14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í C-deild Alþingistíðinda. (1543)

338. mál, gelding hesta og nauta

Frsm. (Lárus Helgason):

* Hv. þm. Barð. segir, að það þurfi að kenna mönnum að svæfa dýr, áður en farið er að lögleiða svæfingu. En ég veit ekki betur en frv. feli þetta í sér. Það er ætlazt til þess, að þeir einir fari með þessi svæfingarlyf, sem hafa leyfi dýralæknis eða héraðslæknis til þess, svo að ég sé ekki, að þetta sé á miklum rökum byggt hjá hv. þm.

Hv. þm. hélt, að framkvæmd þessa máls yrði erfið eða ómöguleg. Það þykir mér næsta undarlegt, ef svo þarf að vera. Sýslunefndirnar eiga að sjá um þetta, og þeim verður innan handar að sjá um, að nógu margir menn séu, sem kunna þetta verk.

Hv. þm. spurði, hvers vegna sauðfé hefði ekki verið tekið undir sama lagaákvæði. En það er nú svo, að það er talsverðum vafa undirorpið, hvort það er svo handhægt eða svo auðvelt að koma því við, svo að n. sleppti því, í þeirri trú, að þegar menn eru komnir upp á það að nota þessa aðferð við stærri skepnur, þá verði einnig farið að nota hana við þær minni.

Í fyrra lá fyrir þinginu samskonar frv. og þetta. Það var flutt eftir tilmælum Dýraverndunarfélags Íslands, og það er einnig svo um þetta frv. Mig furðar á því, að menn skuli ekki geta fallizt á, að þetta frv. nái fram að ganga. Okkur þykir vafalaust öllum vænt um hestana, okkar þörfustu þjóna, svo að okkur ætti ekki að finnast of mikið fyrir þá gert, þó að við tækjum upp þessa aðferð, en hún kemst seint á, ef á að bíða eftir, að menn taki hana upp ótilkvaddir. Mér er reyndar kunnugt um það, að einstöku menn í mínu byggðarlagi eru farnir að svæfa hesta, þegar þeir gelda þá, og hefir það gefizt prýðilega. Meðulin, sem notuð hafa verið, eru venjuleg svæfingarmeðul frá héraðslækninum, og munu þau því geta gengið hvar sem vera skal, ef rétt er með þau farið. Það er minni vandi að svæfa gripi en menn. Það hefir oft komið fyrir, þegar héraðslæknar verða að svæfa menn, að þeir hafa haft menn sér til hjálpar, sem ekkert hafa lært í læknisfræði, og gefizt vel. Það má því fullkomlega treysta því, að í hverri sýslu megi finna menn, sem geti leyst vel af hendi það verk, sem hér um ræðir.

Ég vænti, að ekki þurfi langar umr. um málið að þessu sinni. Ég skil ekki annað en að hv. þdm. hljóti að geta fallizt á, að þetta er þarft mál og réttmætt. Þessi aðferð er búin að ganga allt of lengi við þarfasta þjóninn, og væri vel, ef tækist að ráða bót þar á. Þess vegna ættu allir hv. þm. að vera samtaka í að stuðla að því, að þeir tímar séu á förum, sem svo illa hefir verið farið með hestana. — Ég ætla svo ekki að halda lengri ræðu, nema ég neyðist til þess vegna ummæla, sem fram kunna að koma.