16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í C-deild Alþingistíðinda. (1621)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

* Hæstv. dómsmrh. hefir að miklu leyti svarað hv. 3. landsk., en ég ætla að bæta dálitlu við. Mér skildist hv. 3. landsk. hafa eitthvað að athuga við fyrstu breyt. um að heimila lán til nýbýla. En ég held, að það ákvæði sé nauðsynlegt. Ég álít, að það sé alls ekki rétt að taka ekki fullt tillit til þeirrar hreyfingar, sem gerir vart við sig alstaðar á landinu, að skipta stórum jörðum í margar smærri, vegna þeirra breyt., sem orðið hafa á atvinnuháttunum. Nú er ekki lengur hægt, eins og í gamla daga, að reka búskap á stórum, lítt ræktuðum jörðum. Til þess þarf miklu fleira vinnufólk en nú er hægt að hafa. Einnig er mjög óheppilegt að játa þessar stóru jarðir liggja ónotaðar. Enda er reynslan sú, að menn vilja skipta stórum jörðum á milli barna sinna, og þá er mjög eðlilegt, að í einstökum tilfellum, þegar öruggt er, að um heilbrigt fyrirtæki sé að ræða, sé heimilt að veita lán. Búnaðarbankinn vill þess vegna fá slíka heimild, en bankastj. mun ekki nota hana, nema þegar sérstaklega stendur á. Undir góðri bankastj. þurfum við alls ekki að óttast, að þetta verði misnotað.

Aðalmótbárur hv. 3. landsk. snúast um 9. gr., en þó getur hann ekki haft neitt á móti þessum breyt. á 9. gr., því að þær miða að því að gera gr. aðgengilegri fyrir hann og þá, sem eru sömu skoðunar og hann. Hv. 3. landsk. hélt því fram, að ekki væri hægt að byggja upp á leigujörð, nema skaðast á því. Ég býst við, að það hafi verið satt, — maður fær ekki lán nema með 4% vöxtum, en leigði hinsvegar fyrir 3%. Nú er það hækkað upp í 4%, svo að menn ættu að vera skaðlausir. Það er ekki tilætlunin — og má ekki vera — að hjálpa mönnum til að græða á því að byggja yfir aðra. Tilætlunin er sú, að sem flestir geti fengið boðleg hús með þolanlegum kjörum, og hlunnindin eiga að koma ábúandanum sjálfum til gagns.

Hv. 3. landsk. var mjög óánægður með viðbótina við 9. gr. Ég skal játa, að hún er ekki í svo föstu sambandi við það, sem á undan er komið, sem æskilegt væri, ef ekki fylgdi skýring bankastj. Það er ekki rétt að hegna þeim manni, sem vill greiða sínar skuldir. Ef bóndinn getur borgað lánið án þess að lenda í braski, á hann að eiga þess kost, og ekki sæta hegning fyrir. Búnaðarbankastj. vill bara hafa heimild til að fá endurgreiddan mismun á vöxtum, ef sá bóndi, sem um er að ræða, lendir í einhverju braski. Mér finnst fyllilega réttmætt að setja þetta skilyrði. En það hefði verið skýrara frá þessu gengið, ef ekki hefði verið þetta flaustur á öllu nú síðustu dagana. Og eins og ég hefi áður tekið fram, eiga aths. hv. þm. við lögin eins og þau eru, en ekki brtt.

Hv. 3. landsk. sagði, að hæstv. dómsmrh. ætti orðið lítið í þessum lögum. Þetta skiptir nú ekki miklu máli, en ég verð samt að mótmæla fullyrðing hv. þm., því hæstv. dómsmrh. á alveg ómótmælanlega hugmyndina að þessum lögum. Það var hann, sem fyrstur flutti hugmyndina inn í þingið. Síðan hefir svo þessi hugmynd þroskazt og skýrzt, eins og alvanalegt er. Ég skal ekki neita því, að það má að vísu deila um það, hvort heppilegt hefði verið að hafa sérstakan gróðaskatt, eins og hæstv. dómsmrh. hugsaði sér í öndverðu, eða ekki, en aðalhugsun frv. hefir haldið sér, að öðru leyti en því, að gróðaskatturinn hefir verið felldur niður. Hæstv. dómsmrh. á mikinn heiður og fulla þökk skilið fyrir að eiga frumkvæðið að þessum lögum, en hreint ekkert ámæli.