31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í C-deild Alþingistíðinda. (1574)

343. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það, að mér finnst undarlegt, að hv. flm. þessa frv. skuli ekki vilja hafa fyrir að gera grein fyrir þeim mörgu og víðtæku breyt. á laxveiðalöggjöfinni, sem hér liggja fyrir, enda þótt viðleitni hafi verið sýnd til þess í grg. þeirri, sem frv. fylgir. Það er svo stutt síðan frv. var útbýtt, að lítill tími hefir unnizt til að athuga það, með því að annir hafa verið miklar í deildinni. Mér var það samt ljóst undir eins við fyrsta lestur þessa frv., að hér var um víðtækar breytingar að ræða. Þó að ég hafi haft lítinn tíma, vil ég til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, drepa á nokkur atriði.

Það er náttúrlega ekkert óeðlilegt, þó að breytingar komi við þessi lög, þar sem þau eru frá 1886. En eftirtektarvert er það, hve vel hefir verið gengið frá þessari löggjöf, úr því menn hafa getað hlítt henni þangað til nú. Mér virðist það stafa að nokkru leyti af því, að héraðsstjórnirnar hafa samkv. þessum lögum haft þessi mál að nokkru leyti í sínum höndum og getað hagað þeim eftir því, sem hentugast var í hverju héraði, en eins og menn vita, hagar mjög misjafnt til með lax- og silungsveiði, eftir því hvar það er á landinu.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er mjög horfið frá því ráði að láta héraðsstjórnirnar hafa nokkurt vald í þessu efni, heldur á að setja allsherjarlöggjöf, er gildi fyrir landið í heild.

Í 2. gr. frv. er það ákvæði, að ekki megi byggja jörð nema veiði sú, er henni tilheyrir, fylgi með. M. ö. o., jarðeiganda er óheimilt að taka veiði undan jörðinni, þegar hann byggir hana. Ennfremur er samkv. þessari gr. manni, sem býr á eignarjörð sinni, óheimilt að leigja veiði þá, sem jörðinni fylgir, nema til stangarveiði, og þó ekki lengur en 10 ára tímabil í einu.

4. liður 2. gr. mælir svo fyrir, að ef réttur til stangarveiði er skilinn við landareign samkv. 3. málsgr., þá sé löglegt, að landeigandi jafnframt afsali sér rétti til annarar veiði í vatninu það tímabil, sem stangarveiðin er við landareignina skilin. Eftir þessu varðar það ekki við lög, þó að landeigandi leigi öðrum veiðirétt í þessu tilfelli, en undir öllum öðrum kringumstæðum er það óheimilt. Þannig er landeiganda meinaður ráðstöfunarréttur á veiði sinni að mestu leyti. Þarna virðist mér nokkuð langt gengið í því að takmarka eignarrétt manna. Þetta er því fremur ástæðulaust, sem hér væri ekki um aukna friðun að ræða, því að þótt jarðeigandi leigði einhverjum veiði, þá mundu veiðilögin gilda um veiði hans að öllu leyti engu að síður.

Í 3. gr. frv. er svo ákveðið, að þar sem svo stendur á, að veiðiréttur hefir verið skilinn við jörð, þá hafi landeigandi rétt til að leysa hann til sín, en veiðieigandi geti þá aftur á móti krafizt, að allir þeir, sem þar eiga innlausnarrétt, leysi veiðina til sín, hver fyrir sínu landi. Þessar innlausnir mega fara fram eftir mati.

Mér virðist þörf á að athuga, hvort hér sé gengið of langt í því að takmarka eignarrétt þeirra manna, sem hér kynnu að eiga hlut að máli, að krefjast þannig, að þeir láti eign sína af hendi án þess að um nokkurt eignarnám sé að ræða. Þegar svo stendur á, að ekki eru allir samtaka að krefja sér þessa réttar, getur sá, sem veiðiréttinn á, krafizt þess að þeir, sem ekki kærðu sig um að innleysa sinn veiðirétt, leysi hann einnig inn. Þetta ákvæði er eðlilegt og sjálfsagt til að tryggja það, að sá, sem veiðiréttinn hafði, sitji ekki eftir með það af veiðisvæðinu, sem minnst er varið í. En ákvæðið er aftur á móti varhugavert gagnvart þeim mönnum, sem eru skyldaðir til að innleysa þessi fornu veiðiréttindi, sem væru þeim ef til vill lítils virði. Það er því nærgöngult við þá að setja svona ákvæði.

Yfirleitt finnst mér 3. gr. ganga of langt í því að takmarka eignarrétt manna, en vafasamt, hvað mundi vinnast við það, þó að henni yrði framfylgt.

Þessi ákvæði ná ekki þar til, sem um sameign er að ræða, t. d. sveitarfélags. Mér virðist þetta vera bending frá hv. flm., að hér sé vísir að því, að verið sé að fara inn á þá hæpnu braut — — 1) 1) Hér vantar kafla í ræðuna frá hendi þingskrifara. — P. O.

Þá eru hér teknar nokkrar greinar upp úr vatnalögunum, sumar lítið breyttar. en aðrar nokkuð breyttar. Ég ætla ekki að fara neitt út í það, en náttúrlega er sjálfsagt fyrir hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að bera þessi ákvæði saman við ákvæði vatnalaganna.

Þá kemur III. kafli frv., um skrásetningu veiðivatna, veiðiskýrslur o. fl. — Ég sé ekki ástæðu til að fara út í það neitt verulega, en vík kannske að því síðar í sambandi við annað frv.

Þá er IV. kaflinn, og hann byrjar á því að banna, að veiða megi lax í sjó. Hingað til hefir þetta, eins og kunnugt er, verið heimilt, og enda komið nokkuð á rekspöl að veiða lax í sjó. Mér er t. d. sagt, að hér inni í Leiruvogunum hafi það verið stundað með góðum árangri, og eins er mér kunnugt um, að svo hefir verið gert í Hvalfirði. Eins og þetta mál horfir við nú og án frekari skýringa finnst mér það varhugavert að vera að banna veiði í sjó, og vil ég, í sambandi við ákvæði frv. um þetta, benda hv. flm. á það, að hann gerir hér mun á því, hvort nýlega er farið að stunda veiðina eða hún hefir verið stunduð um nokkurt árabil. Þannig er gert ráð fyrir því í þessum ákvæðum, að þar, sem farið er að stunda þessa veiði áður en fasteignamatið 1922 var gert og þar sem tekið er tillit til hlunninda af þessari veiði, megi halda áfram veiði, þótt öllum öðrum, sem seinna hafa byrjað, sé það algerlega bannað. Ég skal nú t. d. í þessu efni benda á, að það eru tvær jarðir við norðanverðan Hvalfjörð, sem þannig hagar til, áð löndin liggja saman. Á annari var fyrir allmörgum árum byrjað að veiða lax í sjó, og þegar matið fór fram, var þessara hlunninda getið í mati jarðarinnar og visst tillit tekið til þess við jarðamatið. Eftir þessu ákvæði mætti þessi bóndi halda áfram að veiða í sjó, en bóndinn á hinni jörðinni, sem byrjað hefir veiðiskap fyrir nokkrum árum, verður að hætta. Mér þykir þetta einkennilegt ákvæði í lögunum, þótt ég verði að játa, að það sé athugavert að svipta þær jarðir hlunnindum, sem komin eru í fasteignamat þeirra. Nú er líka á það að líta í þessu sambandi, að þegar veiði er bönnuð í sjó, eru líka eyðilagðir allir þeir fjármunir hjá mönnum, sem þeir hafa lagt í slíka útgerð, og hún er töluvert dýr; þetta er því töluvert harkaleg aðferð, og þar sem þetta á að stuðla við því, að meiri veiði verði í ánum en ella, virðist ekki ósanngjarnt, að þeir, sem þannig missa veiðirétt sinn og á þann hátt eru gerð verðlaus fyrir þeim töluvert dýr veiðitæki, fengju einhverjar bætur. Virðist það og vera í samræmi við önnur ákvæði frv., t. d. um ófriðun sels, að þar sem selveiði er lögð niður, eigi fiskveiðendur að greiða þeim, sem leggja niður selveiði, bætur fyrir. Mér finnst því, að hér gæti töluverðs ósamræmis, og vil ég ennfremur benda á það, að þetta ósamræmi kemur víða í ljós í þessu frv., og í því sambandi vil ég minna á, að afleiðingar af þeim breyt., sem hv. flm. leggur til, gera það að verkum, að verðgildi ýmsra jarða samkv. fasteignamatinu mun breytast ákaflega mikið fyrir ákvæði frv.

Þá er hér og nýtt ákvæði um það í 15. gr., að eigi megi hafa ádrátt í ósum, í sjó eða á leirum við sjó, og ekki megi stunda veiðiskap í árósum eða ósum við stöðuvötn nær en sem nemi 100 metrum upp frá slíkum ósum eða 250 metra niður frá þeim. Slík ákvæði hafa vitanlega í för með sér mjög miklar breyt. á veiðiskap; eins og nú er tíðkað, getur verið að það sé að einhverju leyti nauðsynlegt, en ég vil leggja mjög ríka áherzlu á það við hv. landbn., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún kynni sér sem víðast staðhætti í þessum efnum og dragi sínar ályktanir af því. Í mínu kjördæmi geri ég ráð fyrir að þetta muni hafa allveruleg áhrif á veiðarnar víða.

Þá kemur hér í þessum sama kafla, að eigi megi veiða lax nema á tímabilinu frá 1. júní til 15. september. — Það er nú eitt af þeim ákvæðum, sem héraðsstjórnirnar hafa haft á sínu valdi, hvenær veiði sé byrjuð og hvenær henni skuli hætt; er það vitanlega byggt á því, að það er mjög mismunandi, hvenær lax gengur í einstakar ár. Vil ég t. d. benda á ákvæðin í Borgarfjarðarsýslu, að í Hvítá er heimilt að byrja veiði 20. maí, en aftur í Laxá í Borgarfirði er ekki heimilt að byrja fyrr en 15. júní. Þetta er vitanlega miðað við það, að lax gengur á svo mismunandi tíma í þessar ár, og þess vegna virðist mér að þetta ákvæði, sem hér er farið fram á að setja, falli alls ekki saman við það, t. d. sem héraðsstjórnin í Borgarfirði hefir álitið, að heppilegt væri um það, hvenær byrja skyldi að veiða í héraðinu, og sem vitanlega er byggt á margra ára reynslu þar í þessu efni. Þetta vildi ég ennfremur biðja hv. n. að taka til athugunar, og ég vil í þessu sambandi benda á það, að ég tel mjög varasamt og ekki hagkvæmt að setja ein og sömu ákvæði um þetta fyrir land allt; ég held, að það væri miklu réttara, að haldið sé hinum eldri ákvæðum, eins og þau eru í hinum gildandi lögum, að leyfa viðkomandi héraðsstjórnum að ákveða um það, hvenær veiði skuli byrja og hvenær henni skuli hætt. Á þann hátt verður það bezt samræmt við staðhætti alla.

Þá kemur hér ákvæði um það, að sá tími skuli allmikið lengdur, sem net eigi að liggja í landi í hverri viku, eða úr 36 klst., sem mun vera í gildandi lögum, og upp í 60 klst. Þetta á vitanlega að stuðla að því, að laxinn hafi greiða göngu upp í árnar, og getur það ef til vill haft við mikil rök að styðjast á ýmsum stöðum, en hitt virðist mér, að þar sem um stórár er að ræða, eins og t. d. Hvítá og Ölfusá, að það geti síður átt þar við, þegar svæðið, sem netin liggja yfir út í árnar, er svo tiltölulega lítið, samanborið við breidd ánna landa á milli. Ennfremur eru hér gerðar mjög miklar breyt. um ádráttarákvæði. Flestum mun koma saman um það, að það, sem sé einna hættulegast fyrir lax- og silungsveiði, sé ádráttur á hrygningarstöðum, því að það er alkunna, að sumstaðar er hægt að ganga mjög nálægt laxi á þann hátt. Það er þess vegna svo ákveðið, að það megi aldrei draga á nema 4 daga í hverri viku og aldrei nema annað dægrið. Ennfremur eru miklu víðtækari heimildir í þá átt að takmarka ádráttarveiði í þessu frv.; þannig er það, að ráðh. er heimilt að banna alla ádráttarveiði í hyljum undir fossum, og ennfremur þar, sem netalagnir eru, innan 20 metra fjarlægðar frá þessum stöðum, þannig að hér er gengið mjög langt í þá átt að takmarka og jafnvel leggja niður með öllu ádráttarveiði, og ég sé það nokkurn veginn í hendi mér, að eftir ákvæðunum í þessu frv. mun a. m. k. ein jörð í mínu kjördæmi, þar sem þriðjungur verðmætis jarðarinnar byggist á laxveiðihlunnindum, að eftir þessu munu öll laxveiðahlunnindi verða tekin af þessari jörð.

Það er náttúrlega sjálfsagt að athuga og virða fullkomlega nauðsyn slíkra takmarkana, en hinsvegar verður þó jafnframt að gæta þess að ganga ekki svo langt í þessum efnum, að einstakar jarðir, sem kannske hafa ekki aðstöðu til veiði nema ádráttar, missi hlunnindi sín með öllu, úr því að ádráttarveiði er leyfð á annað borð. Og ég vil þá benda á það, að þar sem svona verður á þessum stað og þar sem frv. gerir ráð fyrir að veita nokkra tilhliðrun um sjávarveiði, þá er líka ástæða til, þar sem jarðir eru sviptar svo og svo miklu af verðgildi sínu með slíkum ákvæðum, að nokkrar bætur komi þar fyrir. — Ég bendi á þetta til hægðarauka fyrir þá n., sem fær þetta mál til meðferðar. Annars er, til viðbótar við þær takmarkanir, sem beinlínis eru settar í þessu frv., ráðherra gefið ákaflega mikið vald og þeim veiðimálastjóra, sem á að skipa samkv. þessu frv., — nokkuð á borð við það, sem átti að veita úttektarmönnum hreppanna í ábúðarlagafrv., sem nú liggur fyrir þessu þingi. — Annars stingur það allmikið í stúf við allar þessar auknu takmarkanir á ádráttarveiði, að lengdur sé tíminn, sem draga má á í hverjum sólarhring, frá því, sem er í núgildandi lögum, og er mér það hreinasta ráðgáta, hvernig á því stendur.

Þá skal ég nú hlaupa yfir nokkuð langan kafla hér og minnast þá aðeins stuttlega á þann kafla, sem lýtur að friðun vatnasilungs. Þar á nefnilega að banna alla veiði, aðra en dorgar- og stangarveiði, á tímabilinu frá 27. september til 31. janúar ár hvert, og er þetta miðað við það, að silungur er friðaður að haustinu, og þess vegna þykir ástæða til að banna slíka veiði. Nú er það alkunna, að í ýmsum stærri veiðivötnum er veiði mikið stunduð á þeim tíma; gæti ég trúað, að þeim brygði mjög við, sem búa við Þingvallavatn t. d., því að það er öllum vitanlegt, að þeir veiða mikið á þessum tíma, og svo er það víðar hér á landi með önnur veiðivötn.

Þá er og ráðh. heimilað í þessum sama kafla að banna að nokkru eða öllu leyti silungsveiði, aðra en dorgar- og stangarveiði á tilteknum svæðum, þar sem hitasilungur safnast saman; býst ég við að þar sé átt við Mývatn, og ennfremur þar, sem mikil silungsgengd er til hrygningar og talið er að hætta stafi af.

Þá er ég kominn út að VI. kafla, um veiðitæki og veiðiaðferðir. Þar er t. d. ákvæði um það, að lagnir, sem eigi hafa verið notaðar síðasta veiðitíma áður en lög þessi komu í gildi, megi ekki taka til notkunar nema ráðh. leyfi eftir tillögum veiðimálastjóra. Mér finnst þetta ákvæði nokkuð einkennilegt, og þar sem ekki virðist vera bannað að taka upp nýjar lagnir, sé ég enga ástæðu til að banna þetta frekar, en vitanlega verður það að hlíta ákvæðum núgildandi laga, og svo ákvæðum þessa frv., þegar það er orðið að lögum. En ég sé ekki, við hvað það styðst að banna að taka upp eldri lagnir, því að það er nefnilega svo, að lagnir breytast mjög mikið, áin grynnist og dýpkar á víxl, svo að það verður að taka upp nýjar lagnir og leggja niður aðrar, eftir því hver breyt. hefir á orðið næsta vetur á undan.

Þá eru hér ákvæði í þessum sama kafla um stærð neta, möskvastærð þeirra og annað þess háttar, en ég skal ekki fara að ræða það, til þess hefi ég ekki næga þekkingu, og skal því halda mér við ádráttinn. Þar er sagt, að ekki megi draga á yfir meira en 2/3 hluta árinnar. Ég býst við, að það verði mjög erfitt að ákveða slíkt nákvæmlega, því ef á að leyfa ádrátt á annað borð, þá verður tæplega hægt að halda honum innan þessara takmarka, enda gengur hv. n. og hv. flm. inn á það í aths. sínum, og því fremur verður erfitt að fylgja þessu ákvæði, þar sem algerlega er bannað að hafa fyrirstöðunet, og heldur ekki má vera með grjótkast, eins og algengt er við ádrátt, svo að ég býst við, ef á að fylgja nákvæmlega þessu ákvæði, að það sé alveg sama og að banna ádráttarveiði.

Ég minntist á það áðan, við ákvæðið, að ekki mætti hafa ádráttarnætur nær ósum en 200 metra, að það er algerlega sama og að banna ádrátt, og endurtek ég því þá ósk mína til hv. n., að hún taki þetta til rækilegrar athugunar í sambandi við það dæmi, sem ég nefndi áðan.

Það eru settar nokkuð meiri takmarkanir en áður um það, hvað fastar veiðivélar megi ná langt út í árnar. Áður var það víst svo, að veiðivél mátti vera úti í miðri á, en nú ætla ég, að það sé ekki nema 1/3 af breidd árinnar. Ég býst nú við því, að í breiðum og vatnsmiklum ám muni þetta valda lítilli breyt. frá því, sem nú er, en hinsvegar býst ég við, að þetta muni verða til þess að hefta eða draga úr lagnetaveiði sumstaðar í smærri ám. En það verður líka að taka það til athugunar, að ekki er sumstaðar svo þröngur rammi um lagnetaveiði, að mönnum sé þó ekki algerlega fyrirmunuð sú veiði í smærri ánum, en það er auðvitað hlutverk þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að afla sér upplýsinga um það hjá einstökum þm., hvernig þetta muni koma við í einstökum héruðum, þar sem um laxveiði er að ræða og þeir þekkja til.

Þá er líka lengt nokkuð bilið, sem má vera á milli lagna eftir endilöngu. Það var áður 60 metrar, en er nú lengt upp í 100 metra. Það fer náttúrlega eftir staðháttum, hvort þetta kann að rekast á við nauðsynina á hverjum stað.

Þá er ég nú kominn að VII. kaflanum í þessu frv. Ég bendi aðeins á þau atriði, sem ég hefi við mjög fljótan yfirlestur þessa frv. rekið augun í og þykir ástæða til að vekja athygli hv. landbn. á. VII. kaflinn er um fiskvegi og önnur mannvirki í veiðivötnum. Það segir svo í 36. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi má veiða eða styggja fisk í fiskvegum né nær neðra mynni þeirra en 50 metra og nær efra mynni þeirra en 30 metra“.

Það er nú skýring um það að finna í frv., hvað séu fiskvegir, og það skilst mér, að heyri undir það, hvort sem settur er laxastigi í foss ellegar að sprengt er þannig úr fossinum, að laxinum sé kleif uppganga. Skilst mér, að þá verði algerlega bönnuð öll veiði í hylnum undir fossinum og líka á 30 metra svæði fyrir ofan fossbrúnina, og þar sem hér er skilyrðislaust bönnuð öll veiði, verður að taka það til athugunar. Það má heldur ekki veiða á stöng í þeim hyl, sem er undir fossinum, né heldur nota önnur veiðitæki, því að hér er um skilyrðislaust bann að ræða.

Þá hafa verið tekin upp í frv. lög, sem samþ. voru á síðasta þingi um fiskiræktarfélög, þó talsvert breytt. Ég vil biðja hv. landbn. að taka þann kafla vel til athugunar og þær breyt., sem eru á frv. frá þeim lögum, sem afgr. voru í þessu efni á síðasta þingi. Ég skal ekki minnast á mörg af þeim atriðum nú, það er helzt eitt, sem ég vildi drepa á, en það er kostnaður af fiskiræktarfélögunum, hvernig honum skuli jafnað niður. Þar er gerð breyt. á þeim lögum, sem samþ. voru í fyrra. Þau lög kveða svo á, að kostnaðinum skuli jafnað niður eftir veiðimagni hverrar jarðar, en í frv. er gert ráð fyrir að ¼ kostnaðar verði jafnað niður á jarðirnar eftir fasteignamati jarðanna. Þetta, að miða við veiðimagn, hlýtur að vera réttlátara, því að fasteignamat veiðijarða fer alls ekki að öllu leyti eftir því, hversu háttað er um veiðina. Þar kemur margt annað og því óskylt til greina. Þess vegna álít ég ekki rétt að víkja frá þeim grundvelli, sem lagður var í fyrra í þessu efni. Ég nefni þetta nú til að beina athygli hv. landbn. að því og vona, að hún taki það til íhugunar. Þetta er talsverð breyting á lögunum frá því í fyrra og þarfnast því gaumgæfilegrar athugunar.

Þá kemur IX. kafli, sem er um ófriðun sels. Það mál er alþekkt hér í deildinni. Á undanförnum þingum hefir legið fyrir frv. frá þm. Árn. um ófriðun sels í Ölfusá, en það hefir ekki gengið fram, af því þar er ætlazt til, að ríkissjóður borgi það atvinnutap, sem ábúendur selveiðijarðanna yrðu fyrir vegna ófriðunarinnar.

Hinu var enginn á móti, að ófriða sel, þar sem hann gerði usla í laxveiðinni, ef þeir, sem þar ættu hagsmuna að gæta við laxveiðina, borguðu það tjón, sem selláturseigendur biðu við ófriðunina.

Nú hefir hv. flm þessa frv. smeygt þessu ákvæði inn í frv., að ríkissjóður beri þennan kostnað að svo miklu leyti, sem hann á jarðir þær, sem hér ræðir um, að svo miklu leyti, sem það tap ynnist ekki upp með aukinni veiði á jörðunum sjálfum. En ég álít, að þeir, sem eiga þarna hagsmuna að gæta og hafa von um aukna lax- eða silungsveiði, ef selur væri ófriðaður, eigi að borga þetta, en ekki aðrir. Á þessu vil ég vekja athygli n:

Þá er 1. kafli um stjórn og eftirlit veiðimálanna. Frv. kveður svo á, að atvmrh. skuli hafa yfirumsjón allra veiðimála og skipa veiðimálastjóra og veiðimálanefnd sér til aðstoðar. Veiðimálastjóri skal skipaður til fimm ára og vera launaður af ríkissjóði, en veiðimálanefndina skipa 3 menn. Búnaðarfélagið skal tilnefna einn, Fiskifélagið annan og atvmrh. þann þriðja. Þetta fyrirkomulag á að vera svo þangað til samband íslenzkra fiskiræktarfélaga kann að verða stofnað.

Um kostnað við veiðimálanefnd segir frv. svo:

„Veiðimálanefnd tekur ekki kaup fyrir starfa sinn, en kostnaður við starf hennar greiðist úr ríkissjóði“.

Þetta orðalag orkar tvímælis, og er sjálfsagt að orða þessa málsgr. öðruvísi og nær því, sem hv. flm. mun hugsa sér með henni.

Þá á að skipa eftirlitsmenn við veiðivötn, svo marga sem nauðsyn þykir til. Þeir eiga að hafa eftirlit með, að lögunum sé hlýtt. Þá er heimtuð nákvæm mánaðarleg skýrsla yfir veiði hvers manns, sem eftirlitsmennirnir eiga að safna. Laun sín skulu þeir fá úr sýslusjóði.

Það hljóta að vera miklir erfiðleikar að framfylgja þessum ákvæðum, og þykir mér líklegt, að þau verði ekkert nema bókstafurinn, a. m. k. fyrst um sinn, en kostnaðarsamt hlýtur þetta að verða.

Þar sem eftirlitsmenn eru ekki, eiga hreppstjórar að taka að sér starf þeirra. Að því er séð verður eiga þeir enga borgun að fá fyrir það starf, heldur er þessu starfi bætt á hreppstjórastörf þeirra án sérstaks endurgjalds.

Þá er XI. kafli, um styrkveitingar til fiskiræktar. Þar er gert ráð fyrir, að borgað skuli 1.50 kr. á hvert dagsverk fyrir byggingu klakstöðvar. Klakstöðvar eru nauðsynlegar, og þarf því að láta þær njóta allrar velvildar.

Þá kemur XII. kafli, sem er um skaðabætur. Þar er eitt atriði, sem ég vildi benda á. Það er 2. liður í 69. gr. Sá liður hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hittist maður með veiðarfæri við veiðivatn annars manns fyrir utan venjulega vegi, og skal þá sekta hann sem hann væri sekur um ólöglega veiði, nema sannað sé, að hann hafi átt þar lögmætt erindi“.

Þetta ákvæði virðist mér nokkuð hart, og er líklegt, að það yrði til þess, að saklausir menn yrðu sektaðir. Menn verða að sanna, að þeir hafi átt þarna lögmætt erindi. Það getur nú nokkuð farið eftir því, hvað lagt er í það orð, hvað kallað er lögmætt erindi. Mér virðist þarna gengið lengra í sektarákvæðunum en annars er venjulegt að gera, þó að full ástæða sé til að setja sektarákvæði um alla misnotkun og veiði í heimildarleysi. Það er því ástæða til að taka þennan lið til athugunar og breyta þar orðalagi. (JÓl: Þetta er sniðið eftir landhelgislögunum). Landhelgin er innan ákveðinnar línu, og engir eru teknir þar, nema þeir séu staðnir þar að ólöglegum veiðum. En eftir þessu frv. á að sekta hvern þann, sem er utan þjóðvegar með veiðistöng, ef hann hefir ekki lögmætt erindi, þótt hann sé ekki staðinn að neinum ólöglegum athöfnum. Á þessu er mikill munur.

Ég skal þá ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég er þakklátur hv. form. landbn. fyrir að hafa hlustað á þessa ræðu mína, þó að hv. flm. frv. hafi kosið þann tíma til að ræða um frv., sem venja er að hafa fyrir kaffihlé.