14.04.1930
Neðri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í C-deild Alþingistíðinda. (1554)

338. mál, gelding hesta og nauta

Jörundur Brynjólfsson:

Mér hefir ekki dottið í hug að mæla á móti því, að æskilegt sé að svæfa dýr við geldingu, en ég vil, að sú varúð sé höfð í frammi, að mönnum gefist tími og kostur að afla sér þess kunnugleika, sem til þess þarf. Mér er það kunnugt, að mjög víða um land kunna menn alls ekki að svæfa eða fara með svefnlyf. Því hygg ég, að sá tími, sem frv. tiltekur, sé of naumur til þess að menn almennt geti verið búnir að læra þessa aðferð fyrir næsta vor. Ég vil því, að mönnum gefist nægilegur frestur til að læra svæfingaraðferðina. Hv. þm. Borgf. sagði, að þessi aðferð væri notuð utan Skarðsheiðar. En það svæði er ekki nærri helmingur Borgarfjarðarhéraðs. Ég veit, að þessi aðferð hefir verið notuð á stöku stað, en ekki heldur meira. Ég vil því, að áður en löggjafarvaldið fer að hegna mönnum fyrir vanrækslu í að svæfa við geldingu, þá gefi það mönnum um leið hæfilegan frest til að læra aðferðina.

Þá er enn eitt atriði í frv., sem gerir mig hálfhikandi um að samþ. það. En það eru ákvæði 2. gr., þar sem hverjum manni, sem þetta kann, er heimilað að fá svæfingarlyf. Ég held, að í þessu geti fólgizt hætta. Ég hygg, að betur fari að það sé vitað, að þessir menn hafi þekkingu, varfærni og þá aðgæzlu, sem heimtandi er, þar sem skylt er að láta slíkt efni til þeirra. Það má að vísu segja, að brtt. mín bæti ekkert úr þessu. En þetta heyrir þó beinlínis undir hana, því verði hún samþ., þá gefst meiri tími til að vanda val á slíkum mönnum.

Þetta allt virðist mér sanna það, sem ég áður sagði, að frv. þessu er ábótavant bæði að efni og orðfæri. Ég get því ekki fylgt þessu frv. óbreyttu, en ég álít, að mín brtt. bæti þó nokkuð úr, ef hún verður samþ.