04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í C-deild Alþingistíðinda. (1594)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Magnús Guðmundsson:

Það er hart, að fyrirmæli þessara laga skuli vera svo óljós í mikilvægustu atriðum, að enginn geti úr skorið hvað rétt sé, ekki einu sinni sjálf bankastjórnin. Ég vil því skjóta því til hv. landbn., hvort henni virðist ekki ástæða til að setja ákvæði inn í lögin, er kveði skýrt á um, hver á að borga afborganir af væntanlegu láni sjóðsins, hann sjálfur eða ríkissjóður. Ég veit, að eins og nú er skilja menn þetta á ýmsa vegu, Ef ríkissjóður greiðir afborganirnar, geta 5 millj. kr. alltaf verið í veltu.

Ég skal ekki segja, nema hægt væri a. m. k. fyrst um sinn að komast af með 5 millj., sem alltaf væru í veltu, svo að árlega væri hægt að lána út það, sem inn kæmi. Ég er að sönnu hræddur um, að ekki liði á löngu þangað til þörf væri að bæta við. En það mundi þó verða talsvert lengri tími en með hinu fyrirkomulaginu, ef sjóðurinn á sjálfur að annast útborganir.

Hv. flm. sagði, að það væri ekki svo, að eigendur jarðanna fengju ekkert fyrir sína peninga, sem þeir legðu út, því að þeir eignuðust húsið smátt og smátt. En hann verður að gæta að því, að hann má ekki reikna sér nema 3% af því, sem hann leggur í húsið, jafnvel eftir hans tillögu, og auk þess er eðlileg fyrning hússins. Það er þess vegna langt frá að hann safni nokkurri verulegri eign í húsinu.

Viðvíkjandi því, að lán færu til óverðugra manna, þá var ég ekkert að ávíta stjórn sjóðsins fyrir það. Mér er það vitanlega alveg ljóst, að þessi vottorð, sem heimtuð eru í lögunum, eru alls ekki ábyggileg, alls ekki hægt að treysta þeim yfirleitt. Og þó að stjórn sjóðsins sé vitalaus, fara lánin samt annað en til var ætlazt. En þetta sýnir það, að vottorða fyrirkomulagið er óhæft og þarf að breyta því. Það væri náttúrlega miklu betra eins og hv. flm. (BÁ) stakk upp á, að lánbeiðandi sendi eftirrit af sínu eignaframtali. Væri miklu meiri trygging í því en vottorðum.