25.03.1930
Neðri deild: 62. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, fjárlög 1931

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég hefi nú hlustað á ræður þeirra hv. þm. Dal., hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. G.-K., síðan á hádegi. Mig hefir satt að segja hálfsyfjað undir lestri hv. þm., enda þótt það hafi verið misjafnlega mikið.

Hv. þm. Dal. hélt fyrst hjartnæma ræðu, sem var að mestu leyti árás á Tímann. Það er nú orðið svo langt síðan, að ég var ritstjóri Tímans, að ég nenni ekki að fara að elta ólar við hv. þm. um það, sem þar hefir staðið. Þetta ætti fremur heima í blaði hv. þm. en í ræðu á eldhúsdegi, og ef Íslandið er dautt, ætti hv. þm. að geta fengið innhlaup annarsstaðar. Annars finnst mér það óviðkunnanlegt að vera að tala um það hér á þingi, hvort þessi eða þessi þm. hafi skriðið fyrir Dönum. Og þó að einhver tali um það, að hv. þm. Dal. skriði fyrir Dönum, þá skora ég á hann að láta því ósvarað. Ef hann treystir sér ekki til þess, mætti skoða það sem vott um fremur slæma samvizku.

Hv. þm. Dal. spurði, hvort ég hefði ekki gleymt að biðja um lausn vegna þess, að Íslandsbankamálið hefði gengið mér á móti. En það var svo fjarri því, að málið gengi mér á móti, því að ég var einmitt mjög ánægður með úrlausn þess. Hv. þm. sagði, að ef ég hefði gert það, myndi samúðarbylgja hafa streymt um mig. Hún hefi þegar streymt um mig vegna þeirra úrlausnar, sem varð á málinu, en hvort hún hefði orðið meiri, ef ég hefði sagt af mér, skal ég ekki um segja. Annars þótti mér gott að heyra þetta frá hv. þm. Dal.

Hv. þm. Vestm. flutti hér langa ræðu um Síldareinkasöluna, og beindi henni að miklu leyti til mín. Hann ætlaðist til, að ég gæfi hér skýrslu um Síldareinkasöluna. En ég verð að segja hv. þm. það, að ef hann óskar eftir, að atvmrh. gefi skýrslu um fyrirtæki, sem er rekið sjálfstætt eins og Síldareinkasalan, þá ætti hann ekki að koma fram með þá ósk á eldhúsdegi. Hann ætti í stað þess að flytja hana í fyrirspurnarformi hér á þingi. Ég veit að hv. þm. ætlast ekki til, að atvmrh. geti fylgzt með slíkum fyrirtækjum í einstökum atriðum. En nú vill svo til, að hér á þingi eiga þrír menn sæti, sem munu vera allkunnugir Einkasölunni. Það eru þeir hæstv. fjmrh. og hv. þm. S.-Þ., sem hafa verið endurskoðendur hennar, og hv. 2. þm. S.-M., sem hefir verið forstjóri hennar. Ég býst við, að hæstv. fjmrh. geti gefið hv. þm. Vestm. einhverjar upplýsingar. Annars get ég gert ráðstafanir til að fá upplýsingar um einstök atriði og veita hv. þm. Vestm. úrlausn síðar.

Eftir að hv. þm. Vestm. hafði lokið ræðu sinni um Síldareinkasöluna, sneri hann sér að stj. yfirleitt. Sérstaklega þótti honum varhugavert, hve mikil tök jafnaðarmenn hefðu á stj.

Í því efni kom hv. þm. með tvö dæmi. Annað var ríkisútgerðin á Esju. Áður var það Eimskipafélag Íslands, sem sá um útgerð þess skips. En þetta átti að bera vott um það, að stj. væri farin að hallast að stefnu jafnaðarmanna, en ég held, að engir þm. jafnaðarmanna hafi haft neina hugmynd um þessa tilhögun, fyrr en þeir sáu bréf frá mér í Tímanum um það efni. Esja var þjóðnýtt áður og er þjóðnýtt enn, svo að hér er um enga stefnubreyt. að ræða. Hvort það er Eimskipafélagið, sem hefir á hendi stj. skipsins, eða fyrrv. skipstjóri þess, skiptir engu. Þegar þessi ákvörðun var tekin, var ómögulegt að fá að vita um það, hver ætti að taka við stj. hennar. Emil Nielsen, hinn gamli, ágæti ráðunautur stj., var farinn frá Eimskipafélaginu, en enginn vissi, hver við tæki. Nú gerðum við þessa tilraun og við skulum sjá, hvort nokkuð hefst upp úr því, að þessi maður á að koma skipulagi á ferðir flóabátanna, starfsemi, sem ríkinu allt til þessa hefir orðið mjög dýr. Ef þetta gefur engan árangur, en meiri kostnað, þá höfum við hlaupið af okkur þessi horn, en ég álít rétt að reyna þetta.

Hitt atriðið, sem átti að sýna sterk áhrif frá jafnaðarmönnum, var það, að ég hefði ásamt fleirum greitt atkv. með því, að sá styrkur, sem heimilað er í fjárl. að veita Eimskipafélagi Íslands, skyldi ganga til hlutabréfakaupa í félaginu. Ég skal geta þess, að ég álít að það, sem borið er fram á móti þessu, hafi nokkurn rétt á sér, en hitt vil ég segja alveg hiklaust, að það er ekki nema eðlilegt, þótt stj. vilji að ríkið eignist eitthvað meira í félaginu, þegar það á ekki nema eitthvað 16.–17. hluta þess, og ekki sízt vegna þess, að félagið fær að njóta ýmsra hlunninda af hálfu hins opinbera. Þegar svo er ástatt, virðist ekki nema eðlilegt, að stj. ríkisins óski aukinnar þátttöku fyrir sig í stj. félagsins. Ef það eru áhrif frá jafnaðarmönnum, þá eru það a. m. k. ekki nein skaðleg áhrif.

Svo kom eitt atriði í ræðu hv. þm., sem mér fannst vera sletta, mjög óviðeigandi. Það kom fram hjá hv. þm., að það væri ekki von að vel færi með Síldareinkasöluna, þegar stj. fengi bændur ofan úr sveit til að vera endurskoðendur hennar. Ef einhver annar hefði sagt þetta, þá þætti það víst ekki bera vott um mikla virðing fyrir bændastétt þessa lands, sem felst í slíkum orðum, að aðeins þetta, að þeir væru bændur ofan úr sveit, gerði þá óhæfa til að vera endurskoðendur þessarar stofnunar. Hér er að ræða um form. Sambands. ísl. Samvinnufélaga, mann, sem um mörg ár hefir með mesta hróðri staðið fyrir stóru kaupfélagi, auk þess sem hann hefir verið settur sýslumaður og bæjarfógeti í einni af hinum stærri sýslum þessa lands. Hinn er formaður í stærsta og ríkasta kaupfélagi landsins. Þar að auki höfðu þessir menn þá sérstöðu, að þeir voru alþingismenn, en Alþingi hafði sett þessa stofnun á fót, og þar er ein ástæðan til þess, að ég álít það sérstaklega gott, að tveir af þingfulltrúum þjóðarinnar voru settir til þessarar endurskoðunar, til að hafa eftirlit með þessari stofnun. Ég vísa þannig algerlega á bug þessari slettu hv. þm. Þessi ráðstöfun er algerlega óaðfinnanleg, og sú breyt., sem orðið hefir á af því, að Jakob Karlsson hefir verið skipaður endurskoðandi Einkasölunnar, er þess eðlis, að þótt hann sé um leið stærsti bóndinn á Akureyri, get ég ekki tekið á móti neinum ákúrum eða slettum fyrir bað.

Þá kem ég að ræðu hv. 2. þm. G.-K., sem veitti mér þann heiður að tala miklu meira um mig en bæði hv. þm. Dal. og hv. þm. Vestm. Verð ég þá í launaskyni að beina nokkrum orðum til hv. þm., þótt þau verði sjálfsagt ekki eins mörg og hann beindi til mín.

Ég verð að segja það svona almennt um ræðu hv. 2. þm. G.-K., að mér fannst hún ekki nærri því eins skemmtileg og myndarleg eins og sumar aðrar ræður, sem hann oft hefir flutt. Hv. þm. býr sig oft vel undir ræður sínar og flytur oft góðar, formlegar ræður, kryddaðar mörgum skemmtilegum orðum. Sérstaklega var fyrri partur ræðu hv. þm. mjög þunnur og samhengið mjög lítið. Um allan þann part ræðu hv. þm. var það auðséð, að hann hafði ekki sérstaklega undirbúið sig, en hafði auðsjáanlega heyrt ýmislegt úr ræðum hv. 1. þm. Skagf., hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Reykv. Nú tók hv. þm. þessi atriði upp, til þess að reyna að rétta hlut þeirra, og útskýrði ýmislegt, sem þeir höfðu sagt. Ég álít, að þetta sé tæpast samboðið manni, sem telur sig einn aðalforgöngumann Íhaldsflokksins, að vera svona að hirða spörðin hjá sínum undirmönnum. Hann á ekki að þurfa þess. Hv. þm. Borgf. var að hjálpa hv. 1. þm. Skagf., og nú er hv. 2. þm. G.-K. að hjálpa þeim báðum og minnti það mig á það, sem Sveinki karl sagði: „Era héra at borgnara, þótt hæna beri skjöld“.

Hv. 2. þm. G.-K. kvartaði undan einhverri smágrein, sem hefði staðið í Tímanum út af eldhúsdeginum. Ég verð nú að játa það, að ég hafði ekki lesið þessa smágrein og furðar mig á, að hv. þm. skuli láta sér finnast til um hana, en ég get sagt hv. þm. það, að fullt samkomulag varð um það af allra hendi, að hafa þessa tilhögun, sem er um eldhúsdagsumr., og ég veit ekki annað en að allt, sem ég og forseti þessarar d. höfum lofað, hafi verið efnt og haldið. Ennfremur vil ég segja það, að það er okkur öllum til sóma; að þessi breyt. var á gerð, að þessum eldhúsdagsumr. var hnýtt aftan í 3. umr., því að það tefur þingið miklu meira að hafa þær við frh. 1. umr., því að önnur afgreiðsla fjárl. verður að bíða á meðan, en eins og nú er, getur fjvn. Ed. farið að vinna, þó að þetta sé haft svona, svo að afgreiðsla fjárl. tefst miklu minna.

Svo vil ég þá víkja að einstökum atriðum í ræðu hv. 2. þm. G.-K. Hv. þm. talaði langt mál og mjög persónulegt út af veitingu póstritaraembættisins, og talaði mikið um þau rök, sem ég hefði borið fram. En ég tók það mjög skýrt fram, að ég bar ekki nein rök fram, í svo persónulegu máli er ekki hægt að bera fram nein rök, það liggur engin staðreynd fyrir um það, með hvaða hugarfari ég hafi ráðstafað þessu embætti, en um það mun ég ekki ræða frekar, hvern dóm sem hv. þm. leggur á þetta verk mitt. Ég hefi gert grein fyrir þessu atriði frá minni hendi, en af því að það eru ekki rök, þá ætla ég ekki að fara að ræða frekar um það. Ég lýsti yfir því alveg skýlaust, þegar þetta mál bar hér á góma, að ég hefði ráðstafað þessu embætti með það eitt fyrir augum að fá þann mann, sem ég bar bezt traust til að geta staðið undir þeirri miklu fjárhagslegu ábyrgð, sem fylgir rekstri þessa embættis.

Svo vék hv. þm. að bankamálinu. Um það er ég ófáanlegur að rökræða í einstökum atriðum, en það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að ég er mjög vel ánægður með úrslit þess máls; en ég er hinsvegar ekki sammála hv. þm. um, að barizt hafi verið um það, hvort ætti að standa við skuldir Íslandsbanka eða ekki, það væri máske réttara að orða það svo, hver ætti að standa við þær. Það, sem barizt var um, var það, hvað ríkið ætti að fórna miklu, hve mikið væri í húfi, og hvernig ríkið slyppi léttast. Ég álít, að sú niðurstaða, sem fékkst, hafi verið mjög farsælleg. Við getum nú komizt hjá því að demba öllu yfir á ríkissjóð, eins og stjórnarandstæðingar vildu. Margar milljónir króna fengust annarsstaðar frá með þessari aðferð, og ég álít, að þetta spor, sem við höfum stigið, að stofna nýjan banka, sem yfirtæki þann gamla, hafi verið mjög farsælt. Hinsvegar þykir mér það ekkert undarlegt, þótt íhaldsmenn tali um þetta mál með mikilli beiskju, vegna þess að það er enginn vafi á því, að íhaldsmenn voru farnir að gera sér miklar vonir um afleiðingar þessa máls. En þeir urðu fyrir átakanlegum vonbrigðum, og er von, að þeir séu gramir yfir því enn, því að „blóðnætur eru bráðastar“. Þetta mál er jafnvel ekki enn endanlega til lykta leitt, svo að það er ekki nema eðlilegt, þótt andstæðingarnir þurfi að láta koma fram þau vonbrigði, sem þeir hafa orðið fyrir. Annars fannst mér að hv. 2. þm. G.-K. væri að tala um þann mikla sigur, sem unninn hefði verið, og held ég þá, að sá hv. þm. mætti vera ánægður. En ég álít, að við megum nú heim fara og bíða rólegir úrslita, því að „bíðendur eiga byr, en bráðir andróða“.

Um Búnaðarbankann sagði hv. þm. nokkur orð, og um tvo bankastj. við þann banka, þá dr. Pál E. Ólason og Pétur Magnússon. Þeim miður viðeigandi orðum, sem hv. þm. viðhafði um dr. Pál E. Ólason, nenni ég ekki að svara aftur, því ég hefi látið í ljós álit mitt um þau og hefi þar engu við að bæta. En þegar hv. þm. er að tala um það, að hverju leyti Pétur hafi verið betri en Páll, og hvers vegna ég hafi ekki tekið hann, þá er því til að svara, að ég tók hann, því að ég tók báða, svo að þessir góðu hæfileikar, sem þeir hafa, njóta sín nú vel við bankann. (ÓTh: Annar er undirbankastjóri). Já, annar er undirbankastjóri, en hann er bankastjóri við bankann, og báðir leggja vitanlega fram sína krafta svo sem ætlast er til. En þegar hv. þm. er að spyrja mig, hvers vegna ég hafi ekki viljað nota nema hæfileika annars, þá er það eintóm fjarstæða, því að ég nota hæfileika beggja.

Hv. þm. talaði svo töluvert um þá till., sem hv. 2. þm. Árn. og ég bárum fram á þinginu 1927, um vaxtalækkun. Þá skorti ekki umhyggju fyrir bændunum. En hvað hefir sá hv. þm. og flokksmenn hans gert síðan? Og hvað höfum við gert síðan? Við höfum síðan stofnað landbúnaðarbanka, til að taka að sér að inna af hendi útdeilingu lánsfjár til bænda. Það er nú verið að vinna að því af mesta kappi að semja reglugerðir um það efni, og nú fáum við að sjá þá stofnun rísa með þeim beztu kjörum, sem við getum boðið. Ég vona að hv. þm. fái að sjá mjög góðan árangur af því, hvernig leyst verður úr vaxtaspursmálinu og lánsfjárspursmálinu.

Um vitavörðinn á Reykjanesi þarf ekki margt að segja. Hv. þm. vildi ekki fara inn á málið sjálft, og mér finnst það koma fram í ræðu hv. þm., að hann er ekki að áfellast það, að manninum var vikið frá, en spurði aðeins, hvers vegna manninum hefði ekki verið vikið frá fyrr. Því skal ég enn svara. Mér var ekki kunnugt um margt, sem dregið var fram í frásögn vitamálastjóra fyrr en þá. Hann er vitanlega trúnaðarmaður landsstj. og málið barst ekki upp í hendurnar á mér, nema hvað ég vissi um þann spíritus, sem hann hafði fengið árið 1928. Það er ekki fyrir meira en hálfum mánuði, sem ég fæ að vita um þetta. Þann hluta af starfi vitamálastjóra, sem er innifalinn í því að líta eftir vitum og vitavörðum, er ég viss um, að hann rækir með stakri samvizkusemi, og ég trúi honum fullkomlega til að hafa eftirlit með því af hálfu landsstj. En það, sem gerði að þessi vitavörður var ekki settur af 1928, var það, að vitamálastjóri lagði það ekki til þá, heldur fyrst 1930.

Út af þeim nefndaskipunum, sem hv. þm. talaði um nokkuð almennt og spurði, hví hefði þurft að skipa marga menn í n. til að vinna verk, sem stj. hefði unnið sjálf áður. Ójá, ef hv. þm. álítur, að málið liggi þannig fyrir, þá er ekki von að hann skilji mikið í því. En mennirnir voru ekki skipaðir til að vinna þau verk, sem íhaldsstj. vann áður, heldur til að vinna þau verk, sem hún hafði vanrækt áður, og einmitt af því að svo mikið var vanrækt, hefir þurft nokkuð margar hendur til að kippa því í lag, til að fá betra skipulag. Og það er einmitt það, sem þessir menn eiga að vinna, það sem hinir unnu ekki, en vanræktu.

Svo komu nokkrar almennar aths. um stjórnarfarið, að hv. þm. hefði haft ýmsar vonir um að það mundi snúast til hins betra, en þær vonir hefðu alveg brugðizt. Ég verð að segja það, að ég hefi alltaf haft samúð með þeim mönnum, sem hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. En svo komu ýms stóryrði um mig persónulega og hina í stj., og álít ég alveg tilgangslaust fyrir mig að fara að tala um það, sem hv. þm. sagði um mig persónulega, en hvað snertir það, sem hv. þm. sagði um meðstjórnendur mína, þá vil ég aðeins minna á málsháttinn forna, að „þeir lifa lengst, sem með orðum eru vegnir“. Og þótt þessum orðum væri aðallega hreytt til mín, þá fannst mér þó samt felast meiri ásökun í þeim til meðstarfsmanns míns, hæstv. dómsmrh., en þar stendur nokkuð sérstaklega á. Við eigum öðru hvoru að sækja okkar dóm til þjóðarinnar, kjósendurnir hafa valdið í sínum höndum, og þangað eigum við allir að skjóta okkar málum og sækja okkar dóm. Þessi maður, sem hv. 2. þm. G.-K. hefir ráðizt á með hörðum orðum, á nú að fara að sækja slíkan dóm. Það stendur nú svo á, að kjörtímabil hans er útrunnið í sumar, og vil ég nú beina þeirri spurningu til hv. þm., hvort við eigum nú ekki að láta kjósendurna dæma um hæstv. dómsmrh. Ég fyrir mitt leyti kvíði engu um það, hvernig kjósendur Íslands munu fella dóm í því máli.