gólfið og feygði það, mörg herbergin stóðu auð, eða svo ég dragi þetta saman í sem fæst orð, þó að reynt væri að halda þessu húsi við upp á ríkisins kostnað, var það í sömu hættu og auð hús alltaf eru. Ég hallaðist að skoðun landlæknis og ýmsra hinna merkari lækna þessa bæjar, að ekki væri rétt að láta húsið standa autt, þó ég hinsvegar ekki efaðist um það, að spítalalækninum gengi ekki nema gott til, og að baráttá hans í þessum efnum væri meira af kappi en forsjá, eins og t. d. hefði komið fram í því, að hann vildi ekki leyfa séra Haraldi að búa þarna áfram og annað svipað. Ég fól Sveini Björnssyni sendiherra að leitast fyrir hjá Oddfellowum í Danmörku um það, hvað þeir segi um, að húsið sé notað að einhverju leyti. Bayer var nú dauður, og ég veit ekki hvað hinn núverandi yfirmaður heitir, en niðurstaðan varð sú, að Oddfellowar myndu sætta sig við hverja þá bráðabirgðanotkun á þessu húsi, sem heilbrigðisstjórnin íslenzka vildi fallast á.

Nú var sú breyting á orðin síðan hv. þm. Dal. fór með þessi mál, að heilbrigðisstjórnin var orðin sammála um að nota þetta hús til einhvers. Fyrir ríkið var það vitaskuld hendi næst að nota það til berklavarna, en samt var það svo, að þó að tekið væri þarna heilt loft og notað í þessar þarfir, þá skipti það ekki miklu fjárhagslega, og ég hallaðist að því, að slá þessu á frest og sjá hverju fram færi.

En meðan mikill hluti af þessu húsi stóð tómur, fannst mér rétt að nota hann að einhverju leyti til að bæta úr mannlegum þörfum, og helzt þá þörfum þeirra manna, sem ríkinu bæri óbein skylda til að sjá fyrir, manna, sem svo að segja voru úti á götunni. Fyrsti maðurinn, sem ég varð að liðsinna í þessum efnum, var Guðmundur Bárðarson náttúrufræðingur; hann tilkynnti mér, að eins og launum sínum væri háttað gæti hann ekki búið hér í Reykjavík, því þegar hann væri búinn að greiða húsaleiguna, hefði hann ekki nema 200 kr. til að framfleyta fjölskyldu sinni, 7–8 manns. Ef hann fengi ekki á einhvern hátt bætt úr tekjum sínum, sagðist Guðmundur verða að fara frá skólanum.

Guðmundur Bárðarson er einn af aðalnáttúrufræðingum landsins, sem nú starfa, og þar sem hörgull er á náttúrufræðingum og hann var eini náttúrufræðingurinn við skólann og ekki var sýnilegt þá, að hægt væri að bæta úr því, ef hann færi, og mér var ljóst, að tilgangslaust var að fara að bera fram tillögu um launahækkun til eins kennara Menntaskólans sérstaklega, þar sem allir hinir myndu koma á eftir, og þar sem ennfremur taka varð tillit til þess, að þeir af kennurum skólans, sem eiga hús og eru sér úti um aukatekjur, standa sig nokkurn veginn í lífsbaráttunni. En þessi maður var vísindamaður, nýfluttur í bæinn, og gat ekki og mátti heldur ekki offra neinu af tíma sínum til að afla sér aukatekna. — Af öllu þessu sýndist mér ég geta ráðið fram úr þannig, að taka í senn tillit til fræðigreinarinnar, sem hann stundar, og hags skólans, sem hann vann að, með því að leyfa honum að búa í læknisbústaðnum. Og málalokin urðu þau; að hann flutti þangað inn og kostaði sjálfur þá viðgerð, sem þar varð nauðsynlega fram að fara, vegna tómlætis undangenginna ára. — Ásmundur Sveinsson og Jón Þorleifsson listamenn fengu einnig leyfi til að búa þarna á næsta lofti, ásamt tveimur mönnum úr tveim deildum stjórnarráðsins, fjármála- og atvinnumálaráðuneytinu. Til þess að gera þarna viðunandi mönnum til íbúðar, varð að gera þarna skilrúm á einum gangi, veggfóðra stofurnar, mála loftin, og hefi ég gert ráðstafanir til þess, að þessir menn svari rentum af þeim útgjöldum: sem landinu voru sköpuð með þessu. — Til þess að þingmenn sjái betur og skilji, hvað hér hefir gerzt, vil ég endurtaka það, að eftir að heilbrigðisstjórnin hafði fengið leyfi hinna dönsku gefenda til að nota húsið til þess, er hún taldi rétt, var að því ráði hnigið að veita þarna mönnum húsnæði, sem óbeinlínis voru ríkinu á hendur bundnir. Vitanlega var ekki hægt að fullnægja þörfum 5.000 manna með þessum fáu herbergjum, og af nokkru handahófi var hvar þau komu niður, en svo mikið get ég sagt, að þeir, sem þarna nutu góðs af, voru fátækir menn og áttu það fullkomlega skilið; og það er kannske ekki úr vegi að benda sumum þingmönnum á það, að við þessar ráðstafanir urðu þær þó 2–3 færri fjölskyldurnar, sem húsnæðislausar eru í bænum.

Ég gat um það áðan, að einn af þeim mönnum, sem fengið hefir þarna inni, hafi verið í atvinnumálaráðuneytinu. Það stóð svo á um þennan mann, að honum var kastað út 1. okt. síðastl., og varð hann þá að grípa til þess að búa í einu herbergi með fjölskyldu sína, þar sem hann var lágt launaður og gat enga íbúð fengið.

Mér fannst, ef hægt væri, að stjórnin ætti að hjálpa þessum starfsmanni sínum, og það varð úr, að ég leyfði honum að flytja inn í síðasta möguleikann, sem þarna var. Um hinn starfsmanninn úr stjórnarráðinu, sem þarna fékk inni, er það að segja, að ég hygg, að fólk hans hafi ekki séð glaðan dag fyrir það, hve illa fór um það í hinum þröngu húsakynnum.

Þannig horfir málið við, en ég þykist vita, að hv. 2. þm. Reykv. sé því ekki kunnugur nema af einhliða frásögn spítalalæknisins.

Þessi bráðabirgðanotkun hússins er með fullum vilja hinna dönsku gefenda og samþykki landlæknis, og það var mjög villandi hjá hv. 2. þm. Reykv., er hann sagði, að þetta fólk væri hvað innan um annað, því það eru skilrúm á milli. Enda er það vitanlega í „interessu“ leigjendanna að hafa engin mök við sjúklingana. (HV: Það gengur allt þarna sjálfala). Það leiðir af sjálfu sér, að mæður, sem eiga þarna börn sín, gæta þess vendilega, að þau séu ekki innan um sjúklingana. Og sjálfur þekki ég þarna svo vel til, að ég veit, að sjúklingarnir gæta allrar varkárni um samgang við aðra menn, auk þess sem hjúkrunarfólkið hefir eftirlit um þessa hluti. —

Annars hygg ég nú, að það samkomulag, sem hefir orðið um notkun þessa spítala, verði ekki nema til bráðabirgða. Það er beint tekið fram í gjafabréfi Oddfellow, að þegar holdsveikin sé útdauð hér á Íslandi, kveði þeir sjálfir á um að nýju, til hvers nota skuli húsið. Það má vel vera, að hv. 2. þm. Reykv. verði þá búinn að hafa sætaskipti við mig og geti þá beitt áhrifum sínum í þá átt, að húsið verði aftur látið standa autt og engum til gagns.

Hv. 2. þm. Reykv. lagði aðaláherzlu á þann sýkingarmöguleika, sem hér væri skapaður. Nú er það samt svo, að beztu læknar álitu, að sýkingarhættan væri ekki meiri en svo, að óhætt væri að nota húsið fyrir annað fólk, enda hefir sýking aldrei viljað þarna til fram á þennan dag.

Það er að vísu hægt að hugsa sér, að sýking geti átt sér þarna stað, en sá möguleiki er ekki meiri en væri fyrir því, að fugl yrði fyrir kúlu manns, sem legðist aftur á bak, lokaði augunum og skyti svo eitthvað út í loftið. Það gæti orðið fugl fyrir skotinu, en sá möguleiki er sáralítill.