24.03.1930
Neðri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, fjárlög 1931

Pétur Ottesen:

Ég ætla að byrja á hv. 2. þm. Reykv. Þegar hann kom fram á vígvöllinn tók hann til að sletta úr klaufunum, og sletti þá vitanlega beint til sjálfstæðismanna, sem hann að vísu gat ekki nefnt réttu nafni, og er það ekkert tiltökumál um slíkan mann sem 2. þm. Reykv. er. Hv. þm. var að bera sjálfstæðismönnum á brýn aðgerðarleysi í landbúnaðarmálum, og taldi stj. þeirra hafa orðið þeim atvinnuvegi til niðurdreps. Ef ég vildi eyða tíma til þess, gæti ég fært rök fyrir því, að það eru einmitt sjálfstæðismenn, er hafa beinlínis staðið fyrir og átt upptökin að öllum þeim málum, sem til viðreisnar horfa landbúnaðinum, eða þá stutt framgang þeirra mála með ráðum og dáð, ef aðrir hafa borið þau fram. Vísa ég því þessum slettum heim til föðurhúsanna. Þau eru órökstudd og ósönn og þm. til skammar.

Hv. 2. þm. Reykv. lét mikið yfir því, hve sósíalistar hefðu stutt að framförum landbúnaðarins. En það sýnir einna bezt heilindi þeirra í þessum málum, að nú lýsir hv. 2. þm. Reykv. því yfir, að Alþingi gangi of langt í stuðningi sínum við bændurna.

Einmitt nú, þegar fyrstu ávextirnir eru að koma í ljós af þeim ráðstöfunum, sem Alþingi hefir gert á undanförnum árum, þá vill 2. þm. Reykv. kippa að sér hendinni og hætta við hálfnað verk.

Hv. 2. þm. Reykv. gat ekki á sér setið að koma hér fram með aðdróttanir í garð skipherrans á Óðni út af dagbókum Þórs, er þessi maður var með hann, og Þór var eftirlits og björgunarskip þeirra Vestmannaeyinganna. Hefir hv. þm. þegar skrifað æsandi blaðagreinar um þetta mál, en það er nú svo, að ekkert annað liggur fyrir í því en þessi skrif þessa hv. þm., sem til þessa hefir ekki reynzt neitt áhyggilegur í frásögnum um þessi mál. Skal ég ekki fara neitt frekar út í þetta mál að þessu sinni, þar sem það er upplýst, að málið hefir verið tekið fyrir á réttum vettvangi. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að minna hv. þm. á, að hann hefir áður borið fram svipaðar aðdróttanir hér í þinginu, án þess að færa sönnur fyrir. En þegar á hann var skorað að gera það, stóð hann eftir sem stimplaður ósannindamaður, eftir að hafa orðið ber að því að fara með staðlausa stafi. Verður hv. þm. því að láta sér það lynda, þó að ekki sé lagt mikið upp úr frásögn hans.

Það kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv., sem endranær, þegar sósíalistar eru í eldhúsinu, að ekki er mikil alvara bak við þau skeyti, sem þeir senda að stj. Aðalatriðið fyrir sósíalistum er að reyna að ná til sjálfstæðismanna, og til þess að hugnast stj., láta þeir líta svo út, sem eitthvert bil sé á milli þeirra og hins stuðningsflokks stj., framsóknarflokksins. Þetta nart sósíalista í stj. er til málamynda og ekkert annað.

Heilindi sósíalista komu annars bezt fram í bankamálinu. Þeim var ekki lítil alvara í því að vilja nú endanlega loka bankanum. En svo þegar það verður ofan á, að loksins fæst samkomulag um það, að bankinn verði opnaður aftur, þá var ekki lengi að detta botninn úr sókn þeirra. Alvara þeirra var fljót að hverfa, eins og dögg fyrir sólu. Og af hverju? Það var af því, að þeir áttu von á að fá eitt bankastjóraembættið þar. (HV: Verður Íslandsbanki opnaður aftur?) Já, það á sannarlega að gera það, og ég hygg, að hv. þm. viti vel um hvaða dyr hann á að ganga inn í bankann. (HV: Og eftir hvaða l.?) Ég ætla ekki að fara að skýra þetta fyrir hv. þm. Hann getur sótt frekari skýringar á þessu til flokksbróður síns, sem sagt er að eigi að verða bankastjóri í þessari endurreistu peningastofnun.

Ég vil þá snúa mér að hæstv. forsrh. aftur. Hæstv. ráðh. byrjaði á því, þegar hann fór að svara hv. 1. þm. Reykv., að fara nokkrum almennum orðum um eldhúsdaga og þýðingu þeirra, og hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri allt saman þýðingarlaust, þeir þyrftu ekki annað en leggja fram nokkra Morgunblaðsdálka og undirstrika með rauðu það, sem þeir vildu leggja áherzlu á, því að þeir hefðu ekkert annað að flytja en það, sem komið væri fram í blöðunum. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt, en ég vil benda hæstv. forsrh. á, hvernig það var þegar hann var að fara í eldhúsið í tíð fyrrv. stj. Hæstv. ráðh. hafði þá ekkert annað að segja en það, sem hann áður hafði skrifað um í dálkum Tímans, og hvers vegna var þá hæstv. ráðh. að spreyta sig á að halda eldhúsdagsræður? Hvers vegna þá ekki að taka Tímadálkana og undirstrika með rauðu það, sem þurfti að vekja athygli á? En það er nú svo undarlegt með hæstv. forsrh., að það, sem hann ávítar aðra fyrir að gera, það lætur hann sér ekki fyrir brjósti brenna að gera sjálfur.

Þegar hæstv. forsrh. var að svara hv. 1. þm. Skagf. hér í fyrradag, þá byrjaði hann á því, að standa upp og þakka, og hann þakkaði mjög innilega, og til að leggja enn frekari áherzlu á þakklæti sitt, þá hneigði hann sig mjög djúpt, eða álíka og maður getur hugsað sér að hann hafi gert fyrir konginum, þegar hans hátign var að hengja krossana á hann. Hæstv. ráðh. sagðist hafa þakkað í hitteðfyrra, hafa þakkað í fyrra og vera fullur af þakklæti nú. Það er nú gott að athuga, hvað það var í ræðu hv. 1. þm. Skagf., sem hæstv. forsrh. var svo fullur af þakklæti fyrir, og skal ég þá nefna fjóra eða fimm pósta. Í fyrsta lagi hafði hv. 1. þm. Skagf. sagt það um hæstv. forsrh., að hann hefði, áður en hann varð ráðh., barizt mjög hraustlega á móti krossum og krossafarganinu, sem hann þá kallaði það, og hefði þá borið fram frv. þess efnis að leggja skatt á krossa. Nú benti hv. 1. þm. Skagf. á, að sú breyt. hefði orðið, að hæstv. forsrh. væri orðinn einn af mestu krossberum þessa lands, og myndi alveg horfinn frá því að bera fram till. um að leggja skatt á krossa. Hæstv. forsrh. þakkaði mjög innvirðulega fyrir það, að bent var á þennan snúning hjá honum sjálfum. Í öðru lagi þakkaði hæstv. ráðh. hv 1. þm. Skagf. fyrir það, þegar hv. þm. benti á, hver afstaða hæstv. ráðh. hefði verið gagnvart sendimönnum íslenzka ríkisins í öðrum löndum. Hafði þá talið það allt óþarft, og meira að segja borið fram till. um það á þinginu 1924, að leggja niður sendiherrastarfið í Khöfn. Ennfremur hafði hæstv. ráðh. þá haft þau orð um sendimann íslenzka ríkisins í Miðjarðarhafslöndunum að nefna hann Spánarlegátann. En það bar nú svo til, skömmu eftir að hæstv. ráðh. kom í sinn ráðherrasess, að þetta embætti losnaði, og var hæstv. ráðh. þá mjög fljótur til að skipa í þessa stöðu, og yfirleitt hefir hann, síðan hann varð ráðh., lagt í mjög ríkum mæli blessun sína yfir báða þessa legáta.

Í þriðja lagi benti hv. 1. þm. Skagf. hæstv. ráðh. á það, að hann hefði áður fyrr vítt þáv. stj. mjög fyrir það, að hún hefði ekki látið. stjfrv. koma svo snemma, að þm. hefðu átt þess kost að kynna sér þau, áður þing kæmi saman. Nú benti hv. 1. þm. Skagf. á það, að síðan hæstv. forsrh. kom í stjórnarsess, hefði stjfrv. verið að koma yfir allt þingið, smátt og smátt, og sumum þeirra ekki verið útbýtt fyrr en rétt í þinglokin.

Í fjórða lagi var hæstv. ráðh. bent á það, að hann hefði mjög skammað fyrrv. stj. fyrir það, að byggja till. sínar í fjárl. á tekjuliðum, sem áttu að falla úr gildi á því ári, sem fjárlagafrv. átti að koma í gildi á, og sem þá vitanlega var byggt á því, að samþ. yrði á sama þingi framlenging þessara tekjustofna. Nú er það auðvitað og alkunna, að hæstv. forsrh. hefir dyggilega fetað í sömu sporin, og síðast á þessu þingi.

Í fimmta lagi benti hv. 1. þm. Skagf. hæstv. forsrh. á það, að allar horfur væru á því, að fjáraukalögin miklu frá 1921 ætluðu að hverfa í skuggann af þeim miklu umframgreiðslum, sem yrði á árunum 1928 og 1929. Hæstv. forsrh. var í þessu sambandi að tala um tvo liði, sem hefðu valdið mikilli hækkun á útgjaldahliðinni, það væru berklavarnalögin og jarðræktarlögin. Byggði hann það víst á útreikningum, sem hv. þm. V.-Hún. snaraði þá að honum í þeim svifum. En hæstv. forsrh. ætti að minnast þess, að þegar hann var að skrifa um fjáraukalögin 1920–'21, þá tók hann ekkert tillit til þess, að þá hafði ekki verið athugað um dýrtíðaruppbót af launum starfsmanna ríkisins, og ennfremur varð almenn verðhækkun. Þessu gekk hæstv. forsrh. alveg framhjá og sagði, að þetta væri allt hv. 1. þm. Skagf. að kenna.

Ég vildi nú draga þetta mál fram, til þess að sýna það svo, að ekki yrði á móti mælt, að hæstv. forsrh. hefir í öllum þessum málum, sem ég hefi á minnzt, algerlega farið í gegnum sjálfan sig, m. ö. o., hann hefir framkvæmt og gert það, sem hann hefir átalið aðra fyrir að gera, og það er svo sem ekki að furða, þó að hæstv. ráðh. sé fullur af þakklæti og hneigi sig og beygi, þegar honum er bent á þetta. En fyrst hæstv. forsrh. er nú svo fullur af þakklæti, þá ætla ég að benda honum á nokkra fleiri liði, þá, sem leggja nokkuð inn fyrir þakklæti frá honum.

Ég ætla þá fyrst að minna hæstv. ráðh. á það, að á fyrsta þinginu, sem hann átti sæti á, ég held að það hafi verið þingið 1924, bar hann fram nokkur frv., um að leggja niður nokkur embætti. Ég minnist ekki þess, að síðan hann varð forsrh. hafi hann borið fram nokkur slík frv. En þetta var náttúrlega í sparnaðarskyni gert.

Þá skal ég ennfremur minna hæstv. forsrh. á það, að á því sama þingi kom fram frv. um að lengja vinnutíma skrifstofumanna ríkisins. Það var þáv. 2. þm. Húnv., Þórarinn á Hjaltabakka, sem bar þetta fram. Þá var vinnutími frá 10–4, en eftir frv. átti hann að verða frá 9–6. Ég minnist þess, að hæstv. forsrh. tók mjög undir þetta og gerðist ötull stuðningsmaður þessa frv., og þegar svo kom fram rökst. dagskrá frá allshn. d., mig minnir að frsm. hennar væri þá hv. núv. 1. þm. Árn., um að vísa þessu máli til stj., þá er mér það minnisstætt, að hæstv. forsrh. ætlaði alveg af göflunum að ganga (ÓTh: Það er þó ekki venjulegt). Þá sagði hæstv. forsrh., að þetta væri rödd úr sveitum landsins gegn skrifstofubákninu, og það væri óskiljanlegt, hvernig allshn. hefði snúizt við þeirri rödd og dregið úr þeim þunga, sem feldist í þessu frv. Ennfremur sagði hæstv. ráðh., að það væri einkennilegt, að ýmsir starfsmenn fengju margföld laun, þannig fengju sumir skrifstofumenn ríkisins sérstök laun fyrir að halda reikninga fyrir sjóði, sem fyrir skömmu hefðu heyrt undir þeirra embætti. Svoleiðis leit hæstv. ráðh. á þetta mál þá. Nú er hæstv. forsrh. bráðum búinn að vera þrjú ár í stj. landsins og hefir verið æðsti yfirm. þessarar skrifstofu. Það er þess vegna ekki ófyrirsynju, þótt spurt sé, hvað hafi verið gert til þess að hlýðnast þessari rödd utan úr sveitum landsins.

En hefir nú hæstv. ráðh. lengt vinnutímann á skrifstofum ríkisins? Hefir hæstv. ráðh. hætt að greiða aukaborgun fyrir sérstök störf? Ég held, að ummæli þau, sem ég las upp eftir hæstv. ráðh. á þinginu 1924, gefi fullkomið tilefni til, að svona sé spurt, en þó er það nú svo, að þó ég varpi fram þessari spurningu, þá veit ég það fullvel, að allt er í þessu máli eins og það var áður, að skrifstofutíminn hefir ekki verið lengdur, og það hefir ekki verið hætt að borga mönnum á skrifstofum stjórnarráðsins fyrir sérstök verk. En eftir því, er ég veit bezt til, hefir hæstv. forsrh. gengið töluvert lengra á þessari braut en áður var. Ég skal í þessu sambandi benda á það, að í landsreikningnum fyrir árið 1928 stendur aths. um það, að einum manni hafi, auk sinna launa, verið borgaðar 250 kr. á mánuði, fyrir störf, bæði í þágu hæstv. forsrh. og dómsmrh. Ég býst auk þess við, að það muni finnast þar nokkur fleiri dæmi, og í því efni má henda á það, sem líka kemur fram í aths. við landsreikninginn fyrir árið 1928, að á því ári hafi verið borgað fyrir aukavinnu í stjórnarráðinu upp undir 28 þús. kr. Ennfremur má benda á það, að einum starfsmanni stjórnarráðsins hefir að minnsta kosti verið skotið inn í stjórn Slysatryggingarsjóðsins. Hefir hann á þann hátt fengið 2.000 kr. aukagreiðslu á ári, og ég get bætt því við, að einum manni hafa á síðasta ári verið greiddar 1500 kr. fyrir aðstoð í þágu skipaskráningar og skipamælingar, sem verið hefir í stjórnarráðinu. En það var mér kunnugt, að áður en þessi stj. tók við, þá var þetta unnið af starfskröftum stjórnarráðsins, án þess að þeir fengi nokkra greiðslu fyrir það.

Það má benda á fleira í þessu sambandi. Á þinginu 1925 flutti hæstv. forsrh. þál. um það, að skora á stj. að veita ekki nein embætti, ef þau losnuðu, án þess að láta þingið kveða á um það, hvort þeim skyldi haldið áfram eða þau skyldi lögð niður eða sameinuð öðrum embættum. Hún var samþ. með nokkrum breyt., en á þann hátt, að hún var gerð víðtækari. Og hæstv. forsrh. flaug til að samþ. þessa breyt. Meðal þessara embætta var landlæknisembættið, bæjarlæknisembættið, fræðslumálastjóraembættið og nokkur fleiri. En hvað hefir svo hæstv. forsrh. gert til þess að framkvæma þann vilja sinn frá 1925 síðan hann fékk völdin í hendur á þessu landi? Það stendur nú svo á, að eitt af þessum sýslumannsembættum, sem hann vildi hafa þessa ákvörðun á, losnaði, og hvað skeður? Embættið er veitt þegar í stað, og þá auðvitað tryggum stuðningsmanni hæstv. stj., og sömuleiðis án þess að spyrja Alþingi nokkuð um það, hverja skipun það vildi á hafa. Landlæknisembættið hefir ekki losnað, né heldur bæjarlæknisembættið, en það má þó yfirleitt benda á það, að stj. hefir yfirleitt ekki verið neitt á þeim buxunum að færa embætti nokkuð saman, þótt tækifæri hefði gefizt, og vil ég í því sambandi benda á það, að Ólafur læknir Thorlacíus á Búlandsnesi var látinn leggja niður sitt embætti, en taka við störfum hér, og átti þá að setja upp nokkurskonar aukalandlæknisembætti með launum, sem samsvaraði 6.600 kr. á ári, auk nokkurar uppbótar. Starf þessa manns hefir, að því er virðist, komið að svo litlum notum, að hæstv. stj. hefir séð sitt óvænna við að hafa þetta svona, og að því er maður bezt veit, hefir þessi maður nú verið fluttur yfir í Vínverzlun landsins, og ætlast stj. víst til, að hann hafi þar lífsuppeldi sitt eftirleiðis.

Að því er snertir fræðslumálastjóraembættið er vert að athuga það, að hæstv. forsrh. vildi láta sameina það öðru embætti, þegar það losnaði. Um það má ennfremur geta þess, að stj. hefir flutt frv. um að hækka laun fræðslumálastjóra, og er þar gert ráð fyrir, að hann fái skrifstofukostnað greiddan samkv. reikningi, og ekki sett þar neitt hámark við. Og hæstv. stj. hefir gert annað og meira í þessu sambandi. Hún hefir hleypt af stokkunum nýjum fræðslumálastjóra, sem í umtali manna á meðal hefir hlotið nafnið yfirfræðslumálastjóri. Þessi maður hefir, sem kunnugt er, á síðastliðnu ári verið á ferðalagi utanlands á kostnað ríkisins. Var í byrjun þings spurt um það, hver laun þessi maður hefði, en ekkert svar fékkst við því, þótt vitanlegt sé, að þau muni vera nokkuð há, og auk þess vitanlegt, að maðurinn er á föstum launum. Þessi er aðstaða hæstv. forsrh. nú, og þannig var hún árið 1925, sem ég hefi hér lýst. Niðurstaðan hefir orðið sú, að ekkert hefir verið dregið úr embættum eða starfsmannafjölda.

Það er nokkuð stíf og mótuð mannlýsing, sem kemur fram við að athuga þessi dæmi, sem ég hefi tilfært hér. Það er alveg greinilegt, að í öllum þessum atriðum hefir hæstv. forsrh. snúizt alveg eins og vindhani á bæjarbust. En ég skal bæta nokkru við ennþá, nokkru, sem sýnir, að snúningurinn heldur áfram. Á þinginu 1925 átaldi hæstv. forsrh. fyrrv. stj. harðlega fyrir það, hve vextirnir í bönkunum væru óforsvaranlega háir, en hæstv. ráðh. hefir nú gegnt ráðherradómi nokkuð á þriðja ár, en mér er ekki kunnugt um það, að hann hafi gert nokkuð til að lækka bankavextina, og eru þeir þó það, sem þeir hafa hæstir orðið á síðastliðnu ári.

Á þinginu 1925 átaldi hæstv. forsrh. fyrrv. stj. harðlega fyrir það, að hún hefði hækkað skattana. Hann sagði, að þessir háu skattar ætluðu alveg hreint að drepa fólkið. Nú hefir hæstv. ráðh. haldið á stjórnartaumunum í nærri því full þrjú ár, og hvað hefir hann gert til þess að lækka skatta? Ekkert! En hinsvegar töluvert til að hækka þá. Nú, á þessu þingi, eru hvorki meira né minna en þrjú frv. sem hæstv. stj. flytur um skattahækkun. Það er á leiðinni stjfrv. um það, að leggja 7 aura skatt á hvern lítra af benzíni, sem ætlaður er til bifreiða, um 2% aukaskatt af útfluttum sjávarafurðum og í þriðja lagi hefir hæstv. stj. hækkað skattinn af hverju síldarmáli og hverri síldartunnu, sem flutt er út úr landinu.

Þetta er þá það, sem hæstv. forsrh. hefir gert til þess að framfylgja vilja sínum frá 1925 til að lækka skattana. En af því að hæstv. ráðh. virtist vera hálfhneykslaður yfir því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að eldhúsdagurinn gæti ef til vill orðið sögulegt gagn fyrir síðari tíma, þá vil ég nú benda hæstv. ráðh. á það, sem ég nú ber fram og það, sem hann bar fram á þinginu 1925, það er áreiðanlegt sögugagn, einmitt fyrir það, hve tilvalin og talandi lýsing það er á hæstv. forsrh.

Á þinginu 1926 og 1927 flutti hæstv. ráðh. frv. um það, að verðfesta íslenzka peninga, stýfa krónuna, eins og það þá var kallað. Nú er hæstv. ráðh. búinn að vera hátt upp í þrjú ár í stj., en ekki sýnt neina alvöru í því að vilja verðfesta krónuna endanlega.

Þá má ennfremur benda á það, að þeir menn, sem nú skipa stj. landsins, þeir úthúðuðu mjög fyrrv. stj. og þeim mönnum, sem studdu hana, fyrir það, að þeir vildu ekki leggja niður útsölustaði á vínum, og hverjar voru svo hvatirnar, sem þeir sögðu að lægi til grundvallar hjá þeim? Þær, að þeir vildu halda við drykkjuskapnum og óreglunni í landinu.

Nú hafa þessir sömu menn verið í stj. landsins nær því þrjú ár, og hvað hafa þeir svo gert til að leggja niður þessa útsölustaði, og á þann hátt spornað við drykkjuskap og óreglu? Það er alþjóð manna kunnugt, að þeir hafa ekkert gert til þess. Það eru í fullum gangi allar þær útsölur, sem áður voru. En þeir hafa gert annað. Þeir fóru að blanda, sem var, eftir því sem upplýst hefir verið, í því fólgið að sulla saman nokkrum tegundum af þessum léttu vínum, sem almenningur landsins hafði lítið girnst. (Dómsmrh.: Var blandan ekki nógu sterk?). Jú, hún hefir víst orðið nógu sterk til þess að varan yrði útgengileg, því að það er sagt, að þetta sé hálfgildings brennivín að styrkleika, og afleiðingin hefir orðið sú, að þessi blanda hefir runnið út! Þannig hefir stj., þessi mikla bann- og bindindisstj., staðið með útbreiddan verndarfaðm sinn til að sporna á móti drykkjuskapnum. (Dómsmrh.: Hún hefir sjálfsagt verið að auka sér kjörfylgi frá íhaldsmönnum). Nú, það var það! Það var svo sem auðvitað, að það væri einhver pólitísk lykt af því, það kemur alltaf fyrst fram, sem efst er í huganum!

Það var í fyrstu látið heita svo, sem þessi blöndunarstarfsemi væri rekin með það fyrir augum, að gera gamlan vínforða útgengilegan. En nú hefi ég spurnir af, að þessi blöndun haldi enn áfram, og með fullum krafti. Er það kunnugra manna mál, að þessi innlenda framleiðsla, þar sem stendur „Dog Brand“ á miðunum, eða „Tíkarbrandur“, sem kvað vera nefnt svo eftir höfundi blöndunnar, sé mjög á markaði hér á landi. Af þessu má nú marka heilindi núv. stj. í bann- og bindindismálunum. Þess mætti og geta í þessu sambandi, að hæstv. forsrh. hefir jafnan haft mikinn fagurgala í frammi gagnvart templurum. Hann hefir nú fengið aðstöðu til þess að sýna, hversu mikil alvara liggur að baki orðum hans. Stórstúkan hefir undanfarin ár notið nokkurs styrks í fjárl. En eftir að hæstv. forsrh. tók við stj., brá svo við, að Stórstúkan hefir aldrei fengið að vera í friði með þennan styrk fyrir sífelldum eftirtölum og áleitni hæstv. ráðh. og flokks hans. Alltaf er reynt að klípa af þessum litla styrk, enda þótt stórlega sé bætt við á öðrum liðum:

Og því hefi ég veitt eftirtekt, að þegar um er að ræða tilraunir til þess að fá þennan lítilfjörlega styrk dálítið hækkaðan, þá er hönd hæstv. forsrh. ætíð sú fyrsta, sem rétt er til mótmæla. Í beinu samræmi við þetta eru hinar nýtízku aðferðir, sem sumir flokksmenn hans, — og beini ég nú sjón minni í vissar áttir, –eru farnir að nota til þess að koma þessum styrk fyrir kattarnef.

Þá talaði hæstv. forsrh. mikið um það hér á dögunum, að gæta þyrfti hinnar ítrustu sparsemi í öllum launagreiðslum til opinberra starfsmanna. Það er ekki laust við, að slík ummæli komi nokkuð einkennilega fyrir sjónir nú, og því fremur, sem hæstv. ráðh. hefir ekki fyrir alllöngu stofnað nokkur ný embætti, með miklu hærri launum en hliðstæðir embættismenn fá, sem þó eru búnir að vera lengi í embættum. T. d. kvað forstjóri hins væntanlega útvarps eiga að fá 9.300 kr. laun, sem er miklu hærra en laun landssímastjóra, vegamála- og vitamálastjóra, biskups og fleiri hliðstæðra starfsmanna ríkisins. Auk þeirrar óhóflegu eyðslu, sem af þessu leiðir, þá er slíkt hið greypilegasta misrétti gagnvart öðrum starfsmönnum ríkisins, enda hafa þegar margir þeirra knúið á náðir fjvn. og þegar fengið nokkra úrlausn, og munu fleiri koma á eftir. En það er ekki nóg, að stj. geri upp á milli manna á þennan hátt, heldur eru dæmi til þess, að einstakir menn fá uppbót á laun sín frá löngu liðnum tímum. T. d. var Guðmundi Hlíðdal verkfræðingi greitt í hitteðfyrra 3.750 kr. uppbót á laun hans frá 1925, 1926 og 1927. Það sjá nú allir, út á hverja ófæru er stefnt með slíkum aðförum.

Það hefir oft verið spurt um það hér í d., en ekkert svar fengizt ennþá, hver væri dýrtíðaruppbót bankastjóra Búnaðarbankans. (Forsrh.: Hún er engin sem stendur). Jæja, en ég ætla þó, að þeim hafi verið greidd einhver uppbót. (Forsrh: Stjórnarráðið hefir engar útborganir fyrir Búnaðarbankann). Ég vil nú mega vænta þess, að hæstv. ráðh. gefi nú greið og vafningalaus svör viðvíkjandi þessu atriði, hvort dýrtíðaruppbótin er 60% eða 100%, eða þá ekki nema 40% sem annara starfsmanna ríkisins.

Ég hefi nú dregið fram nokkur dæmi þess, hversu geysilega oft hæstv. forsrh. hefir hringsnúizt í málum, bæði fyrr og síðar. Hann virðist skipta skoðunum og jafnvel fara í gegnum sjálfan sig jafnskjótt sem vindur blæs úr annari átt. Það hefir verið talið þrennt á þessu landi, sem engri tölu verði komið á: eyjar á Breiðafirði, vötn á Tvídægru og Vatnsdalshólar. En ég ætla, að nú megi bæta því fjórða við, og það er, hve oft hæstv. forsrh. hefir farið í gegnum sjálfan sig á sinni pólitísku vegferðarreisu.

Áður en ég fer lengra, get ég ekki gengið framhjá því að minnast örlítið á krossana. Ég minnist með ánægju þeirra tíma, er við hv. þm. Str., núv. hæstv. forsrh., stóðum hlið við hlið gegn þessu krossafargani. Var samvinna okkar hin ákjósanlegasta, enda vorum við báðir jafnsannfærðir um, að við værum að vinna góðu máli. En nú hefir hann fallið fyrir freistingunum, eins og kunnugt er, og eftir þeim spurnum, sem ég hefi af hæstv. ráðh. um þessa hluti, þá virðist hann alltaf vera að falla dýpra og dýpra. Enda þótt ég harmi það mjög, að svo er komið fyrir hæstv. ráðh., og leiðir okkar skildar um þetta verkefni, þá skilst mér þó, að við getum enn átt nokkra samleið, og ef það mætti takast, þá skal sannarlega ekki standa á mér. Ég á hér við það, að leggja duglegan skatt á krossana, — ég sé að hæstv. ráðh. kinkar kolli til samþykkis, — til þess að vinna upp það fé, sem fyrrv. og núv. stj. hefir eytt í þetta fargan. En ég skal aðeins benda hæstv. ráðh. á það, að það er hann, sem á að bera fram frv. um þetta, og skal ég nú gera grein fyrir, hvernig á því stendur. Á þinginu 1924 bar þáv. þm. Str. fram þáltill. um að skora á ríkisstj. að leggja skatt á heiðursmerki. Þetta var samþ., og er því enn í fullu gildi. Málið horfir því þannig við nú, að þess er að vænta, að hæstv. forsrh. taki nú til greina áskorun hv. þm. Str. frá 1924. Ég gat þess lítillega áðan, að ég hefði grun um, að hæstv. ráðh. væri að ánetjast meira og meira í þessu krossafargani. Hefi ég jafnvel heyrt slæðing um það, að hæstv. ráðh. hefði eftirgrennzlan um krossaeign helztu broddborgaranna í bænum til samanburðar við sjálfan sig í þessum efnum. (Forsrh.: Hvaðan kemur hv. þm. þessi speki?). Hefir því og verið fleygt, að hann dreymi stóra drauma um það, að eftir úthald næsta sumars muni hann ekki lengur verða neinn miðlungsmaður í þessum sökum, heldur muni hann þá bera höfuð og herðar yfir alla krossbera þessa lands að fornu og nýju.

Þá vil ég snúa mér að nokkrum öðrum atriðum, sérstaklega í ræðu hæstv. fjmrh. Við 3. umr. fjárl. talaði hann um persónustyrkina, sem mest eru utanfararstyrkir, og hafði þau orð um, að það væri verið að gera fjárl. að beinaverksmiðju, sem malaði handa einstökum mönnum, enda þótt ýmsir sjóðir væru til, sem gætu og ættu að sjá fyrir þessum fjárveitingum. Ég get tekið undir þetta, en vil þó gera eina aths. Hæstv. fjmrh. meinar sennilega ekki, að þingið eigi enga íhlutun að hafa um slíkar fjárveitingar, heldur eigi stj. að veita slíkt utan fjárl.? Að þessu sé í rauninni þannig varið má sjá af því, að beinaverksmiðjan virðist hafa verið í fullum gangi hjá stj. síðastl. ár. Ég hefi áður bent á, að þingið 1928 samþ. utanfararstyrki sem námu 6.000 kr., og náði því heimild stj. ekki lengra á þessum sviðum. En í fyrra voru veittar 13.500 kr. í þessu skyni, og við yfirskoðun landsreikninganna frá 1928 kom það í ljós, að það ár hafa verið veittar til utanfara um 25 þús. kr., í stað 6 þús., sem heimilað var í fjárl. fyrir það ár. Á þessu ári mun vera búið að greiða um 18 þús. kr. í þessu skyni, eftir því sem næst verður komizt, og er það þrefalt við það, sem heimilað er í fjárl. frá í fyrra. Það er enginn tími til þess nú, að telja upp nöfn allra þeirra, sem náðarsól stj. hefir skinið á, en eitt kemur þó berlega fram við nánari athugun, að hún hefir æ fylgt þeirri gömlu og góðu reglu, sem höfð var í veizlum og mannfagnaði til forna, að raða eftir mannvirðingum, enda fá þeir feitustu bitana, sem næstir eru stj. Ég vil einungis nefna þrjú dæmi Einn af helztu lögfræðilegum ráðunautum stj., Stefán Jóhann Stefánsson, siglir nú á hverju ári. Hann hefir, ásamt Þórbergi Þórðarsyni og Pálma Hannessyni, étið upp alla upphæðina, 6.000 kr., sem Alþingi heimilaði til utanfara í fjárl. 1928.

Loks skal ég geta eins manns, sem að vísu fékk nú ekki meira en 800 kr. En eftir þeim höfðingsskap, sem stj. er vön að sýna þeim mönnum, sem eru í slíku afhaldi hjá henni og hv. 2. þm. Árn., þá mætti ætla, að henni hefði í þetta sinn fatast höfðingsskapurinn. En þetta reyndist nú ekki svo, því að hv. 1. þm. Reykv. upplýsti í ræðu nýlega, að fyrrv. forseti hafi fengið 3.000 kr., sem færðar eru á þingkostnað. Það verður því ekki annað séð en að höfðingslundin sé enn hin sama, þegar í hlut eiga gæðingar stj. Alls eru það 3800 kr., sem þessi vildarvinur núv. stj. hefir fengið að veganesti, og mun það vera eitt hið rausnarlegasta, sem sögur fara af. Það er nú svo um þessar styrkveitingar, að oft er erfitt að gera sér grein fyrir tilgangi þeirra, og verður vart séð, hvaða erindi þessir menn eiga út fyrir pollinn, sumir hverjir að minnsta kosti. Þó ber þess að geta hvað hv. 2. þm. Árn. snertir, að hann var sendur utan til þess að læra mannasiði, og er slíkt ávallt góðra gjalda vert og ekki eftir teljandi, ef nokkur árangur hefir orðið af för hans. Annars hafa enn engin svör fengizt viðvíkjandi utanför hv. þm., og er þess að vænta, að þau komi bráðlega.

Ennfremur má geta þess, að ýmsir aðrir slíkir styrkir hafa verið veittir á árinu, og skal ég ekki fara langt út í það að þessu sinni. Þó vil ég benda á það, að núv. ritstj. „Tímans“ hefir fengið 2½ þús. kr. til utanfarar, og hefir það verið látið líta svo út, að hann væri að kynna sér löggjöf um kvikmyndir.

Það er alkunnugt, að menn þurfa ekki út fyrir pollinn til þess að fá bita. Sumir þessir bitar eru að vísu ekki stórvægilegir, en litlar tölur tala sínu máli ekki síður en þær stóru. Þannig hefir stj. greitt tveim mönnum 800 kr. fyrir að rannsaka tryggingarnar fyrir enska láninu. Það sýnist nú svo, að hinn lögskipaði bankaeftirlitsmaður hefði getað unnið þetta verk, og án aukaþóknunar. (Forsrh.: Hann tók þátt í þessari rannsókn) Honum hefði vitaskuld legið næst að gera þetta, enda hefir hann mann beztan kunnugleik á því. Guðbrandi Jónssyni doktor, sem er starfsmaður Alþýðubl., hafa verið greiddar 1.000 kr. fyrir lagaþýðingar á frönsku. Er það undarlegt að fara að kaupa sérstakan mann til þess arna, þar sem í stjórnarráðinu er fastur, löggiltur skjalaþýðandi. Það liggur eitthvað annað til grundvallar, að það skuli ekki mega nota krafta þá, sem fyrir hendi eru.

Enn má benda á eitt atriði, nefnilega Mun ég þó ekki gera þær að umtalsefni að sinni, en aðeins benda á, að tveim sócíalistum hér í bæ hefir þó tekizt að stinga þar inn nefinu, þó að ekki sé þar um stórar upphæðir að ræða. (HK: Það er ekki rétt að vera að telja það eftir). Ég er alls ekki að telja þessar upphæðir eftir. Ég tók það aðeins fram til þess að sýna, hvað það leitar á þetta dót (hlátur), og að ekki þarf stóra rifu til þess að sandkorn fjúki í gegnum, þegar hann er hvass. Þá hefir stj. vikið ofboðlitlum þægilegheitum að Árna nokkrum Björnssyni og greitt honum 2.400 kr. fyrir að undirbúa löggjöf um tryggingar. Þetta þarf ekki að vera átöluvert í sjálfu sér, ef stj. hefir ekki krafta til þess að láta vinna þessi verk í stjórnarráðinu.

Þá vil ég benda á það, að dr. Helgi Tómasson, geðveikralæknir á Kleppi, hefir fengið 1.750 kr. fyrir sálsýkisrannsóknir. Það er svo sem ekkert við því að segja, en það virðist benda til þess, að þeir, sem að þessu standa, beri gott traust til hæfileika þessa manns á því sviði.

Þrem mönnum hafa verið greiddar allríflegar upphæðir til eftirlitsferða á síðasta ári, og skal ég aðeins geta eins þeirra í því sambandi. Hann heitir Gissur Bergsteinsson, og hefir fengið greiddar 5.000 kr. fyrir slíkar ferðir, sem getur þó varla verið nema fyrir dálítinn part af árinu, því að hann varð fulltrúi í stjórnarráðinu þegar Steindór Gunnlaugsson var rekinn þaðan.

Þá hefir Karl Einarsson fyrrv. sýslumaður fengið á 9. þús. kr. árið sem leið fyrir að rannsaka ýms mál og fyrir setudómarastörf, þar á meðal Sigríðar-sálugumálið, sem alkunnugt er. Það var eitthvað talað um það í réttarskjölunum, að henni hefði ekki verið stefnt fyrir réttinn, þrátt fyrir það, þótt hún væri dáin fyrir nokkuð mörgum árum.

Þá er ég kominn að tveim liðum, sem ég vildi bera fram fyrirspurnir um til hæstv. forsrh. Það er um eftirlit með vélum og verkstæðum hér í bænum. Þetta er gert samkv. 1. frá 1928, og einhver reglugerð hefir verið gefin út um þetta árið 1929. Ég sé, að í l. er talað um, að til þess eigi að vera valdir valinkunnir og óvilhallir menn, og svo til starfsins fallnir, sem frekast eru föng á, sem sé allt sérfræðingar á þessu sviði, að svo miklu leyti, sem hægt er að fá þá. Eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið, hafa þessir menn fengið árið sem leið rúm 11 þús. kr. Mér er sagt, að byrjað hafi verið að borga þeim út 7. júní, og virðast þessar launagreiðslur því vera nokkuð háar, nema þá því aðeins, að þeim hafi verið borgað fyrir lengri tíma, en ekki hafið launin fyrr en þetta. En forsrh. upplýsir væntanlega um þetta. Nú er mér kunnugt um, að sérstakt gjald er borgað af þeim, sem eiga verkstæðin, og vildi ég spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort þessir menn eigi að fá allt gjaldið, ellegar hvort þeir eigi að fá föst laun úr ríkissjóði, og gjaldið svo að renna í ríkissjóð. Ég hefi ekki séð neitt í fjárl. um þetta.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvernig sé hagað eftirlitinu með bifreiðum. Það eru tveir menn, sem hafa það á hendi hér í Reykjavík. Eftir því, sem séð verður á reglugerðinni, á öll borgun fyrir eftirlitið að renna til þessara manna, en ef það reynist ekki nægjanlegt, þá á ríkissjóður að borga mismuninn. En ef launin reyndust miklu hærri en sanngjarnt er, þá vildi ég spyrja hæstv. ráðh., hvort þeir ættu að hrifsa þetta allt. Að því er virðist, hafa þeir 6 þús. kr. árslaun, og á síðasta ári fengu þeir nokkra uppbót, eða um 1.000 kr.

Ef hæstv. forseti óskar þess, get ég náttúrlega frestað þessum parti ræðu minnar, þangað til er byrjað verður aftur kl. 9. [Fundi frestað].

Ég var kominn að því áðan, þegar fundi var frestað, að minnast á það, hvað hæstv. stj. var meinilla við það á eldhúsdeginum í fyrra, þegar minnzt var á bifreiðakaup hennar, hestahald og allt það fargan. Þá var á það bent, að varið hefði verið úr Landhelgissjóði á árinu 1928 21 þús. kr. til bifreiðakaupa og hestahalds. En samkv. landsreikningum 1928 er þessi póstur sundurliðaður þannig:

1.

Til bifreiðakaupa

11.500 kr.

2.

Bifreiðakostnaður

4.332 —

3.

Bifreiðaskúr

2.000 —

4.

Hestahald

6.814 —

Alls

24.646 kr.

Hæstv. stj. hefir skipt þessum kostnaði milli ríkissjóðs og Landhelgissjóðs þannig, að hlutur Landhelgissjóðs hefir sízt orðið minni en ég gerði ráð fyrir í fyrra, eða 21 þús. kr. Nú hefir hæstv. stj. nýlega keypt luxusbifreið fyrir 12.200 kr., fyrir fé Landhelgissjóðs. Verður að líta svo á, að slík meðferð á fé Landhelgissjóðs sé með öllu óverjandi. Bifreiðar eru náttúrlega til margra hluta nytsamlegar, en til landhelgisgæzlu eru þær með öllu ónothæfar, þegar af þeirri ástæðu, að þetta eru farartæki á landi en ekki sjó. Bifreiðarnar munu líka eingöngu vera notaðar í snattferðir stj. hingað og þangað.

Ekki verður sagt um það með vissu nú, hve miklu fé stj. hefir eytt í bifreiðar og hestahald á síðastl ári, eða hvernig hún hefir látið skipta því milli ríkissjóðs og Landhelgissjóðs. En eftir því, sem séð verður, hefir verið greitt úr ríkissjóði í kostnað við stjórnarbifreiðar yfir 5.000 kr., og auk þess yfir 3.000 kr. fyrir leigubifreiðar. Þegar þar við bætist, að ný bifreið hefir verið keypt fyrir 12.200 kr., nemur þetta alls um 20 þús. kr., og ekki er hætta á því, að öll kurl séu ennþá komin til grafar. Minnsta kosti ekki það, sem hæstv. stj. kann að setja á reikning Landhelgissjóðs, og eftir því, sem tilfærslum hefir verið hagað undanfarið, þarf varla að gera ráð fyrir, að Landhelgissjóður fari varhluta af því.

Það þarf raunar engan að undra, þótt bifreiðakostnaður stj. verði nokkuð hár, því að snattferðir stj. eru landkunnar og mikið um þær rætt. Það er t. d. fullyrt, að nú sé tvívegis búið að vígja Laugarvatnsskólann, og í bæði skiptin hafi stj. farið héðan með fríðu liði til þess að vera við þessa vígsluathöfn. Það er meira að segja sagt, að í sumar hafi lúðrasveit verið með í förinni til þess að auka glaðværðina, en líka kostnaðinn. Það hefir ef til vill verið í einhverri slíkri för, sem farin hefir verið til Laugarvatnsskóla, að stj. og förunauta hennar dagaði uppi, og varð ríkissjóður að greiða næturgreiða fyrir 47 manns. Auk þess borgar ríkissjóður allar þessar skemmtiferðir, en ókunnugt er, hver borgar öll veizluhöldin.

Þrátt fyrir það, þótt 2 vígsluathafnir hafi farið fram við Laugarv.skóla, mun þó lokavígsluathöfnin vera eftir, því þó að búið sé að greiða úr ríkissjóði til byggingar þessa skóla yfir 200 þús. kr., er sagt, að ekki sé öllum byggingum ennþá lokið.

Þá er önnur vígsluför alkunn orðin. Það var þegar hæstv. dómsmrh. tókst ferð á hendur, með töluverðu liði héðan úr Reykjavík, til að vígja skólann á Staðarfelli. Eftir því, sem ég hefi haft spurnir af, var Óðinn 3 sólarhringa að minnsta kosti í þessari för. Það er náttúrlega erfitt að meta hvern skaða landsmenn hafa beðið við það, að skipið var bundið vestur á Hvammsfirði og gat því ekki sinnt landhelgisgæzlu á meðan, en benda má á það, að meðan Óðinn var vestur þar í þessari virðulegu för, tók Þór sálugi 2 togara. Annar kostnaður af förinni, fyrir utan skipið sjálft, var ekki mikill, eða um 1.000 kr. úr ríkissjóði.

Annars er nú svo komið um bílaferðir stj., að menn eru farnir að fá mestu skömm á þeim. Þær hafa orðið til þess að vekja viðbjóð og andstyggð manna á þessum gegndarlausu snattferðum stj. Og það er nú orðið svo, að þeir, sem fara austur til Laugarvatns, eða annarra staða austur þar, láta þess sérstaklega getið í blöðunum, að þeir hafi ekki farið á ríkisins kostnað. Þannig var t. d. nýlega í Morgunblaðinu yfirlýsing frá Kennaraskólanum um það, að ríkissjóður hefði ekki að neinu, leyti kostað för hans austur. Gefur þetta ljósa hugmynd um, hvernig litið er á slík ferðalög. Svo keyra þau fram úr hófi.

Um snattferðir strandgæzluskipanna er það að segja, að þær keyra úr öllu hófi fram. Ég hefi þegar minnzt á Staðarfellsför Óðins, og má einnig geta um Hornafjarðarför hans. Þá var Þór sendur með hv. þm. Mýr. norður um Strandir, þar sem hann hélt þingmálafundi fyrir hæstv. forsrh. Þá var Þór loks sendur með 2 menn norður á Húnaflóa, og þar bar hann beinin á Sölvafjörubökkum. Þá er sagt, að Ægir hafi verið sendur austur á Mjóafjörð til að skjóta niður stromp (hlátur) fyrir hv. 1. þm. S.-M. Þar stóð nú svo á, að þar höfðu einu sinni verið verksmiðjur, sem hv. 1. þm. S.-M. erfði og reif niður, en einn strompur stóð eftir. Hv. þm. vildi gera sér einhverja peninga úr þessu slátri, og fékk þess vegna Ægi til að skjóta hann niður. En hvernig sem Ægir eyddi blýinu og púðrinu, stóð strompurinn eftir sem áður. Síðast var niðurlögun hans ráðið þannig, að settar voru festar í hann og fram í skip, og færði Ægir hann svo niður.

Þessi „strandgæzluför“ var farin á sama tíma og Þór var sendur norður á Húnaflóa. Fyrir þá sök náðist ekki í Ægi, til þess að koma honum til bjargar.

Það nægir þó ekki að hafa eitt strandgæzluskip í snattferðir, heldur eru þau stundum 2 í snattferðum í einu, og svo getur borið undir, að þau séu öll á slíku ferðalagi. Það gefur að skilja, hvernig landhelgisgæzlunni er farið á meðan. Þetta er alvarlegt atriði og keyrir nú svo úr hófi fram, að taka verður í taumana. Það er ekki einungis að þessar ferðir spilli landhelgisgæzlunni, heldur verður rekstrarkostnaður skipanna meiri en ella.

Hæstv. stj. hefir talað um, hve rekstrarkostnaðurinn sé mikill, og hefir haft það sem ástæðu móti því, að nýtt skip verði byggt í stað Þórs. En ég vil spyrja: Hvað liggur mikill rekstrarkostnaður í snattferðunum? Það skiptir miklu, hvort skipin halda kyrru fyrir, eru á hægri ferð, eða á fullum gangi. Þetta er svo alvarlegt atriði, að hér verður að taka í taumana. Það er óhæfa að halda þessu áfram.

Þá er það líka alkunnugt, að ein af þeim leiðum, sem hæstv. stj. hefir mikið notað til þess að útvega sínum nánustu gæðingum fé úr ríkissjóði, er að skipa n. til allskonar starfa. Menn eru meira að segja farnir að tala um það, að hæstv. stj. sé haldin einhverju nefndaskipunaræði. Eftir þeim upplýsingum, sem lágu hér fyrir þinginu í fyrra, og því, sem bæzt hefir við síðan, reiknast mér svo til, að það sé um 100 manns, sem hæstv. stj. hefir beint eða óbeint komið í n. Annars verður ekki sagt um tölu þessara nm., nema hún er heil legio.

Þetta nefndafargan kostar ríkissjóð geysimikið fé. Má þar fyrst nefna ríkisgjaldan., n., sem upphaflega hét sparnaðarn. En form. n. áleit víst, að hún bæri ekki nafn með rentu, og kallaði hana því ríkisgjaldan. Í landsreikningnum 1928 eru útgjöld til hennar talin 18.341 kr.

Þá var einnig skipuð n. til að endurskoða siglingalögin, og kostaði það ríkissjóð 4.228 kr.

Svo er mþn. í skattamálum. Hún er nú búin að fá 12.817 kr., og heldur áfram störfum enn. Þá er póstmálan. Í henni voru 4 menn, sem störfuðu aðeins stuttan tíma, en þeir fengu nú samt 6.856 kr. En þegar till. hennar um póstmál komu hér fyrir þingið í fyrra, fundu margir hv. dm. skyldu hjá sér til að koma í veg fyrir, að nokkur þeirra kæmi til framkvæmda fyrr en viðkomandi héruð væru búin að segja álit sitt um þær. Svo voru þær fjarstæðar. En n. fékk nú 6.856 kr. fyrir því.

Svo kemur nú kirkjumálan., sem starfar enn, og búið er að greiða 8.200 kr.

Þá er laxveiðan. Ég veit nú ekki, hvort það er hennar rétta nafn, en það gefur þó hugmynd um málið, sem hún á að fjalla um. Hennar starf er að undirbúa eitt frv. undir þingið. Henni er búið að greiða 3.000 kr., en hún hefir ekki lokið störfum ennþá.

Er þá loksins komið að mþn. í landbúnaðarmálum, sem er öllum hinum gírugri. Í henni eru 3 menn, og hafa þeir nú fengið 38.000 kr. í þóknun. Samtals eru þá þessar n. búnar að fá greiddar 91.542 kr.

Ég nenni svo ekki að rekja þetta lengra, en flestar n. hafa ekki enn lokið störfum, svo ekki er ennþá séð fyrir endann á kostnaðinum við allt þetta nefndafargan.

Svo eru alltaf að fæðast nýjar og nýjar n. Það er e. t. v. ofmælt að segja, að ein fæðist á hverju tungli, en áreiðanlega bætist ein í hópinn á hverjum ársfjórðungi.

Þá er rétt að drepa ofurlítið á eftirtekjurnar af starfi þessara n. Að því leyti, sem þær áttu að undirbúa mál fyrir Alþingi, er árangurinn sá að þingið hefir sárlítið getað notað af till. þeirra, og eru þó sumar búnar að liggja fyrir tveimur þingum. Gott dæmi um heilindi stj. og áhuga hennar á þeim málum, sem hún hleypur til að skipa n. til að fjalla um, er meðferðin á till. kirkjumálan.

n. hefir., afhent stj. a. m. k. 6 eða 7 frv., fullbúin til að leggja fyrir þingið, með grg. og öllu saman. Aðeins eitt af þeim hefir stj. flutt, og það þó á þann hátt, að hún klippti aftan af því grg. og breytti því talsvert. Á ég við frv. um byggingar á prestssetrum. Form. kirkjumálan. notaði fyrsta tækifæri til að senda öllum þm. frv. í sinni upphaflegu mynd. Má af því marka, hvernig honum hefir líkað meðferð stj. á því. Hinum frv. hefir stj. sjálfsagt ekki viljað sinna, og er mér ókunnugt um, hvernig hefir staðið á því, að pakkinn með öllum frv. í lenti hjá hv. 2. þm. Reykv. En framan við hann á borðinu lá pakkinn nokkrar vikur framan af þingtímanum, og veit ég ekki, hvort hv. þm. hefir haft svo mikið við að opna hann. Næsta sporið í sögu pakkans, og ég held það eina, sem hv. 2. þm. Reykv. hefir unnið fyrir þetta mál, var það, að hann strikaði yfir sitt nafn utan á pakkanum og kom honum í hendurnar á hv. 2. þm. Rang.

Þannig gekk aumingja pakkinn milli Heródesar og Pílatusar, og þori ég ekkert að fullyrða um, hvar hann er niður kominn nú. Síðast sá ég hann liggja frammi á litla borðinu, þar sem þingskrifararnir ydda ritblýin sín.

Svo var það einn dag, að form. kirkjumálan. var hér staddur. Leiddi ég hann þá þarna að litla borðinu og benti honum á pakkann.

Eftir það hvarf pakkinn, og leikur mér grunur á, að form. hafi haft hann á burt með sér.

Það síðasta, sem ég veit úr sögu pakkans, er það, að hv. menntamálan. hefir tekið að sér að flytja tvö af frv. Hygg ég það hafi verið fyrir atbeina kirkjumálan. sjálfrar, en ekki landsstj., og bendir það á, að pakkinn hafi lent hjá form. hennar aftur.

Það má nú e. t. v. segja það stj. til afsökunar á flækingi pakkans, að hæstv. dómsmrh. var fjarverandi um langt skeið, en þar sem prestvígður maður er nú í stj., skyldi maður ætla, að hann léti sig þetta mál einhverju skipta. (Forsrh.: Mér er saga pakkans alveg ókunn, það hefir verið gengið fram hjá mér með hann). Jæja, hann hefir þá þvegið hendur sínar. (Forsrh.: Eins og Pílatus!). Já, það er oft talað um Pílatusarþvott, og við vitum báðir vel í hvaða merkingu. En svo maður sleppi nú öllu gamni, þá sýnir þessi saga ekki einungis áhuga stj. á kirkjumálunum, heldur er þetta ágæt mynd af heilindum hennar yfirleitt í þeim málum, sem hún er að reyna að skreyta sig með, eins og villimennirnir skreyta sig með mislitum fjöðrum, og hún notar til að koma gæðingum sínum að bitlingajötunni.

Þá vildi ég víkja fáeinum orðum til hæstv. fjmrh., ef hann er hér einhversstaðar nálægur. (Forsrh.: Það má koma skilaboðum til hans). Ég vona að þau lendi þá ekki í öðrum eins hrakningum og pakkinn.

Hæstv. fjmrh. talaði um, að sjálfstæðismenn hefðu sýnt mikla léttúð í því að reyna að hækka útgjöld ríkissjóðs við 3. umr. fjárlagafrv. Það varð tilefni til þess, að ég fór að athuga, hvernig hækkunartill. skiptust niður á flokkana, nefnilega annarsvegar hvað stjórnarflokkarnir til samans báru fram till. um mikla hækkun á útgjöldunum, og hinsvegar sjálfstæðismenn. Af því hæstv. ráðh. varð tíðrætt um bitlinga, vil ég benda á, að stjórnarflokkarnir báru fram till. um styrki til einstakra manna, sem námu samtals 24.316 kr., en sjálfstæðismenn ekki nema samtals 11.043 kr. Aftur á móti er rétt, að sjálfstæðismenn báru fram till. um hærri útgjöld til verklegra framkvæmda. hó verður ekki sagt með vissu um það, hvað mikil útgjaldahækkun felst í till. stjórnarflokkanna, því hv. 2. þm. Eyf. bar fram till. um einhvern sjóvarnargarð þar norður frá, sem enginn veit hvað myndi kosta.

Það hefir mikið verið varað við ríkisábyrgðum á þessu þingi. Hefir hv. 1. þm. S.-M. mest stutt stj. í að berjast gegn þeim. (JAJ: Í orði). En hvað skeður? Hv. stj.flokkar bera fram till. um að heimila stj. að ábyrgjast samtals um 800 þús. kr. lán, en ábyrgðarheimildir, sem sjálfstæðismenn flytja till. um, nema 60 þús. Og það einkennilega er, að meiri hl. af ábyrgðarheimildum stjórnarflokkanna eru fyrir kjördæmi þeirra hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. S.-M., sem mest vöruðu við ábyrgðunum. Auðvitað voru þær samþ.

Ég ætla nú ekki að orðlengja þetta frekar. Ég hefi nú upplýst, að sjálfstæðismenn hafa sýnt fullkomna varfærni í fjármálunum, nú sem endranær. Eru því ásakanir hæstv. fjmrh. í þeirra garð um léttúð við afgreiðslu fjárl. rakalausar.