16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í C-deild Alþingistíðinda. (1618)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Það var haldinn fundur í landbn. í morgun til þess að athuga þetta frv., en einungis meiri hl. n. var mættur. Við höfum samt athugað frv. eftir föngum og borið okkur saman við bankastjóra Búnaðarbankans, sem það er upphaflega komið frá. Skal ég nú í stórum dráttum gera nokkra grein fyrir þeim breyt., sem frv. gerir á núgildandi lögum.

Fyrsta aðalbreyt., sem í frv. felst, er að 4. gr. laganna falli burt. Með því er það alveg lagt á vald bankastj. Búnaðarbankans, hvort lán skuli veitt til að endurreisa gamla bæi, eða til þess að reisa nýbýli á óræktuðu landi. Eftir 4. gr. gildandi laga ganga gamlir bæir fyrir í þessum efnum og nýbýli á ræktuðu landi, en með þessari breyt. eru nýbýli á óræktuðu landi gerð jafnrétthá.

Önnur breyt. er við 5. gr., og er aðeins smábreyt. Er mælt svo fyrir, að lán til nýbýla á óræktuðu landi skuli standa afborgana- og vaxtalaus fyrstu fimm árin, en síðan endurgreiðast á 50 árum.

Loks er 3. gr. frv., sem gerir allmikla breyt. á 9. gr. gildandi laga. Hnígur hún í þá átt, að tryggja betur rétt eigenda en samkv. gildandi lögum. Nú má eftirgjald af uppbyggðri jörð ekki fara fram úr 4% landverðs að viðbættum2% húsaverðs, en samkv. þessu frv. má það nema allt að 5% landverðs og 4% húsaverðs. Þetta er töluverð réttarbót fyrir eigendur jarðanna. Ennfremur er hætt nýrri málsgr. við 9. gr. laganna, sem gengur út á það, að ef lán er greitt áður en það er fallið í umsaminn gjalddaga, þá sé lánþega að jafnaði skylt að endurgreiða til sjóðsins þann vaxtamun, sem hann hefir notið við að fá féð úr sjóðnum.

Ennfremur er stj. sjóðsins heimilt að lána til fjögurra fyrirmyndarbúa, eins í hverjum landsfjórðungi, enda sé í því farið eftir till. Búnaðarfélagsins. Meiri hl. virðist þetta réttmætt og fellst á þessa breyt. Þá má enn geta þess, að skilyrðin til nýbýla í sveitum skal hér eftir ákveða í reglugerð, en ekki bindast af lögum. Nefndin er eftir atvikum samþykk öllum þessum breyt.

Ég gleymdi að geta þess í sambandi við 5. gr., að samkv. Búnaðarbankalögunum getur ekki lengur átt við að fela stj. Ræktunarsjóðsins umsjá sjóðsins. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að tala lengra mál fyrir þessu, nema andmæli komi fram.