25.03.1930
Neðri deild: 62. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Ég skil það ósköp vel, að hv. framsóknarmenn vilja hafa hæstv. dómsmrh. í burtu undir umr., svo að minna verði um hann talað. Þetta er hlutur, sem ekki er hægt að lá þeim, og er miklu mannlegra en sumt annað í framkomu þeirra nú á eldhúsdag. Hegðun hæstv. forsrh. er t. d. mjög undarleg. Fyrst stendur hann hér upp með miklum rembingi og brýnir menn fastlega til andstöðu. En þegar stjórnarandstæðingar verða við áskorun hans og telja upp nokkuð af ávirðingum hæstv. stj. — allt verður aldrei talið, — þá stendur hann aftur upp, kveinar, emjar og æpir yfir því, að verið sé að lengja umr.

Einnig kann ég því illa, að ekki er hægt að eiga smásamtal við hæstv. forsrh., án þess að eiga á hættu, að það komi allt rangfært og öfugsnúið í stjórnarblaðinu. Í Tímanum 22. marz þ. á. er komizt þannig að orði, þar sem skýrt er frá upphafi eldhúsdagsumr., með leyfi hæstv. forseta: „.... Eldhúsdeginum, sem venjulega er við framhald 1. umr. fjárl., var að þessu sinni frestað til 3. umr., og munu tilvonandi „eldabuskur“ hafa farið bónarveg að stj. um að fá þennan frest“. Það er nú enginn vafi, að þessar „eldabuskur“ eru við sjálfstæðismenn. Og úr því að hæstv. forsrh. vill endilega láta skýra frá, hvernig þessum „bónarvegi“ er háttað, þá skal ekki standa á mér. Svo er mál með vexti, að hæstv. forsrh. kom til mín að fyrra bragði löngu áður en framhald 1. umr. fjárlagafrv. átti að vera og spurði mig, hvort við stjórnarandstæðingar kysum ekki að fresta eldhúsdeginum, af því að hæstv. dómsmrh. gæti ekki verið við, hann væri ekki vel frískur. „Getur hann þá ekki komið nema við frestum eldhúsdegi?“ sagði ég. — „Nei, það er ekki það, sem gengur að honum, Ólafur“, — ég nota óbreytt orð hæstv. ráðh. — „Hann liggur með hita og stígur ekki í fæturna í bráð“. „Jæja, látið þið hann þá liggja eins og ykkur sýnist, og látið þið svo fresta eldhúsdeginum, ef þið viljið“, svaraði ég: Þarna geta menn nú séð þann bónarveg, sem við „eldabuskurnar“ höfum farið að hæstv. stj. til að fá eldhúsdeginum frestað. En ég verð að segja það, að mér finnst hart að mega ekki tala fáein orð við forsrh. landsins, þegar hann ávarpar mig að fyrra bragði, án þess að eiga á hættu að sjá samtalið allt afbakað í málgagni hans, ef ekki eru hafðir vottar við.

Enda þótt stj. hafi nú hlotið maklega hirtingu margra flokksbræðra minna hér í d., svo að tæplega sé á bætandi, vil ég þó ekki hætta á að sitja alveg hjá, ef ske kynni að þögn mín yrði misskilin og menn ætluðu, að mér þætti sem stjórnarfarið færi batnandi.

Stjórnarfarið hefir farið dagversnandi, og sjálfsagt heldur það áfram að versna, enda þótt mörgum þyki sem ósóminn geti varla aukizt frá því, sem nú er.

Að þessu sinni mun ég aðallega haga árásum mínum eftir því, sem ræður ráðh. hafa gefið tilefni til.

Hæstv. forsrh. sagði, að hv. þm. Borgf. væri „sérfræðingur í smælki“. En hvaða smælki var nú það, sem hv. þm. Borgf. var að tala um?

Hv. þm. Borgf. sýndi fram á, að ráðh. Tryggvi Þórhallsson hefði svikið flest, sem ritstjórinn Tryggvi Þórhallsson hefði lofað. „Smælki“ hv. þm. Borgf. var því pólitísk æra hæstv. forsrh. „Smælki“, segir forsrh. Ójá, getur verið, að forsrh. hafi stundum farið með staðlausari stafi.

Hæstv. forsrh. þakkar og þakkar og segir, að árásum andstæðinganna sé ekki beint að ráðh. Tryggva Þórhallssyni, heldur ritstjóranum Tryggva Þórhallssyni, og ritstjórinn er orðinn olnbogabarn hjá ráðh.

En það er nú ósamræmið milli loforða ritstjórans og efnda ráðh., sem á er ráðist. Og hver segir, að ritstjórinn sé verri en ráðh.? Er t. d. verra að lofa að fara sparl. með ríkisfé, en að svíkja það með bruðli og sukki? Er vítaverðara að lofa að búa skuldlaust, en að bregðast því og hækka ríkisskuldir um hálfan annan tug milljóna? Er ámælisverðara að lofa að fækka embættum, en að svíkja það og stofnsetja ný embætti með hverju tungli? Eða er fráleitara að lofa að létta af þjóðinni sköttum, en að svíkja það og leggja á nýja og nýja þungbæra skatta? o. s. frv.

Nei, ritstjórinn var ekki lofsverður, satt er það.

En ráðh. er þó sýnu verri.

Hv. 1. þm. Reykv. hefir dróttað því að hæstv. forsrh., að persónuleg óvild hafi valdið því, að ráðh. veitti ekki Magnúsi Jochumssyni póstritaraembættið. Ráðh. svaraði og sagði:

„Ef ég hefði hefnt mín, mundi ég verðskulda þungar ádeilur“.

Og ráðh. fór mörgum og fögrum orðum um mildi sína. Henni til sönnunar sagði ráðh. frá því, að hann hefði átt annan miklu verri fjandmann. Hefði sá stefnt honum fyrir meiðyrði og fengið hann dæmdan til fjársekta. „Og samt sem áður hefndi ég mín ekki“, sagði hæstv. forsrh. Hvílíkur engill! Fyrst atyrðir hann manninn svo ferlega, að hann fær fjársektir fyrir, og svo hefnir hann sín einu sinni ekki!! Það sýnist ekki hafa verið vanþörf að kenna hæstv. forsrh. guðfræði.

En hvers vegna fékk Magnús Jochumsson ekki embættið? Þeirri spurningu verður hæstv. forsrh. að svara, ella mun hann liggja undir ámæli um að nota ráðherravaldið til að koma fram hefndum á gömlum persónulegum óvinum.

Hæstv. forsrh. miklaðist yfir úrslitum bankamálsins. Það mál er í fersku minni og því óþarft að rekja sögu þess. En minna má þó á fáa höfuðdrætti.

1. 3. febr. neitaði stj. að taka við till. sjálfstæðismanna um viðreisn bankans með hverjum þeim hætti, er stj. sjálf kysi. Samtímis boðaði stj. gjaldþrotaskipti bankans.

2. Viku seinna er felld till. sjálfstæðismanna um endurreisn bankans með millj. kr. framlagi úr ríkissjóði, og ríkisábyrgð á sparifé bankans.

3. Enn stendur stj. óbifanleg í nær 3 vikur og þverneitar allri aðstoð til viðreisnar bankanum.

4. 27. febr. bera sexmenningarnir fram viðreisnarfrv. sitt.

Þar með voru 23 þm. orðnir yfirlýstir viðreisnarmenn, og þar með var bankanum bjargað.

Þá snýst hæstv. forsrh. og þá snýst öll stj.

Eftir á reyndi svo stj. að láta líta svo út sem hún hefði sigrað í málinu.

En um hvað var barizt?

Frá upphafi hefir verið barizt um það, hvort standa skyldi við skuldbindingar Íslandsbanka og með því bjarga lánstrausti landsins, atvinnulífi þjóðarinnar og fjármunum 10 þús. sparifjáreigenda. Um þetta og ekkert annað stóð bardaginn.

Aðstaða stj. kemur skýrast fram í þeim ummælum fjmrh., að gjaldþrotaskipti Íslandsbanka mundu styrkja lánstraust landsins! Samtímis talaði hæstv. dómsmrh. um, að sjálfstæðismenn hefðu ætlað að „velta skuldum stærsta gjaldþrotabús yfir á ríkissjóð“. „Sennilega hefir aldrei verið gengið lengra í forsjárlausri ósvífni um fjármál“, bætti dómsmrh. við. Allt þetta hefir nú verið gert. Og það var ríkisstj., sjálf ríkisstj., sem að lokum bar fram og bar fram til sigurs þessa „forsjárlausu ósvífni um fjármál“. Og það er hæstv. forsrh., sjálfur stjórnarforsetinn, sem hælist nú um af þessari „forsjárlausu ósvífni“, sem dómsmrh. talaði um.

Nafn bankans er vitaskuld ekkert höfuðatriði, og að því er snertir stj. bankans, þá liggur það í augum uppi, að ríkisstj. var í lófa lagið að skipa nýja bankastjóra, án þess að nokkurn tíma kæmi til lokunar á bankanum. Ríkisstj. gat vitaskuld þegar í upphafi sett slíkt skilyrði fyrir fjárframlagi bankanum til viðreisnar. Og loks að því er þriðja nýmælið snertir, smábanka þann, sem bætt er við Íslandsbanka, þá gat auðvitað enginn amazt við því.

Önnur eða fleiri nýmæli voru ekki í frv. stj., og þessi nýmæli eru öll aðeins til málamynda, eingöngu í því skyni sett, að hylja nekt þeirrar stj., sem þverskallaðist meðan barizt var um líf þjóðarinnar, en snarsnerist þegar bardaginn færðist yfir á annan vettvang og stóð um líf stj.

Stj. hefir hlotin hina mestu háðung af þessu máli. Þegar hv. forsrh. nú miklast af málinu og lýsir ánægju sinni yfir úrslitum þess, eykur hann aðeins þá háðung. Og þegar hæstv. forsrh. talar um hin „föstu tök stj.“ á málinu, fær maður vart varizt hlátri. Mér dettur í hug atburður frá æskuárunum. Mig bar að, þar sem tveir áflogahundar börðust upp á líf og dauða. Annar var þó mikið betur að manni, og senti hinum í götuna hvað eftir annað. Daginn eftir heyri ég svo þann, sem undir lá, vera að segja frá viðureigninni í kunningjahóp. „Aldrei datt hann, kallinn. Alltaf stóð hann, kallinn“. .

Hann hafði svo sem tekið „föstum tökum“ engu síður en stj.

Um veitingu aðalbankastjórastarfans við Búnaðarbankann, sagði hæstv. forsrh.:

„Ég bar bankann svo fyrir brjósti, að mér datt aldrei í hug að veita öðrum en þeim hæfasta. Ég veitti Páli E. Ólasyni vegna dugnaðar hans og þekkingar á atvinnulífi og samvizkusemi, allt í óvenjumiklum mæli“.

Dugnaður P. E. Ó. er viðurkenndur, þ. e. a. s. sem sagnfræðings, en þekking hans á atvinnulífi þjóðarinnar er hinsvegar lítil, af þeim eðlilegu ástæðum, að því hefir hann aldrei reynt að kynnast. Hann hefir frá æsku sökkt sér í grúsk og vísindi. Og samvizka hans held ég sé eins og hver önnur góð samvizka, –hvorki betri né verri.

Ég efa ekki, að hæstv. forsrh. hafi borið bankann „fyrir brjósti“ og hafi ætlað að leita að „þeim hæfasta“. Í þeirri leit hlýtur þó bankastjóri ræktunarsjóðsins, Pétur Magnússon, að hafa orðið á vegi ráðh. Ég leyfi mér nú að spyrja: Hvaða yfirburði hefir P. E. Ó. umfram P. M. í svo ríkum mæli, að jafngildi þeirri víðtæku þekkingu á öllu atvinnulífi þjóðárinnar, sem P. M. hefir öðlazt með 15 ára málafærslustarfi og 5 ára stj. Ræktunarsjóðsins? Ég spyr þó eigi af því, að ég viti eigi hið sanna. P. M. er a. m. k. ekki síður mikilhæfur maður en P. E. Ó., en hefir alla þekkingu á starfinu umfram hann. Sá, sem leitaði að þeim „hæfasta“, hlaut því að velja P. M. Hitt er svo í samræmi við önnur afrek núv. stj., að gengið var fram hjá þessum mikilhæfa og þrautreynda manni. Hann skorti nefnilega þann hæfileikan, sem stj. alltaf spyr fyrst um. Hann er ekki stjórnarsinni. Sá kostur mun aftur á móti hafa tekið bráðum þroska hjá P. E. 6. á síðustu misserum.

Hæstv. forsrh. var spurður að því, hvers vegna hann beitti sér ekki fyrir vaxtalækkun. Hann svaraði :

„Áður hafði stj. völd yfir Landsbankanum, en nú engin“.

Ég skal rifja málið upp ráðh. til leiðbeiningar.

Á þinginu 1927 bar hann ásamt hv. 2. þm. Árn. o. fl. fram þáltill. um lækkun vaxta.

Í framsöguræðunni komst frsm. þannig að orði:

„Ég lít svo á, sem hann (þ. e. fjmrh.) hafi nóg vald til að framkvæma þessa umbót“. Og nauðsyn lækkunarinnar var rökstudd með því, að bændur voru að „flýja beztu jarðir .... það er glöggur vottur þess, að þeir eru að gefast upp“.

En vextirnir fengust alls ekki lækkaðir, og framsóknarmenn höfðu skýringuna á reiðum höndum. Sjálfstæðismenn voru „óvinir bænda“.

Nú eru „bændavinirnir“ búnir að sitja að völdum í nær 3 ár. Og hvað er um vextina? Hafa þeir lækkað? Ónei. Þeir hafa hækkað!

Eru þá „bændavinirnir“ líka orðnir óvinir bænda“. „Nei“, segir forsrh. „Sjálfstæðismenn höfðu vald yfir bankanum, við ekki“.

Ég skal nú minna hann á orð samherja hans og meðflm., hv. 2. þm. Árn.

Þegar Framsókn og sócíalistar höfðu þverbrotið lögmál siðaðra þjóða og kastað þjóðbankanum út í stjórnmálahringiðuna með valdaráninu fræga á Alþingi 1928, sagði hv. 2. þm. Árn.:

„Við vorum neyddir til að ná valdi yfir bankanum til þess að geta lækkað vextina“.

Hverju svarar hæstv. forsrh. þessum ummælum hv. 2. þm. Árn. Siðlausa framkomu Framsóknar í valdaránsmálinu afsakar hv. þm. með því, að önnur úrræði hafi ekki verið til þess að lækka vextina. Nú hafa vextirnir hækkað, og þá segir hæstv. forsrh., að stj. hafi „engin völd“ yfir bankanum.

Hið sama er, að völd stj. yfir bankanum eru hin sömu og þau voru 1927. Hafi þáv. stj. „haft vald til að framkvæma þessa umbót“, þá hefir núv. stj. þetta sama vald, og hafi þáv. flm. till., hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Arn., ekki aðeins verið að blekkja, verður núv. stj. að lækka vextina, því vextirnir voru háir en eru hærri.

Ráðh. færði þá afsökun fyrir nefndafarganinu, að núv. stj. væri mikið starfsamari en fyrirrennarar hennar. Það er undarleg sönnun á starfsemi og starfhæfni stj., að á annað hundrað menn eru fengnir til að vinna þau verk, sem stj. er ætlað að inna af höndum. Úr ríkissjóði hafa þessir verkamenn ráðh. fengið um 100 þús. kr. Flest er það aðeins bein og bitlingar til dyggra fylgifiska, en afrakstur af starfinu sem enginn. Hæstv. forsrh. vill afsanna þau ámæli með ásökunum hv. 2. þm. Reykv. um, að forsrh. hefði skipað fiskimatsnefndina eingöngu sjálfstæðismönnum. En sú n. er ólaunuð. Þau störf fá sjálfstæðismenn. Hin fá skjólstæðingar stj. Það eru nefnilega launin, en ekki störfin, sem þessir herrar sækjast eftir.

Ég sný mér þá að hæstv. dómsmrh. Ég hefi þó ráðið við mig að rita ekki raunasögu hans í þingtíðindin að þessu sinni; hefði jafnvel alls ekki yrt á hann, ef hann hefði ekki gefið sérstakt tilefni til þess. En þótt ég vegna ýmsra kringumstæðna fari mjúkum höndum um þann syndasel, er viðbúið, að ég neyðist til að taka skörunginn mér í hönd áður en ég fer úr eldhúsinu, og þá lofa ég engu góðu.

Ráðh. hefir nú skemmt dm. með löngum upplestri úr gamalli dagbók Menntaskólans. Segir þar frá uppivöðslu og óþekkt ýmsra skólapilta, og erum við hv. 2. þm. Reykv. þeirra á meðal. Hæstv. dómsmrh. ætlaðist samt sýnilega hvorki til þess, að við hv. 2. þm. Reykv. né aðrir hlytum ámæli fyrir óhlýðnina við kennarana. Hann fór einmitt mjög lofsamlegum orðum um okkur. Nei. Það voru kennarar skólans, sjálfur skólaandinn, sem skeytunum var beint að.

Ég læt mér nægja að benda á, að það er blátt áfram hlægilegt að ætla að sverta kennarana fyrir að taka í lurginn á óþekkum strákum, eins og við hv. 2. þm. Reykv. vorum, og eins og afar margir okkur meiri og betri menn hafa verið í skóla. Kennararnir verða auðvitað að leiðbeina og stjórna drengjunum.

Og um mína kennara segi ég það, að þeir voru mér betri en ég átti skilið, enda var mér mjög hlýtt til sumra þeirra, en ekki í nöp við neinn þeirra, þegar skiptum okkar lauk, og sömu söguna hygg ég, að flestir eða allir mínir skólabræður hafi að segja.

Ég hefi ekki kynnt mér ástandið í skólanum núna, og heyrði því miður ekki þann kafla úr ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem fjallaði um skólann. Hinsvegar hlýddi ég á hæstv. dómsmrh. segja frá því, að heill bekkur hefði gert uppreisn gegn kennara, sem ráðh. taldi „ágætis kennara“, og gegn rektor. Og nú kom til úrskurðar, hvort reka skyldi piltana. Rektorinn hefir sýnilega verið í vafa, því að hann snýr sér til hæstv. ráðh. og spyr hann ráða. ,,Og við Pálmi ákváðum að reka ekki piltana“, segir hæstv. ráðh. Þetta er hinn „nýi andi“, sem ríkir í skólanum.

Ákvörðun P. H. og hæstv. dómsmrh. um að reka ekki piltana, byggist sem sé ekki á réttarmeðvitund þeirra. Það sést gleggst á ummælum ráðh. um piltana. Hæstv. ráðh. sagði nefnilega:

„Piltarnir höfðu í raun og veru á réttu að standa“.

Litlu síðar segir hann svo:

„Ég álít, að piltarnir hafi gert afar mikið af sér. Þeir höfðu á röngu að standa í sínu innsta eðli“.

Hvort er nú rétt? Hæstv. ráðh. veit það ekki. Hann hefir aldrei hugsað málið út frá því sjónarmiði. Það var annað, allt annað, sem réði. Kjarni málsins er í fæstum orðum sá, að P. H. hefir hlotið embættið með þeim hætti, að hann verður að halda vinfengi við nemendurna, hvað sem það kostar.

P. H. hlýtur embættið í samkeppni við 5 kennara skólans, sem allir áttu ríkari erfðarrétt til þess en hann. Allir voru þessir kennarar „ágætir“ að dómi ráðh. En hann treysti sér ekki til að „gera upp á milli þeirra“. Þess vegna útskúfaði hann þeim öllum og setti P. H. í sæti þeirra.

Hvað vissu menn um P. H.?

Í 3 ár hafði hann gegnt kennarastarfi norður á Akureyri og engan orðstír getið sér fyrir sérstakan áhuga eða dugnað. Eftir að hann varð rektor, fylltist hann guðmóði og hélt hina víðfrægu ræðu um leitina að sannleikanum. En ég býst við, að margir muni hafa litið líkt á og ég, að ef þessi áhugi ætti sér dýpri rætur í skapferli P. H., væri vandráðin gáta, hversu lengi honum hafði tekizt að leysa hana.

Og hvað sagði hæstv. ráð. um P. H.? Ráðh. taldi hann „óráðna gátu“.

Æskan er óspillt og öðrum næmari fyrir rangsleitni.

Aðstaða nemendanna til hins unga rektors er því sú, að ýmist eru þeir honum beint andvígir eða framkoman markast a. m. k. af meðvitundinni um það, að sá, sem hefir hlotið hnossið með röngu og á kostnað samverkamanna sinna, á stöðu sína blátt áfram undir hylli nemendanna.

Af þessu hlýtur vitaskuld að leiða hið ægilegasta stjórnleysi.

Hæstv., ráðh. ber alla ábyrgðina á þessum voða, sem skólanum er búinn. Það er hann, sem þannig hefir dælt pestinni inn í skólann, og hvað staðar þá, þótt 8. furðuverk heimsins, hinar marg umtöluðu vindsnældur, dæli ódauninum út.

Í Menntaskólanum er spillingin verk hæstv. dómsmrh. — Í stjórnmálalífinu hlutverk hans.

Hæstv. ráðh. sagði áðan:

„En embættið er ekki til fyrir manninn, eða til þess að maðurinn geti lifað. Mín skoðun er sú, að það eigi bara að leita uppi færasta manninn“.

Keflavíkurlæknishérað losnaði nýlega, og hæstv. dómsmrh. hóf leitina að „færasta manninum“. Jónas Kristjánsson varð á vegi hans. Hann sótti um embættið. Samtímis kom ráðh. auga á Sigvalda Kaldalóns, og enda þótt Sigvaldi væri þess mjög ófús, þröngvaði ráðh. honum til þess að taka embættið.

Það sæti ekki á mér að lasta Sigvalda. Hann er gamall og góður vinur minn. En læknir er hann ekki til jafns við J. Kr., það viðurkenna allir, og auk þess er héraðið erfitt, en Sigvaldi heilsuveill. Samt sem áður valdi hæstv. ráðh. Sigvalda. Af hverju? Var Sigvaldi „sá færasti“ — að dómi ráðh.?

Það vill nú svo vel til, að þessi grunnfærni ráðh. missti út úr sér mikilsverða yfirlýsing um þennan veigamikla þátt málsins, og gaf með því sjálfum sér siðferðisvottorð.

Hæstv. ráðh. sagði:

„Ef J. Kr. hefði sótt svo sem venja er til, en ekki fyrir milligöngu „læknaklíkunnar“, þá hefði ég veitt honum embættið“.

Í þessu liggur skýlaus viðurkenning hins rangsleitna ráðh. á yfirburðum J. Kr. En eingöngu af því, að honum fellur ekki formið á umsókninni, Lægir hann J. Kr. frá embættinu.

Og hvað um fólkið, — héraðsbúa? Hefir ekki einmitt hæstv. dómsmrh. hamrað á því, að fólkið eigi kröfu á því að fá „þann færasta“? Og hvað höfðu héraðsbúar til saka unnið? Ekki gátu þeir haft nein áhrif á form umsóknarinnar. Hvers vegna lætur hæstv. ráðh. þá ofstæki sitt bitna á þeim? Hvers vegna fá þeir eigi að njóta þess, að J. Kr. sótti um héraðið, úr því að ráðh. taldi hann „færastan“, og segist álíta sjálfsagt að veita alltaf þeim „færasta“ sérhvert embætti?

Þessu verður ráðh. að svara, en ég spái, að honum vefjist tunga um tönn, eins og oftar.

Sannleikurinn er sá, að annaðhvort er þessi „lífsskoðun“ ráðh. um frumburðarrétt „þess færasta“ eintómt fleipur og marklaust hjal, eða þá að ráðh. er alls ekki „sjálfráðu gerða sinna“. Því skoðun og breytni ráðh. er í beinni andstöðu hvort við annað.

Að lokum ætla ég að fara fám orðum um stjórnarfarið í landinu.

Hæstv. forsrh., sem að eðlisfari er léttlyndur maður og alvörulítill, sýnist hafa valið sér einkunnarorðin: „Mér er alveg sama“. Hann hefir látið hæstv. dómsmrh. haldast uppi alveg ótakmarkað frelsi til að fara sínu fram. Og sorgarsaga stj. stafar að miklu leyti af þessu athafnafrelsi hæstv. dómsmrh. Framferði hans hefi ég áður lýst hér í d. Læt því nægja að minna á, að lög landsins hefir hann þverbrotið, og síðan sett smánarblett á Alþingi með því að þröngva þingmeirihlutanum til þess að samþ. vísvitandi, sannanleg og sönnuð ósannindi. Borgara landsins hefir hann ofsótt með skipulagsbundinni grimmd. Hæstarétt þjóðarinnar hefir hann margsvívirt. Sjálfstæði landsins hefir hann tvívegis teflt í voða og yfirleitt varpað þeim skugga á stjórnarfarið, að þess eru engin dæmi og verður aldrei endurtekið. Slíkt getur hent þjóðina einu sinni, en ekki tvisvar.

Þótt nú framkoma eða öllu heldur athafnaleysi hæstv. forsrh. virðist benda til þess, að honum hafi legið allt í léttu rúmi, þá þori ég samt að fullyrða, að framan af tók hann margt af þessu mjög nærri sér. Hann var að vísu vanur að lúta handleiðslu þessa manns og að bera vissa ábyrgð á ýmsum óþrifum hans. En þá var hann ritstjóri stjórnarandstöðublaðs, og það var sök sér. En nú var ritstjórinn orðinn forsrh. Hann vildi gæta virðingar hins háa embættis og af meðfæddri hjartagæzku vildi hann heldur gera rétt en rangt, gott en illt. Það er því fullvíst, að hann sveið undan framferði hæstv. dómsmrh. En hann skorti það, sem allt reið á: kjarkinn. Forsjónin hafði ekki fengið honum karlmannslund til jafns við virðingar í þjóðfélaginu. Þess vegna er stjórnarsaga hæstv. forsrh. eitthvert skýrasta dæmi þess, hver ógæfa hugdeigja er þeim, sem í öndvegi sest.

Ein syndin býður annari heim. Hæstv. forsrh. hafði ekki manndáð til að hefta afbrot hæstv. dómsmrh., en fann þó jafnframt, að hann var ábyrgur fyrir misgerðum undirráðherra síns. Ódæðin, sem honum bar að hindra með valdi forsrh., fór hann því að verja, og vel gæti ég trúað, að honum hafi tekizt betur að sannfæra sína eigin næmu sál en marga aðra um, að rangt væri rétt, illt gott.

Og hæstv. forsrh. hefir því miður haldið áfram á hinni hálu braut. Hann er nú sjálfur tekinn að vinna þau verk, sem hann í upphafi þó langaði til að hindra hæstv. dómsmrh. í að gera. Nægir þar að minna á það síðasta og versta: þegar hann veitti Jónasi Þorbergssyni útvarpsstjórastöðuna.

Allir vissu, en enginn þó eins vel og einmitt hæstv. forsrh., að J. Þorb. skorti tilfinnanlega þann kostinn, sem þó mest reið á: óhlutdrægnina. Hæstv. forsrh. gekk því vitandi vits að verki. J. Þorb. fékk ekki stöðuna vegna kostanna, sem hann þurfti að hafa, heldur vegna lastanna, sem hann mátti ekki hafa, og löstur J. Þorb. hafði grimmilegast bitnað á hæstv. forsrh. sjálfum. Því svo einstök er hlutdrægni þessa mann, að allt frá því að hann tók við ritstjórn Tímans, hafði hann látlaust níðst á sínum eigin yfirmanni, hæstv. forsrh. Stundum beinlínis, en langoftast óbeinlínis. Oft með oflofi um aðra forystumenn Framsóknar, en alltaf með seigdrepandi þögninni um hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. gat ekki lengur risið undir hlutdrægni J. Þorb. Þá greip hann til þess ráðs að kaupa sig undan þegjandi ósvinnu J. Þorb., með því að fá honum þá aðstöðu í þjóðfélaginu, að þjóðin öll yrði nú sá píslarvottur hlutdrægnis hans, sem hæstv. forsrh. sjálfur hafði verið.

Sumir fórna sjálfum sér fyrir þjóð sína. Aðrir fórna þjóð sinni fyrir sjálfa sig.

Svona er þá komið fyrir formanninum á stjórnarfleyinu. Um liðið er það að segja, að sumir framsóknarmenn hafa um of hætt mannorði sínu og ef til vill sjálfstæði gegn stj., með því að þiggja af henni bitlinga, en þó hefir rás viðburðanna afhjúpað sócíalistana mikið illþyrmilegar.

Alþjóð hefir lengi vitað, að bezt hefir verið gefið á sócíalistajötuna úr ríkissjóðsstabbanum. En að þeir væru orðnir svo spakir við jötuna, sem raun ber vitni um, hefðu fæstir trúað.

Eitt skýrasta dæmið er bankamálið. Allt fram á síðustu stund voru sócíalistar alveg ákveðnir í því máli. Þeir vildu drepa bankann og ekkert annað. Það var engin uppgerðarilska í þeim, þegar sexmenningarnir báru fram frv. sitt. Nei, þeir voru vondir, alveg fokvondir. Svo vondir, að þeir höfðu ekkert gát á tungu sinni, en létu óbótaskammir dynja á sexmenningunum í blaði sínu, Alþýðublaðinu. Ætlaði stj. að reka sexmenningana? Eða ætlaði stj. kannske að láta þetta „varalið“ sjálfstæðismanna kúga sig? Þannig spurði Alþýðublaðið.

En fám dögum síðar, þegar stj. var runnin til þess að bjarga lífi sínu, þá var eins og einhver hefði rekið títuprjón í sósíalistabelginn. Þeir þögnuðu, steinþögnuðu, og hugsuðu um beinin sín.

En þó átti háðung þeirra að aukast og margfaldast.

Þegar gorgeirinn í þeim var sem mestur, fann hv. þm. Mýr. sig knúðan til að hirta þá hér í d. Hann sagði, að þeir væru kámugir, pólitískir vergangsmenn, sem Framsókn hefði hirt af götu sinni, alið og hýst, sett til mennta og virðingar, allt í því trausti, að ábyrgðartilfinning þeirra ykist. En það hefði nú farið á annan veg. Svangir hefðu þeir etið — mikið, ótrúlega mikið. Þreyttir hefðu þeir hvílt sig, en kámugir hefðu þeir ekki þvegið sér, og kámugir væru þeir enn.

Þannig þakkaði einn aðalráðamaður Framsóknar stuðninginn við stj.

Þeir, sem þekkja hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf., vita, að þeir reiðast stundum af minni sökum. Hver einasti maður með óbrjálaða velsæmistilfinning hlaut að standa upp, beina máli sínu til forsrh. og spyrja, hvort hér væri talað fyrir hans munn, og ef svo var, þá var sá einn kostur að lýsa vantrausti á stj.

En hvernig fór? Þeir þögðu. Steinþögðu. Líklega hefir eitthvað staðið í þeim, sennilega bein.

Svo sterkir eru gullarmar ríkissjóðs, og svona spakir eru sósíalistar á jötunni. Þeir hreifa sig ekki, þótt á þá sé sigað.

Svona er þá stjórnarliðið. Þó lifir endurminningin um stj. sjálfa sjálfsagt lengur. Ein eftirminnilegasta myndin í safninu því er af ráðh. þremur.

Forsrh. miklast af sigri stj. í bankamálinu, nýr hendurnar og talar um „föstu tökin.

Fjmrh. lýsir yfir því úr ráðherrastól, að lánstrausti landsins verði bezt borgið með svikum og prettum, og dómsmrh. stritast við að skrifa einum helzta sérfræðingi Norðurlanda í sálsýki 10 dálka opið bréf til sannindamerkis um að ráðh. sé óbrjálaður!!!!

Ekki er að furða, þótt við þykjumst geta haldið veglegt gestaboð á 1000 ára hátíðinni undir slíkri forustu.