12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Guðmundsson:

Ég á eina brtt. við þennan kafla fjárl., sem ég verð að skýra með nokkrum orðum, þó að hér sé reyndar svo fátt manna í deildinni að það taki því varla. En það er nú einu sinni orðin venja, að fáir þm. séu viðstaddir þessa umr., svo að ekki dugir að kippa sér upp við það, enda mun sennilega ekki eftir betra að bíða um áheyrendur.

Þessi brtt. mín er á þskj. 260, undir öðrum tölulið, og er viðvíkjandi Vífilsstaðahæli.

Þegar núverandi yfirlæknir á Vífilsstöðum, Sigurður Magnússon, var ráðinn til hælisins fyrir 20 árum, var svo um samið, að hann skyldi fá ókeypis fæði fyrir sjálfan sig, auk launa sinna. Læknirinn var þá ókvæntur, en kvæntist nokkru síðar, og mun ekki hafa notað sér þennan rétt til fæðis í mörg ár. Þegar Hressingarhælið í Kópavogi var reist var Sigurður Magnússon ráðinn þar læknir með 1.200 kr. launum, en eftir að hann hafði tekið við þessu starfi, lá við borð, að aðstoðarlæknirinn á Vífilsstöðum færi þaðan, vegna þess hve hann var illa launaður. Til þess að missa þennan mann ekki, lét yfirlæknirinn honum eftir læknisstörfin við Hressingarhælið í Kópavogi, en fékk jafnframt sjálfur 1.200 kr. launauppbót, sem átti að svara því, sem hann átti kröfu til samkv. hinum upprunalega samningi um fæðið. 28. des. síðastl. var þessi uppbót tekin af lækninum og honum ennfremur neitað að kaupa matvæli, svo sem mjólk o. fl., af búinu á Vífilsstöðum, sem og að nota bifreiðar hælisins nema gegn fullu gjaldi, eða eftir því sem taxti bílstjóra hér í Reykjavík ákveður.

Ég skal ekki fara frekar út í þetta mál að sinni, en mun að sjálfsögðu gera það, ef andmæli koma fram. Ég vil taka það fram, að ef hv. fjvn. óskar eftir nánari skýringum, mun ég fús til að láta n. þær í té, en hinsvegar er þetta mál svo víðtækt, að ég vil ekki fara nánar út í það nú, nema sérstakt tilefni gefist til, enda eru svo fáir þm. viðstaddir, þeirra sem eiga síðar að greiða atkvæði um þessa till., að til lítils virðist vera að skýra málið. Hins leyfi ég mér að vænta, að hv. fjvn. setji sig inn í málið, áður en hún tekur afstöðu til þessarar till. minnar.