12.04.1930
Neðri deild: 78. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í C-deild Alþingistíðinda. (1603)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil útskýra lítið eitt nokkur atriði, sem ég held, að hv. 2. þm. Skagf. hafi ekki skilið rétt. Fyrir það fyrsta fór hann ekki alveg rétt með orð mín um það, hvernig hægt væri að læra fjármennsku. Ég tók til dæmis, ef ungur maður kæmi til hv. þm. og segðist vilja læra fjármennsku á Reynistað. Það væri mjög líklegt, að hann tæki við honum, en hann er alls ekki skyldugur til þess. Þetta var það, sem ég vildi taka skýrt fram um þetta fyrirkomulag, sem hv. þm. talaði um, að menn lærðu ýmislegt viðvíkjandi búskap hjá fyrirmyndarbændum. Hitt var algerlega rangt hjá hv. þm., að það hefði verið gert að nokkru ráði í ýmsum héruðum landsins, að ungir menn leituðu upp úrvalsheimili og kæmu sér þar fyrir til að kynnast fyrirmyndarbúskap. Ég þekki aðeins eitt dæmi upp á þetta, að ungur maður hafi farið í annað hérað til að kynna sér einhverja grein í fyrirmyndarbúskap. Sá maður var Sigurður Sigurðsson ráðunautur. Hann fór ungur sunnan úr Flóa norður í Bárðardal til að læra fjármennsku. Það er eina dæmið, sem ég þekki í því efni. Þessi viðleitni hjá Sigurði Sigurðssyni var í rétta átt. Hann fór úr sínu héraði norður í Þingeyjarsýslu til að kynna sér alla meðferð á fé, því að þar var fjárræktin komin á hærra stig en í Flóanum.

Við, sem erum með þessu frv., viljum ekki spilla fyrir því, að menn læri sem mest á góðum heimilum. Þetta er bara viðbót og til þess að setja líf í þetta, af því unga fólkið hefir vanrækt þetta. Það eru til mörg myndarleg heimili, þar sem ungar stúlkur geta lært t. d. matreiðslu og alla hússtjórn. En þessi heimili geta ekki kennt öllum þeim stúlkum, sem þurfa að fá fræðslu í þessu. Þess vegna hefir verið komið á fót húsmæðraskóla, þar sem er verkleg kennsla fyrir þær stúlkur, sem vilja búa sig sérstaklega undir það að verða húsmæður. En þar með er ekki lögð niður þessi kennsla á heimilunum. Skólinn er til viðbótar við heimilin og þeim til stuðnings. Það, sem þetta frv. fer fram á, er alveg hliðstætt þessu. Það á að stofna skóla í sveitunum til að bæta það fyrirkomulag, sem nú er. Húsmæðraskólinn, skólinn á Staðarfelli og skólinn á Blönduósi eru allir yfirfullir, og að sumum þeirra er þrefalt meiri umsókn en hægt er að taka á móti. Þetta sýnir, að ungu stúlkurnar vilja fá að læra á þessum heimilum, og það er ekki búið að fullnægja þeirri þörf ennþá. Og það mundi verða alveg sama máli að gegna um þá skóla, sem nú er í ráði að stofna. Ég held því, að þegar hv. 2. þm. Skagf. athugar, að það er ekki á neinn hátt verið að spilla fyrir þeirri miklu kennslu, sem hægt er að fá á heimilunum sjálfum, þá verði hann ekki eins mótsnúinn þessu. Með þessu er verið að vinna fyrir ókomna tímann. Það yrði eitthvað léttara að fá lán, ef sjóðsstj. eða bankastj. vildi láta gera þetta, og sér í lagi ef Búnaðarfélagsstj. vildi láta gera það, og það yrði aldrei lagt út í þessar framkvæmdir; nema Búnaðarþingið hefði ályktað, að þetta skyldi verða gert. Búnaðarþingið hefir ekki mikil fjárráð. Það hefir þó styrkt t. d. kynbótabú, sem yfirleitt hafa misheppnazt. En það hefir ekkert fé til þessara bygginga, en gæti þó ef til vili styrkt þessa starfsemi lítið eitt. Þó að þessar tilraunir, sem gerðar hafa verið, hafi ekki borið mikinn árangur, mega menn ekki láta hugfallast fyrir það. Menn byggja skip og leggja út á hafið, þó að skipin strandi stundum. Hér er líka um dálítið annað að ræða en kynbótabúin. Hér er að ræða um verklega kennslu meðal sveitamanna. Í stuttu máli sagt, þá fara þessar framkvæmdir ekki að öllu eins og hér yrði samþ. Það er ómögulegt. Það verður, eins og hv. þm. sagði, að taka tillit til svo margs annars, þegar til framkvæmdanna kemur. Það er auðskilið mál, að Búnaðarfélagið hefir fyrst og fremst á hendi stjórn þessara búa og skipar öllu niður eins og hentugast þykir í hverjum stað. Þessi bú mundu alltaf eiga undir högg að sækja með styrk, og þannig gæti Búnaðarfélagið alltaf haft það í hendi sinni, hvaða form yrði haft á öllum vinnubrögðum. Ég hefi orðið þess. var, að breyt. sú, sem hv. þm. Mýr. hefir flutt, hefir gert þessa tillgr. aðgengilegri fyrir suma, og máske meiri hl. landbn., þannig, að þegar þeir sáu, að því var fyrirgert, að nokkur eðlisbreyting væri viðvíkjandi sjóðnum, þá voru a. m. k. ýmsir úr n., sem líta svo á, að þetta sé lítilfjörleg till. fyrir sjóðinn, en geti seinna meir orðið til gagns fyrir landbúnaðinn.